Næstkomandi þriðjudag 5. júlí kl. 19.15 fer fram fyrsti leikur á nýlögðu gervigrasi á Vivaldivellinum. Heimamenn í Gróttu taka þá á móti Njarðvíkingum í 2. deild karla. Leikurinn er gríðarlega mikilvægur í baráttu Gróttu um efstu sætin í deildinni.
Eins og áður hefur komið fram hafa staðið yfir framkvæmdir á Vivaldivellinum frá því fyrr í sumar en Seltjarnarnesbær ákvað að skipta út gamla gervigrasinu fyrir nýtt gras í hæsta gæðaflokki.
Íþrótta- og tómstundanefnd Seltjarnarness býður frítt á leikinn í tilefni af vígslu vallarins og knattspyrnudeildin býður öllum gestum í fría pylsu og gos fyrir leik. Í hálfleik verður gestum boðið að spreyta sig á skemmtilegum leik og verða vegleg verðlaun í boði frá Nettó fyrir sigurvegara.
Sjáumst vonandi sem flest á vellinum annað kvöld.