Skip to content

Gróttu fólk á ferð og flugi – 2.hluti

Fréttastofa handknattleiksdeildar fór á dögunum á flakk þar sem ferðinni var heitið til hinna ýmsu borga og bæja víðsvegar um Evrópu þar sem við tókum hús á uppöldu Gróttu-fólki sem er að lifa draum atvinnumannsins í handbolta.

Við birtum fyrsta hluta ferðarinnar af fjórum í september mánuði þar sem línutröllið Þráinn Orri svaraði spurningum okkar og gaf innsýn í líf sitt í Noregi. Næsta stopp var heldur betur af dýrari gerðinni eftir að hafa verið í smábæ í Noregi, við vorum á leið til Vínarborgar í Austurríki þar sem örvhenta undrið og stórskyttan Viggó Kristjánsson hefur komið sér vel fyrir og spilar þar á sínu öðru tímabili með West-Wien í úrvalsdeildinni þar í landi, en liðið situr í dag í 5.sæti Austurrísku deildarinnar en þó aðeins 3 stigum frá toppnum.

Við settumst niður með Viggó yfir kaffibolla og innfluttum Sóma-samlokum í íbúð hans í miðbæ Vínar en Viggó er mikill aðdáandi Sóma-samlokanna og lætur senda sér slíkar regulega.

Sá ekki fyrir sér að spila í Austurríki

„Ég hef notið þessara tveggja fyrstu ára í botn, ég var fyrst í Danmörku og færði mig svo yfir til Austurríkis sem ég sá ekki alveg fyrir mér þegar ferilinn hófst én ég sé þó ekki eftir því og hér er frábært að búa.“ segir Viggó aðspurður um hvernig ferillinn hefur þróast nú þegar 3ja árið í atvinnumennsku er hafið.

En hvað hefur komið honum mest á óvart á þessum fyrstu árum? „Það sem hefur kanski komið mér mest á óvart er hversu mikið álag getur verið á köflum, áður en ég fór út gerði ég mér ekki grein fyrir öllu því sem fylgir; löng ferðalög, fundir, meiðsli o.s.frv. En þegar öllu er á botninn hvolft eru það forréttindi að vinna við að spila handbolta og myndi ég ekki vilja vinna við neitt annað“

Ég greip boltann á lofti og spurði hann strax um álagið og liðsfundina og forvitnaðist um hversu raunverulega mikill munur er að vera í Austurríki og Íslandi. „Við erum að spila oftar en ekki 1-2 leiki á viku og fylgja því fjöldi video-funda, kanski 2 á viku og ofaní það koma 3-4 handboltaæfingar (fer eftir leikjaálagi) og lyftingaræfingar koma svo í ofanálag, það er því mikill munur á æfingarálagi og öllu slíku heldur en á Íslandi og skýrist munurinn náttúrulega á því að hér eru menn í fullri vinnu við að æfa handbolta.

En hversu sterkt er liðið hans Viggó miðað við t.d Olís-deildina? „Við myndum vinna Olís-deildina og værum besta liðið heima á Íslandi“

Háleit markmið liðsins og göngutúrar á leikdögum

West-Wien datt út í oddaleik í undanúrslitum um meistaratitilinn í fyrra gegn erkifjendunum í Alpha Hard og töpuðu einnig bikarúrslitaleiknum gegn sama liði á grátlegan hátt í framlengingu og eru leikmenn West-Wien staðráðnir að gera enn betur í ár. „Markmið liðsins er að vinna alla þá bikara sem í boði eru í Austurríki“ segir Viggó hratt og örugglega aðspurður um væntingar og markið fyrir tímabilið.

Í jafnri deild eins og í Austurríki er mikilvægt að koma tilbúinn í alla leiki og skiptir þá rútínan á leikdegi miklu máli aðspurður um sína rútínu segir Viggó: „Ég lagði það í vana að taka alltaf létta lyftingaræfingu á morgnanna á leikdegi á seinasta tímabili en núna í byrjun tímabils hef ég verið að glíma við smávægileg meiðsli þannig ég hef látið göngutúr nægja til að koma mér í gírinn“

Stefnir enn lenga og vill vinna titil með Gróttu

„Ég stefni í raun bara á langan og farsælan feril í atvinnumennsku, á einhvern góðan stað getum við sagt“ segir Viggó spurður út í sín persónulegu markmið í atvinnumennskunni en hvar sér hann fyrir sér að enda ferilinn „Ég mun enda ferilinn hjá Gróttu, það er 100% og ég mun ekki hætta fyrr en ég verð Íslandsmeistari með liðinu“

Draumaliðið og ráð til yngri iðkenda

Við biðjum Viggó að setja saman draumalið sitt samansett af leikmönnum sem hann hefur spilað með í gegnum ferilinn og er það skipað eftirfarandi leikmönnum

  • Markmenn: Arnór Freyr Stefánsson og Lárus Gunnarsson
  • Vinstra horn: Lars Gade Skaarup og Júlíus Þórir Stefánsson
  • Vinstri skytta: Jorn Smits
  • Miðjumaður: Ólafur Bjarki Ragnarsson
  • Hægri skytta: Ég sjálfur
  • Hægra horn: Finnur Ingi Stefánsson
  • Línumaður: Þráinn Orri Jónsson

Að lokum fáum við Viggó til að gefa ungum og upprennandi handboltastjörnum góð ráð til að verða ennþá betri og hafði hann skýr en einföld skilaboð „Choose a job you love and you will never have to work a day in your life“.

Fréttastofa þakkar Viggó kærlega fyrir spjallið, kaffibollann, Sóma-samlokuna og gestrisnina og óskum honum góðs gengis það sem eftir lifi tímabils.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print