Skip to content

Framtíðarliðið

Í síðustu viku varð ég þess heiðurs aðnjótandi að fara með 2. flokki karla hjá Gróttu í æfingaferð til London. Í flokknum æfa nú 28 strákar fæddir 1998-1996 en einnig eru nokkrir yngri viðloðandi hópinn. Ferðin var einstaklega skemmtileg og árangursrík. Einbeitingin í hópnum var til fyrirmyndar og utan æfinga gengu allir í takt um stræti stórborgarinnar.

Strákarnir í 2. flokki hafa æft fótbolta frá 5-6 ára aldri. Saman hafa þeir tekið þátt í óteljandi fótboltamótum, keppt hundruðir leikja og sofið í ótal nætur í táfýlunni hver af öðrum. Ekki er hægt að segja að hér sé um svokallaðar „barnastjörnur“ að ræða. Einn leikmaður hefur spilað unglingalandsleik og nokkrir minni titlar hafa unnist. Stærsta skrefið var eflaust stigið í fyrra þegar 2. flokkur Gróttu tryggði sér sæti í B-deild eftir margra ára eyðimerkurgöngu í C-deildinni. Þar voru þessir drengir í aðalhlutverki ásamt nokkrum leikmönnum sem nú eru gengnir upp í meistaraflokk.

Nei, það eru ekki titlar og landsliðsferðir sem einkenna leikmenn 2. flokks Gróttu heldur ótrúleg liðsheild, vinátta og samstaða innan vallar sem utan. Auðvitað hefur gengið á ýmsu í gegnum tíðina en óhætt er að segja að menn hafi þroskast í rétta átt og séu að blómstra nú þegar árin í yngri flokkunum eru senn á enda. Ég tel að öflugur foreldrahópur sem stendur á bak við strákana hafi gert gæfumuninn ásamt góðum og metnaðarfullum þjálfurum. Nægir þar að nefna Júlíus Júlíusson, Ásmund Haraldsson, Guðjón Kristinsson, Úlf Blandon og Jens Elvar Sævarsson sem er nú á sínu öðru ári með 2. flokk.

Síðasta sumar stigu nokkrir leikmenn úr hópnum sín fyrstu skref í meistaraflokki Gróttu og í vetur hafa enn fleiri fengið sínar fyrstu meistaraflokksmínútur. Frábærar fréttir en hér má ekki láta staðar numið. Lykillinn að því að byggja upp öflugt meistaraflokkslið er að hafa þéttan kjarna heimamanna í hópnum. Leiknir í Breiðholti er gott dæmi en síðasta sumar tryggði liðið sér sæti í úrvalsdeild í fyrsta sinn en þar var stærstur hluti hópsins, leikmenn og þjálfarar, glerharðir Breiðhyltingar. Nú er Grótta í dauðafæri til að horfa fram á veginn og byggja upp lið þar sem uppistaðan er heimamenn.

Ég er ekki að tala niður til þeirra fjölmörgu „utanbæjarleikmanna“ sem hafa leikið með Gróttu síðustu árin. Raunar hafa margir þeirra skilað frábæru verki og teljast góðir og gildir Gróttumenn í dag. Hver man ekki eftir leikgleði og snilli Sigurvins Ólafssonar á miðjunni, núverandi fyrirliði Gróttu er uppalinn Selfyssingur og sjúkraþjálfarinn, sem byrjaði sem leikmaður, er að austan.

Er ég að setja pressu á strákana með þessum pistli? Vafalaust en það er bara af því ég hef trú á þeim. Við þá sem stjórna og þjálfa meistaraflokk Gróttu segi ég: Takið þessa stráka og hendið þeim inn á stóra sviðið, gefið þeim tíma og fyrr en varir munu þeir skína skært.

Magnús Örn Helgason
yfirþjálfari yngri flokka knattspyrnudeildar Gróttu

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print

Helstu upplýsingar

Aðalsími Gróttu 561-1133
Skrifstofa Gróttu opin virka daga
frá kl. 13:00 – 16:00
grotta@grotta.is

Fréttaflokkar