Skip to content

Halldór ráðinn aðstoðarþjálfari

Halldór Árnason mun verða aðstoðarþjálfari Óskar Hrafns Þorvaldssonar hjá meistaraflokki karla á tímabilinu en samningar þess efnis voru undirritaðir um helgina. Óskar tók við liðinu fyrir nokkrum vikum og kveðst hæstánægður með ráðningu Halldórs í meistaraflokkinn: Það er frábært að fá Halldór til starfa. Hann er einn hæfileikaríkasti og metnaðarfyllsti þjálfari sem ég hef kynnst.

Halldór, sem einnig þjálfar 2. flokk karla, gekk til liðs við þjálfarateymi Gróttu frá Stjörnunni fyrr í haust en hann er uppalinn KR-ingur sem lék þó lengi með meistaraflokki Gróttu. Nánar tiltekið 45 leiki og skoraði í þeim 15 mörk. Þetta verður ekki fyrsta meistaraflokksstarf Halldórs en hann stýrði liði KV árin 2012-2014.

Bjarni Már Ólafsson mun sjá um líkamlega þjálfun Gróttuliðsins. Bjarni, sem er sjúkraþjálfari að mennt, mun stýra styrktaræfingum og einnig sjá um að greina gögn frá GPS vestum sem Gróttuliðið mun æfa með á tímabilinu. Loks mun þjálfarinn góðkunni Bjarki Már Ólafsson verða þeim Óskar og Halldóri til halds og trausts en eins og kunnugt er tók Bjarki nýverið við sem yfirþjálfari yngri flokka.

Fréttastofa Gróttusport hlakkar til að fylgjast með þessu spennandi teymi að störfum á næstu mánuðum. Ennfremur er Bjarni Már boðinn velkominn til starfa!

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print