Skip to content

Halldór Árnason ráðinn til Gróttu

Barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar Gróttu hefur samið við Halldór Árnason um að taka við þjálfun 2. og 5. flokks karla hjá félaginu. Halldór kemur til Gróttu frá Stjörnunni þar sem hann hefur starfað sem 2. flokks þjálfari síðustu tvö ár ásamt því að sinna afreksþjálfun.

Halldór er 33 ára gamall og er fæddur og uppalinn Vesturbæingur. Hann lék með KR upp yngri flokkana en skipti yfir í Gróttu 18 ára gamall. Halldór spilaði á næstu árum 45 meistaraflokksleiki fyrir Gróttu áður en hann skipti yfir í KV þar sem hann lauk ferlinum. Halldór byrjaði að þjálfa yngri flokka hjá KR árið 2007 og fór fljótt að láta til sín taka. Halldór var um tíma yfirþjálfari yngri flokka hjá KR og stýrði liði KV í 1. og 2. deild í þrjú ár ásamt Páli Kristjánssyni.

Fyrir tveimur árum söðlaði Halldór um og gekk til liðs við öflugt yngri flokka starf Stjörnunnar þar sem hann stýrði 2. flokki og afreksþjálfun. Halldór er nú aftur mættur á Nesið og tekur til starfa hjá Gróttu 15. október. Ásamt því að þjálfa 2. og 5. flokk mun hann hafa veg og vanda að afreksstarfi knattspyrnudeildarinnar en KSÍ hefur einmitt kallað eftir því á síðustu misserum að aðildarfélögin leggi meira púður í slíka starfsemi.

Fréttastofa Gróttusport heyrðið hljóðið í Halldóri sem er kátur með að hafa skrifað undir hjá Gróttu.

„Það leggst virkilega vel í mig að hefja störf hjá Gróttu. Ég hef sterkar og góðar tilfinningar til félagsins þar sem ég spilaði hér og hef fylgst með því góða starfi sem hefur verið unnið á Nesinu síðustu ár. Ég er hrifinn af þeirri hugmyndafræði sem yngri flokkarnir standa fyrir og hlakka til að byrja að vinna” segir Halldór sem mun bæði starfa í 7- og 11-manna boltanum. Ólíkir vettvangar en Halldór er öllu vanur:

„Á þessum 10 árum sem ég hef verið í bransanum hef ég þjálfað allt frá 7. flokki og upp í meistaraflokk. Ég held að ég eigi auðvelt með að aðlaga mig að ólíkum aldurshópum og hlakka til að vinna með bæði eldri og yngri iðkendum deildarinnar. Ég þjálfaði 5. flokk hjá KR í 4 ár og finnst þetta mjög skemmtilegur flokkur. Ég var ekkert í 7-manna boltanum á liðnu tímabili hjá Stjörnunni svo það verður spennandi að takast aftur á við það.“

Gróttasport náði einnig tali af hinum nýráðna yfirþjálfara, Bjarka Má Ólafssyni, sem var eðlilega hæstánægður með að fá Halldór til starfa hjá Gróttu.

„Það er feikilega spennandi að fá mann með svona mikla reynslu inn í það metnaðarfulla starf sem unnið er hjá Gróttu. Hugmyndir Halldórs ríma vel við þær áherslur og hugmyndir sem knattspyrnudeild Gróttu vill standa fyrir og teljum við hann því fullkomna viðbót inn í okkar góða starf. Ég er sérstaklega ánægður fyrir hönd strákanna í 2. flokki og líður mjög vel með að setja hópinn í hendurnar á Dóra” segir Bjarki sem hefur þjálfað 2. flokk karla á þessu tímabili.

Fréttastofa Gróttusport býður Halldór innilega velkominn á Vivaldivöllinn og hlakkar til að fylgjast með honum á næstu mánuðum.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print