Skip to content

Grótta gerir sitt besta

Á undanförnum vikum hafa starfsmenn, þjálfarar og sjálfboðaliðar hjá Gróttu einbeitt sér að því að takast á við þau verkefni sem fylgt hafa þeim aðgerðum sem grípa hefur þurft til vegna kórónuveirufaraldsins. Flest þessara verka hafa lagst ofan á önnur verkefni sem ávallt þarf að sinna óháð því hvert ástandið í samfélaginu er.

Starfsmenn okkar hafa unnið sleitulaust að smitvörnum og reynt til hins ítrasta að tryggja velferð iðkenda. Þá hafa starfsmenn á skrifstofu unnið langan dag við að miðla upplýsingum og tryggja að farið sé eftir leiðbeiningum yfirvalda í einu og öllu svo eitthvað sé nefnt.

Þjálfarar hafa sýnt fádæma hugmyndaauðgi við gerð einstaklingsæfinga heimavið og reynt að sinna þörfum iðkenda eftir bestu í gegnum rafræna miðla.

Sjálfboðaliðar hafa þurft að takast á við margvísleg verkefni m.a. vegna þess að mót hafa verið felld niður, annast samskipti við mótshaldara og ferðþjónustuaðila vegna fyrirhugaðra ferða í sumar o.s.frv.

Allt þetta fólk hefur gengið í verkin án hiks og margt lagt á sig ómælda vinnu langt umfram það sem ætlast má til af þeim. Fyrir það vil aðalstjórn Gróttu þakka.

Það er ljóst að Íþróttafélagið Grótta þarf að takast á við ýmsar áskoranir á næstu dögum og vikum. Eina erfiðast verður fyrir félagið að mæta þeim fjárhagsörðuleikum sem óhjákvæmlega mun fylgja í kjölfar þessa að hefðbundið íþróttastarf leggst niður. Eðli málsins samkvæmt á félagið ekki digra sjóði til að mæta svo óvæntum áföllum enda ekki markmið starfsins að safna í sjóði heldur tryggja iðkendum sem besta aðstöðu og þjónustu. Þess vegna hefur umfram fjármunum ávallt verið ráðstafað beint til uppbyggingar á starfi félagsins.

Því er ekki að leyna að við erum að upplifa einstaka tíma þar sem við reynum að halda fjarlægð hvort frá öðru en stöndum samt saman. Okkar bíða erfið og flókin verkefni en við vitum að saman munum við leysa úr þeim.

Nú kallar Grótta eftir því að allir Seltirningar og annað Gróttu-fólk, standi með sínu félagi og tryggi þannig að unnt verði að hefja starf félagsins að krafti um leið og við höfum kveðið niður veirufaraldurinn. Með samhug og fórnfýsi eigum við að geta séð til þess að þegar sól hækkar á lofti að iðkendur okkar fái notið þess að fullu að æfa og keppa fyrir Gróttu.

Megi ykkur og ástvinum ykkar heilast sem best og eiga gleðilega páska.

Bragi Björnsson,
formaður aðalstjórnar Gróttu.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print