Skip to content

Orri og Grímur: Við erum allir í þessu saman

Gróttumennirnir Grímur Ingi Jakobsson og Orri Steinn Óskarsson eru komnir heim eftir að hafa spilað með U17 ára landsliði Íslands í forkeppni EM í Skotlandi. Því miður tókst íslenska liðinu ekki að komast áfram en árið hefur þó sannarlega verið viðburðaríkt hjá þeim Orra og Grími en þrjár landsliðsferðir eru að baki. Kjartan Kári Halldórsson var einnig í liðinu í fyrstu tveimur ferðunum en var ekki valinn að þessu sinni.

Við heyrðum hljóðið í þeim Orra og Grími:

Hvernig er árið í U17 búið að vera?

OSÓ: Árið hefur verið upp og niður úrslitalega séð en ef við horfum á frammistöðuna þá höfum við spilað betur og betur með hverjum leiknum og urðum betri liðsheild í leiðinni.

GIJ: Við hefðum klárlega geta gert betur á Norðurlandamótinu og núna í Skotlandi en við erum mjög þakklátir að vera partur af svona flottum hóp.

Er mikill munur á því að spila og æfa með landsliðinu og 2. og meistaraflokki Gróttu?

GIJ: Já, það er mikill munur. Í Gróttu er maður til dæmis oftast að æfa með vinum sínum sem maður þekkir algjörlega á meðan í landsliðinu eru strákar úr mörgum liðum.

OSÓ: Það er líka munur á landsliðinu og meistaraflokki því þar ertu að æfa og spila við fullorðna karlmenn sem eru oftast sterkari en strákar fæddir 2003.

Orri spilaði einmitt 12 leiki með Gróttu í Inkasso-deildinni í sumar þrátt fyrir að vera aðeins 15 ára gamall. Hann skoraði fyrsta markið í lokaleik tímabilsins á móti Haukum þar sem Grótta tryggði sér sæti í Pepsi Max deildinni. Grímur spilaði tvo leiki í Mjólkurbikarnum í vor og æfði reglulega með meistaraflokki.

Hvernig er týpískur dagur í landsliðsferð?

GIJ: Ef það er ekki leikur þá vöknum við, förum í morgunmat, síðan á fund og beint á æfingu eftir fund. Eftir hádegismat fáum við slökunartíma og svo er aftur fundur um kvöldið. Á leikdag förum við í liðkun og göngutúr eftir morgunmat. Síðan fund og að gera okkur klára fyrir leikinn.

Orri byrjaði inná í öllum leikjum Íslands á mótinu í Skotlandi. Er ekkert erfitt að spila þrjá leiki á sjö dögum?

OSÓ: Jú það getur verið rosalega erfitt, ekki bara líkamlega heldur líka andlega. Í þannig aðstæðum skiptir miklu máli að hugsa vel um líkamann á milli leikja og borða vel.

Grímur var í byrjunarliðinu í fyrsta leik Íslands en var svo á bekknum seinni tvo leikina. Hvernig er að takast á við að vera settur á bekkinn.

GIJ: Ég lenti þvi miður i þvi óhappi að verða veikur fyrir leikinn við Skota. Ég fékk í magann og þurfti því að setjast á bekkinn. Það kemur maður í manns stað og Kári sem kom inn fyrir mig stóð sig frábærlega. Þegar maður lendir í svona getur maður verið pirraður í svona klukkutíma en svo er það bara áfram gakk, upp með hausinn og hjálpa liðinu.

Grímur og Orri: Við erum allir í þessu saman, bæði þeir sem eru inná og á bekknum.

Hver eru markmiðin ykkar fyrir árið 2020?

OSÓ: Markmiðin mín fyrir 2020 eru að stimpla mig vel inn í akademíuna hjá FCK og halda áfram að bæta mig sem leikmaður.

GIJ: Ég stefni að því að standa mig vel í öllu sem ég geri og verða betri leikmaður árið 2020 en ég var í ár.

Við þökkum strákunum kærlega fyrir spjallið og hlökkum til að fylgjast með þeim á komandi tímabili.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print

Helstu upplýsingar

Aðalsími Gróttu 561-1133
Skrifstofa Gróttu opin virka daga
frá kl. 13:00 – 16:00
grotta@grotta.is

Fréttaflokkar