Skip to content

Ingi húsvörður lætur af störfum

Ágúst Ingi Ágústsson eða Ingi húsvörður lét af störfum í íþróttahúsi Gróttu fyrir rétt rúmrí viku síðan. Ingi hóf störf í íþróttahúsinu 2. janúar 1989 og hafði því starfað samfleytt hjá Seltjarnarnesbæ í tæp 29 ár.

Á þeim langa tíma sem Ingi starfaði hér hefur margt breyst. Þegar Ingi kom til starfa var hér einungis einn íþróttasalur (litli salur) inngangur íþróttahússins var sá sami og í sundlaugina í dag. Nokkrum dögum eftir fyrsta starfsdag Inga var stóri salurinn vígður og inngangur í íþróttahúsið færður þangað sem við þekkjum hann í dag. Nokkrum árum síðar eða árið 1999 lauk byggingu á fimleikasalnum og því ljóst að aðstaða og starfsumhverfi Inga breyttist hratt á fyrstu starfsárum hans.

Ingi var alltaf viljugur að aðstoða starfsmenn og iðkendur allra deilda hjá Gróttu á hans löngu starfsævi hér hjá Gróttu. Hann hefur auk þess gríðarlega þekkingu á íþróttamannvirkjunum og þeim tækjum og tólum sem fylgja stóru mannvirki eins og íþróttahúsi Gróttu.

Íþróttafélagið Grótta vill þakka Inga kærlega fyrir samfylgdina og allan hlýhuginn og aðstoðina sem Ingi hefur haft í garð Gróttu. Á kveðjuhófi sem haldið var Inga til heiðurs var honum veitt gullmerki félagsins fyrir áralangt starf í þágu Gróttu. Hér að neðan má sjá nokkrar myndir úr hófinu.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print