Skip to content

Kjartan Kári er íþróttamaður æskunnar 2021

Knattspyrnumaðurinn Kjartan Kári Halldórsson er íþróttamaður æskunnar árið 2021.
Hinn 18 ára Kjartan Kári er Gróttumaður í húð og hár sem átti frábært tímabil með Gróttu síðastliðið sumar. Hinn ungi og efnilegi Kjartan á að baki 26 leiki fyrir meistaraflokk Gróttu og hefur skorað í þeim 9 mörk. Hann hóf feril sinn með meistaraflokki árið 2020 í Pepsi Max deildinni með Gróttu en síðasta sumar lék hann 19 leiki í Lengjudeildinni og einn í bikar þar sem hann lét ljós sitt skína. Kjartan var valinn efnilegasti leikmaður Gróttu á lokahófi meistaraflokkanna í haust. 

Kjartan á einnig að baki 12 landsleiki, með U16 ára og U19 ára landsliðum Íslands. Kjartan spilaði fyrir íslenska U-19 ára landsliðið þegar liðið keppti í undankeppni EM, þar kom hann við sögu í öllum þremur leikjum liðsins. Kjartan spilaði einnig í þremur vináttulandsleikjum fyrir U-19 ára landsliðið á árinu. 

Nú á dögunum framlengdi Kjartan samning sinn við knattspyrnudeild Gróttu út árið 2023. Gaman er að segja frá því að á komandi tímabili mun Kjartan spila í nýju númeri, en hin víðfræga sjöa sem Pétur Theódór Árnason hefur spilað í síðustu ár fer nú til Kjartans Kára.

—-
Við fórum þá leið í ár að framleiða myndbönd um verðlaunahafa í stað þess að hafa athöfn. Sérstakar þakkir fá Fjalar Sigurðarson, Lilja Nótt Þórarinsdóttir og Jói B (Audioland.is) fyrir óeigingjarnt framlag til myndbandagerðarinnar.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print