Skip to content

Gróttu fólk á ferð og flugi – Fyrsti hluti

Fréttastofa handknattleiksdeildar fór á dögunum á flakk þar sem ferðinni var heitið til hinna ýmsu borga og bæja víðsvegar um Evrópu þar sem við bönkuðum uppá hjá uppöldu Gróttu-fólki sem er að lifa draum atvinnumannsins í handbolta.

Við munum yfir keppnistímabilið birta viðtöl við atvinnumennina okkar þar sem við förum yfir stöðuna á þeim, þeirra markmið og ýmislegt fleira.

Fyrsta stopp ferðarinnar var í fallegum bæ í Noregi með íbúafjölda upp á ríflega 22.000 manns þar sem handboltahefðin er mikil. Glöggir lesendur átta sig kanski á að við vorum mætt til Elverum nánar tiltekið til línutröllsins Þráinns Orra Jónssonar þar sem hann hefur komið sér vel fyrir ásamt kærustu sinni Guðrúnu Þórdísi og litlum verðandi Gróttu-dreng sem þau eignuðust í sumar en Þráinn gekk til liðs við Elverum fyrir ári síðan og er því að hefja sitt annað keppnistímabil í Noregi en liðið leikur þar í úrvalsdeild sem og Meistaradeild Evrópu.

Við settumst með kaffibolla inn í stofu til Þráins og spurðum hann spjörunum út.

Lærdómsríkt fyrsta árið en staðist allar væntingar.

„Þetta fyrsta ár hjá mér hefur verið mér virkilega lærdómsríks en aftur á móti staðist flest allar þær væntingar sem ég var með áður en ég fór út“ segir Þráinn aðspurður hvernig fyrsta árið sitt í Noregi hafi verið og bætir við „Klúbburinn sem ég er í er mjög „professional“ í nánast öllu, hvort sem um er að ræða umgjörð í kringum liðið eða leiki liðsins.

Þráinn segir álagið vera mikið þegar tímabilið sjálft er komið á fullt „Það eru yfirleitt tveir leikir í viku, miðvikudag og sunnudag. Hina dagana erum við með allavega eina handboltaæfingu og svo erum við með lágmark 2 lyftingaræfingar, menn fara svo reglulega sjálfir í lyftingarsalinn“

Aðspurður hvar hann myndi staðsetja sitt lið í Olís-deildinni segir hann: „Við yrðum í kringum toppinn myndi ég halda, þó svo að deildin hér heima hafi styrkst mikið myndi ég setja okkur a.m.k í topp 2.“

Rútínan mikilvæg á leikdegi og markmið liðsins skýr.

„Ég var alltaf með þá hefð að sofa út á leikdegi en eftir að við eignuðumst strákinn okkar er það ekkert hægt lengur“ segir Þráinn og glottir þegar ég spyr hann hvernig hefðbundinn leikdagur lítur út. „En ég vakna á leikdegi og fæ mér góðan morgunmat, kíki kanski í göngutúr um hádegisbilið og fæ mér svo hádegismat í „kjölsogið“ af göngunni. Eftir það reyni ég að slaka á og renni oft yfir hvaða leikmenn eru í hinu liðinu og skoða þá.“

Elverum er stór klúbbur í Noregi og eru m.a með keppnisrétt í stærstu deild í heimi, Meistaradeild Evrópu. Þráinn segir markmið liðsins skýr á hverju ári. „Við setjum stefnuna á að vinna allar dollur sem eru í boði hér í Noregi og svo er stefnan að fara lengra en í fyrra í meistaradeildinni“

Markmiðið að komast í landsliðið og að vinna titil með Gróttu

„Draumurinn og stefnan hjá mér núna er að eiga gott tímabil og komast í enn sterkari deild hér úti og vonandi skilar sú frammistaða sér í landsliðssæti.“

Ég reyni í kjölfarið að veiða uppúr Þránni hvort hann sjái fyrir sér að spila aftur fyrir Gróttu áður en ferlinum lýkur. „Að verða Íslandsmeistari með Gróttu er eitt af mínum markmiðum, við Viggó (Kristjánsson) höfum talað um að við munum ekki hætta fyrr en það tekst, hvenær svosem það verður, svo já maður stefnir á að spila aftur í bláa litnum“

Draumaliðið og ráðleggingar til ungra iðkenda

Við biðjum Þráinn að setja saman sitt draumalið af leikmönnum sem hann hefur spilað með, bæði hér heima og erlendis. Eftir smá umhugsunartíma setur Þráinn saman sitt lið sem er eftirfarandi:

Frá hægri: Lárus Gunnarsson, Finnur Ingi, Júlíus Þórir, Þráinn og Viggó. Allir í draumaliði Þráinns og spiluðu saman með Gróttu.

  • Vinstra horn: Búfræðingurinn Júlíus Þórir Stefánsson (UMFA)
  • Vinstri skytta: Tine Polkar (Elverum)
  • Miðja: Magnus Fredrikssen (Elverum)
  • Hægri skytta: Viggó Kristjánsson (West-Wien)
  • Hægra horn: Bústólpinn og bróðir búfræðingsins Finnur Ingi Stefánsson (UMFA)
  • Línumaður: Ég sjálfur

Í markinu væru svo smjörfíkillinn Arnar Þór Ólafsson og varamarkmaður væri sólstrandargæinn og viðskiptamógúllinn Lárus „Tan“ Gunnarsson.

Gunnar Andrésson væri þjálfari liðsins og fengi aðstoð frá Sigurði Meyvatnssyni sér til mikillar ánægu.

Að lokum fáum við hann til að gefa ungum Gróttu-krökkum góð ráð vilji þau ná langt í íþróttum.

„Æfðu bara eins mikið og þú getur, farðu á allar aukaæfingar sem eru í boði þó svo þær séu klukkan 10 á sunnudegi. Horfðu á handboltaleiki í sjónvarpinu og lærðu þannig af þeim bestu eða skoðaðu æfingar sem þú getur gert sjálfur heima á Youtube.

Fréttastofa þakkar Þránni Orra kærlega fyrir spjallið, gestrisnina og kaffibollann og óskum honum góðs gengis á tímabilinu sem er framundan.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print