Skip to content

Vivaldivöllurinn til 2020

Í þrjú ár hefur Gróttuvöllur heitið Vivaldivöllurinn eftir að samstarf knattspyrnudeildar Gróttu og hugbúnaðarfyrirtækisins Vivaldi hófst í upphafi árs 2015. Á þriðjudag var skrifað undir nýjan þriggja ára samstarfssamning og mun Grótta því leika á Vivaldivellinum út árið 2020. Það er Seltirningurinn Jón von Tetzchner sem er eigandi Vivaldi en hann er einnig stofnandi Innovation House frumkvöðlasetursins sem er með bækistöðvar sínar á Eiðistorgi.

Sölvi Snær Magnússon, formaður knattspyrnudeildar, sagði við undirskriftina að stuðningur Vivaldi væri félaginu dýrmætur og að á síðustu þremur árum hafi miklar framfarir orðið í starfi deildarinnar. Meistaraflokkur kvenna væri kominn á laggirnar og að iðkendafjöldi hafi aukist stöðugt.

Af sjálfsögðu var boðið upp á Vivaldi-köku

Jón sagðist vera afar glaður yfir því að geta stutt sitt gamla félag en hann lék upp yngri flokkana með Gróttu. Hann minntist á mikilvægi þess að öflugt íþróttastarf væri í bænum og hann nyti þess að sjá félagið blómstra hjá iðkendum á öllum aldri.

Fréttastofa Gróttusport fagnar þessum nýja samningi og hlakkar til að flytja fréttir af Vivaldivellinum næstu þrjú árin.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print