Skip to content

Tinna Brá í Fylki

Grótta og Fylkir hafa komist að samkomulagi um félagaskipti markvarðarins efnilega Tinnu Brár Magnúsdóttur. Tinna gerir 3 ára samning við Árbæinga sem enduðu í 3. sæti í Pepsi Max deild kvenna síðasta sumar.

Tinna Brá er uppalin Gróttukona og stóð milli stanganna síðasta sumar í frumraun Gróttu í Lengjudeildinni. Frammistaða hennar vakti verðskuldaða athygli, ekki síst í ljósi þess að Tinna er aðeins 16 ára gömul. Tinna hefur leikið 24 leiki fyrir meistaraflokk Gróttu og fjóra leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Magnús Örn Helgason, annar þjálfara meistaraflokks, sagði þetta um málið: „Það er alltaf erfitt að missa góða leikmenn og það er ljóst að nú erum við komin í markmannsleit. Fyrst og fremst erum við þó stolt af Tinnu Brá. Hún hefur bætt sig mikið síðustu misseri og hefur framúrskarandi hugarfar. Við í Gróttu hlökkum til að fylgjast með henni í Pepsi Max deildinni og óskum henni alls hins besta.“

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print