Kraftlyftingakonan Fanney Hauksdóttir var í gærkvöldi valin íþróttamaður Gróttu við hátíðlega athöfn. Við sama tilefni var handboltakonan Anna Katrín Stefánsdóttir útnefnd íþróttamaður æskunnar.
Fanny hefur átt stórkorstlegt ár. Hún byrjaði árið á því að bæta Íslands- og Norðurlandamet í -63 kg flokki á heimsmeistaramótinu í bekkpressu með búnaði í Danmörku í apríl þar sem hún lyfti 152,5 kg.
Í maí varð hún heimsmeistari í klassískri bekkpressu (án búnaðar) í -63 kg flokki í Suður Afríku þar sem hún bætti sitt eigið Íslandsmet og lyfti 105 kg.
Í október bætti hún svo aftur Íslandsmet sitt í bekkpressu á Íslandsmeistaramótinu í klassískum lyftingum á heimavelli á Nesinu þegar hún lyfti 108kg og varð Íslandsmeistari í 63 kg flokki.
Fanney hefur skipað sér á bekk með fremstu kraftlyftingakonum heims þrátt fyrir ungan aldur. Hún er stórkostleg fyrirmynd ungra stúlkna hér á Seltjarnarnesi og reyndar um víða veröld. Hún æfir vel, lifir heilsusamlegu líferni og er hógværðin uppmáluð.