Viðtal við Pétur Rögnvaldsson
Í gær var greint frá því að Pétur Rögnvaldsson, þjálfari meistaraflokks kvenna, hygðist taka sér frí frá þjálfun eftir farsælt níu ára starf fyrir Gróttu. Við heyrðum hljóðið í Pétri og spjölluðum um frábæran árangur sumarsins hjá stelpunum og tíma hans hjá Gróttu.
Grótta endar í fjórða sæti Lengjudeildarinnar og voru aðeins einum sigri frá því að fara upp um tvær deildir á tveimur árum. Kom þessi árangur þér á óvart?
Nei hann gerði það í rauninni ekki. Jú kannski að við hefðum í lokaumferðinni spilað úrslitaleik um að komast upp í Bestu deildina – ég sá það kannski ekki fyrir – en þegar leið á undirbúningstímabilið var ég viss um að við gætum keppt við öll liðin í deildinni og endað í efri hlutanum.
En hvað er það sem býr til svona árangur. Þið voruð jú nýliðar í deildinni eftir allt saman.
Vissulega vorum við nýliðar en samt sem áður með mjög svipað lið og spilaði í deildinni árið 2021. Þá var kjarninn í liðinu mjög ungur og hann er í raun enn ungur en kominn með talsverða reynslu. Það voru gríðarleg vonbrigði að falla haustið 2021 en upp frá því fór að myndast þetta óútskýranlega hugtak sem kallast liðsheild og hún í bland við gæði leikmanna skapar öflugt lið. Samsetningin liðsins er sömuleiðis frábær – margar heimastelpur í bland við eldri stelpur sem hafa verið lengi í Gróttu. Að viðbættum öflugum nýjum leikmönnum og svo kornungum stelpum sem stíga upp í gott umhverfi.
Hver er ástæðan fyrir því að þú stígur frá borði núna?
Ástæðurnar eru í raun nokkrar. Og þetta er ákvörðun sem ég var nálægt því að taka fyrir tveimur árum en þá vorum við fallin. Maggi (Magnús Örn Helgason) var kominn í vinnu hjá KSÍ og ég vildi ekki skilja við liðið í 2. deild svo ég lét slag standa þegar mér var boðið að taka við. Það var því léttir þegar sæti okkar í Lengjudeildinni var tölfræðilega tryggt í ágúst og ég gat skilið sáttur við. En ein aðalástæðan er sú að ég get ekki varið eins miklum tíma og ég myndi kjósa í þjálfunina. Ég er í annarri vinnu og á næstu dögum stækkar fjölskyldan. Svo hefur líka áhrif að ég hef þjálfað nokkrar í liðinu í sjö til átta ár og þá er stundum óhjákvæmilegt að þjálfara-leikmanna sambandið komist á nokkurs konar endastöð.
Er framtíðin sé björt í kvennaknattspyrnunni á Nesinu?
Já hún er það, ef það verður áfram haldið vel á spöðunum – unnið af metnaði með sterka umgjörð í kringum liðið. Síðustu ár hefur verið unnið öflugt starf í yngri flokkunum og á bak við tjöldin í kringum báða meistaraflokka félagsins. Það einfaldlega skilar sér í uppöldum leikmönnum og góðri og jákvæðri stemningu. Kjarninn í Gróttuliðinu er enn að styrkjast og yngri stelpur að bætast við. Í sumar spilaði Aufí (Arnfríður Auður Arnarsdóttir) stórt hlutverk í liðinu 15 ára gömul og Rebekka (Sif Brynjarsdóttir) kom sterk inn á lokasprettinum aðeins 14 ára gömul. Tvær aðrar á 3. flokks aldri spiluðu með liðinu á undirbúningstímabilinu og það eru fleiri á leiðinni. Í stuttu máli þá hefur Gróttuliðið mikla möguleika á að verða enn betra á næstu árum.
Að lokum – hvað er þér efst í huga þegar þú lítur til baka á árin níu sem þú þjálfaðir hjá Gróttu?
Ótrúlegar minningar. Ég byrjaði að þjálfa 7. flokk kvenna með Jórunni (Maríu Þorsteinsdóttur) í janúar 2015. Mig minnir að Aufí hafi einmitt mætt á sína fyrstu eða aðra æfingu þegar ég byrjaði. Um sumarið hitti ég svo Rebekku sem var þá að æfa í 8. flokki hjá Bjössa (Birni Valdimarssyni) og fékk að spila með okkur á Símamótinu. Það var skemmtilegur endapunktur að þær tvær skildu hafa skorað í lokaleiknum á laugardaginn – fyrir framan troðfulla stúku á Vivaldivellinum.
Eins og nefndi áðan var ég samferða 2003, 2004 og 2005 stelpunum í ansi mörg ár og það hefur verið gaman að fylgjast með þeim þroskast og þróast innan sem utan vallar. Grótta hefur sömuleiðis haft ótrúlega færa þjálfara við störf síðustu árin sem ég hef notið að starfa með, læra af og eignast góða vini.
Vonbrigðatilfinningin sem maður hafði eftir leikinn á laugardaginn var óvanalega fljót að veikjast og upp úr stendur það sem liðinu tókst að áorka og allt sem ég hef fengið að taka þátt í með góðu fólki. Maður er bara með gleðitár í augum.
Við þökkum Pétri kærlega fyrir spjallið og hans framlag til félagsins. Um leið óskum við þjálfurum og leikmönnum mfl. kvk innilega til hamingju með frábært sumar!