Skip to content

Orri Steinn til FCK

Orri Steinn Óskarsson og knattspyrnudeild Gróttu hafa gert samkomulag við danska stórliðið FC Kaupmannahöfn um að Orri Steinn gangi til liðs við U17 ára lið félagsins sumarið 2020.

Orri verður því fyrsti leikmaður Gróttu sem erlent atvinnumannalið fær til sín frá félaginu. Þetta er mikill áfangi fyrir þennan efnilega leikmann og ekki síður tímamót fyrir knattspyrnudeild Gróttu.

Orri Steinn er fæddur og uppalinn á Seltjarnarnesi og byrjaði að æfa fótbolta hjá Gróttu 6 ára gamall. Hann hefur verið undir handleiðslu margra þjálfara hjá Gróttu en helst ber þó að nefna Óskar Hrafn Þorvaldsson, föður Orra, sem hóf störf hjá Gróttu haustið 2015. Óskar þjálfaði Orra Stein í 4. og 3. flokki, og síðar í meistaraflokki, en í fyrra stýrði Óskar 3. flokki Gróttu í undanúrslit Íslandsmótsins þar sem Orri var lykilmaður.

Í fyrra varð Orri yngsti leikmaðurinn til að spila með meistaraflokki Gróttu þegar hann kom inn á í 2. deildinni á móti Hetti og gerði sér lítið fyrir og skoraði tvö mörk. Orri var þá 13 ára og 354 daga gamall en metið átti Daði Már Jóhannsson sem var 14 ára og 330 daga gamall þegar hann lék með meistaraflokki.

Frá leiknum eftirminnilega við Hött hefur Orri spilað 17 leiki með meistaraflokki og skorað í þeim fjögur mörk. Hann skoraði einmitt fyrsta mark Gróttu í 4-0 sigrinum á Haukum í lokaleik sumarsins 2019 þegar Grótta tryggði sér sigur í Inkasso-deildinni. Orri tók þátt í meira en helmingi leikjanna í Inkasso-ævintýrinu í sumar en Óskar Hrafn þjálfaði liðið ásamt Halldóri Árnasyni.

Orri Steinn hefur látið að sér kveða í yngri landsliðum Íslands síðustu tvö ár og hefur nú leikið 13 landsleiki og skorað í þeim 16 mörk! Orri er nýkominn heim úr ferð með U17 ára landsliðinu en viðtal við hann og Grím Inga Jakobsson má lesa hér: https://www.grottasport.is/2019/10/31/grimur-og-orri-vid-erum-allir-i-thessu-saman/

Grótta óskar Orra Steini, fjölskyldu hans og samferðafólki innilega til hamingju með áfangann og hlakkar til að fylgjast með ævintýrum hans á komandi misserum.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print