Skip to content

Hættum ekki fyrr en lokaflautið gellur

Viðtal við Grím Inga Jakobsson leikmann meistaraflokks

Miðjumaðurinn knái Grímur Ingi Jakobsson framlengdi á dögunum samning sinn við knattspyrnudeild Gróttu út keppnistímabilið 2027. Grímur sneri aftur á Vivaldivöllinn í ársbyjun 2023 eftir tveggja ára dvöl hjá KR og KV. Fyrstu skrefin í fótboltanum voru stigin hjá Val en eftir að Grímur flutti á Seltjarnarnes ásamt fjölskyldu sinni árið 2014 lá leiðin fljótlega í Gróttu. Grímur lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir Gróttu aðeins 14 ára gamall og er þrátt fyrir ungan aldur búinn að spila 89 keppnisleiki í meistaraflokki! Þar að auki hefur Grímur spilað 14 leiki með yngri landsliðum Íslands. 

Við settumst niður með Grími nú fyrir helgina og fórum um víðan völl: 

Við byrjum á máli málanna – Gróttuliðið er í bullandi fallbaráttu þegar fimm leikir eru eftir. Hefur þetta bras komið ykkur strákunum í liðinu á óvart eða áttu menn von á erfiðu sumri?

Já það kemur okkur strákunum á óvart að við séum í þessari stöðu sem við erum í. Við vitum hvað við getum og þetta var auðvitað ekki planið fyrir tímabilið. En eins og fótboltinn er skemmtilegur þá getur hann líka verið erfiður og við verðum bara að virða þessa stöðu sem við erum í. Það er enginn sem getur breytt þessu nema við og það ætlum við sannarlega að gera. 

Getur Grótta haldið sér í deildinni? 

Já við trúum því sem lið að það sé allt hægt í fótbolta. Við allir sem einn þurfum að leggja allt í sölurnar í þessa síðustu leiki og bakka hvorn annan upp allann tímann. Þá trúum við að við getum búið til einhverja fallega sögu. Við hættum ekki fyrr en lokaflautið gellur. 

Þá að þér sjálfum. Ertu ánægður með eigin spilamennsku eftir að þú snerir aftur í Gróttu snemma á síðasta ári? Er eitthvað sem þú vilt bæta þig í á komandi árum

Ég hef fengið frábæra þjálfun hjá Gróttu síðan ég kom. Ég sem leikmaður veit hvað ég get í fótbolta, ég er mikilvægur fyrir liðið og liðsfélgar mínir trúa á mig. Auðvitað hafa komið kaflar þar sem ég hefði viljað spila betur, en að sama skapi er ég ennþá að læra sem leikmaður. Auðvitað er rúm fyrir bætingar hjá mér, maður getur alltaf gert meira og betur. Ég veit að ég er í þannig umhverfi hjá Gróttu að ég get bætt mig sem leikmann og einstakling.

Fyrir utan að spila með meistaraflokki er Grímur aðstoðarþjálfari hjá 3. flokki karla og stýrði knattspyrnuskóla Gróttu í sumar. Við spyrjum hvernig Grímur finni sig í þjálfarahlutverkinu? Sömuleiðis væri gaman að vita hverjir séu styrkleikar Gróttu sem félags og hvað þurfi að vera til staðar hjá félaginu til að ná árangri næstu árin?

Mér finnst mjög gaman að þjálfa og er stoltur að vera partur af því frábæra þjálfarateymi sem Grótta er með. Ég hef lært mikið af mínum samþjálfurum sem eru mjög hæfileikaríkir og viljugir til að hjálpa öllum að verða góðir leikmenn. Við eigum mikið af ungu efnilegu Gróttufólki sem er dýrmætt að halda vel utan um og mikilvægt er að öllum líði vel. Grótta er eins og ein stór familía, hérna eru allir vinir. Helstu gildi Gróttu eru trú vilji og hugrekki og ef þessi gildi eru til staðar hjá öllum ásamt samheldni þá trúi ég að það geti leitt Gróttu á fleiri spennandi brautir. 

Við þökkum Grími kærlega fyrir spjallið en spyrjum að lokum hvort hann hafi einhver skilaboð til Gróttufólks. 

Skilaboðin mín eru einföld: Verum stolt af því að halda með Gróttu. Ég held að ég tali fyrir hönd beggja meistaraflokka að við þurfum ykkar stuðning restina af tímabilinu. Við strákarnir í okkar bárattu og einnig kvennaliðið sem er á blússandi siglingu um að komast í deild þeirra bestu. Við þurfum á ykkur að halda Gróttufólk bæði smá sem stór að mæta á völlinn þið eruð 12 maðurinn okkar.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print