Skip to content

Í ljósi #meetoo umræðunnar

Undanfarnar vikur og mánuði hefur farið fram mikil umræðu í tengslum við #meetoo byltinguna á öllum stigum samfélagsins, nú síðast meðal íþróttakvenna. Íþróttafélagið Grótta tekur umræðuna mjög alvarlega enda er ljóst að alltof víða er pottur brotinn í viðhorfi og hegðun gagnvart konum innan íþróttahreyfingarinnar.

Íþróttafélagið Grótta hefur unnið jafnréttisáætlun, forvarnarstefnu og siðareglur fyrir þjálfara, iðkendur, foreldra og stjórnarmenn og hafa öll þessi gögn fengið samþykki í tengslum við fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Allar þessar áætlanir eru aðgengilegar á heimasíðu Gróttu hér. Auk þess er þar hægt að nálgast bækling ÍSÍ um kynferðislegt ofbeldi í íþróttum.

Á síðasta aðalstjórnarfundi Gróttu var ákveðið að fara í endurskoðun á þessum áætlunum í ljósi #meetoo umræðunnar og er sú endurskoðun í fullum gangi. Grótta mun standa fyrir fræðslu fyrir iðkendur, foreldra og þjálfara um kynferðislegt ofbeldi og birtingarmyndir þess í febrúar. Síðustu ár hafa allir þjálfarar félagsins þurft að kvitta undir eyðublað til samþykkis um að Grótta fái upplýsingar úr sakaskrá áður en þeir hefja störf hjá félaginu og verður svo áfram.

Íþróttafélagið Grótta hvetur alla þá sem telja sig hafa orðið fyrir ofbeldi/mismunum af einhverju tagi eða hafa vitneskju um áreiti eða ofbeldi að leita til skrifstofu Gróttu þar sem málið verður sett í viðeigandi farveg.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print