Skip to content

Frábært fótboltakvöld á Nesinu

Það var spenna í loftinu þegar flautað var til leiks á Vivaldivellinum á þriðjudag. Okkar menn í Gróttu voru búnir að vinna sex af sjö heimaleikjum sínum og nú var komið stórri áskorun – að mæta liði Vestra sem sigraði fyrri leik liðanna 6-0 á Ísafirði.

Grótta tefldi fram ungu liði að vanda. Meðalaldurinn 20,6 ár og elstu leikmenn liðsins fæddir árið 1995. Vestramenn eru feykilega vel mannaðir þetta árið – reynslan mikil enda meðalaldurinn 26,1 ár, Bjarni Jó þjálfari og innan liðsins öflugir erlendir leikmenn á borð við Sergine Modou Fall, James Mack, Andy Pew og Zoran Plazonic.

Gestirnir tóku forystuna strax eftir 10 mínútur þegar hinn kraftmikli Pétur Bjarnason slapp í gegn og þrumaði boltanum fram hjá Hákoni í markinu. Gróttumenn voru hins vegar ekki lengi að svara og Arnar Þór Helgason stangaði boltann í netið á 19. mínútu. Mikil harka var í leiknum og nokkur hiti í áhorfendum en þetta var metmæting á Vivaldivöllinn í sumar. Liðin léku ólíkan fótbolta en Gróttuliðið spilaði boltanum hratt meðfram grasinu á meðan Ísfirðingar treystu á langar sendingar á eldfljóta framherja sína. Einn þeirra – Sergine Modou Fall komst einmitt á sprettinn rétt fyrir leikhlé og lagði boltann fyrir markið á James Mack sem kom Vestra í 2-1. Í raun gegn gangi leiksins.

Seinni hálfleikurinn var ekki minna fjörugur en sá fyrri. Pétur Theodór Árnason jafnaði metin á 59. mínútu þegar hann fékk stungusendingu frá Kristófer Orra Péturssyni, ruddist fram úr varnarmönnum Vestra og lagði boltann í hornið. Virkilega vel gert hjá Pétri sem byrjaði sumarið hjá Kríu í 4. deild en hefur komið sterkur inn í Gróttuliðið seinni hluta sumars. Næstu mínútur voru hreint út sagt magnaðar. Kristófer Orri skaut í slána og Ísfirðingar klúðruðu dauðafæri. Valtýr Már Michaelsson átti góðan skalla að marki Vestra sem var vel varinn og skömmu síðar voru gestirnir aftur nálægt því að komast yfir. Geggjaður leikur! Eins og Gummi Ben myndi orða það.

En þegar jafntefli virtist óumflýjanlegt gerðist þetta: Dagur Guðjónsson þræddi boltann á Kristófer Orra sem var fljótur að spila á Valtý úti á hægri kantinum. Valtýr gaf fyrir markið þar sem Pétur Theodór kom á ferðinni og skallaði boltann í markið. Allt ætlaði hreinlega um koll að keyra í stúkunni og ekki minnkaði æsingurinn þegar dómari leiksins flautaði af nokkrum mínútum síðar. Sambatónlistin í botn og gleðin ósvikin hjá leikmönnum og áhorfendum.

Frábær sigur Gróttu á sterku liði og okkar menn nú í 2. sæti. Mætingin á völlinn var einnig til fyrirmyndar og virkilega góður andi meðal stuðningsfólks Gróttu.

Nú eru fimm leikir eftir í deildinni og þar með taldir leikir við Völsung og Aftureldingu sem eru líka í toppbaráttunni. Vonandi munu lærisveinar Óskars Hrafns og félaga halda áfram af þessum krafti og komast upp. En hvað sem verður er ljóst að það eru áhugaverðir hlutir í gangi í knattspyrnunni á Nesinu. Yngri flokka starfið er að skila leikmönnum upp í meistaraflokk og það er greinilega hægt að þjálfa upp alvöru lið með unga leikmenn í lykilhlutverkum.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print

Helstu upplýsingar

Aðalsími Gróttu 561-1133
Skrifstofa Gróttu opin virka daga
frá kl. 13:00 – 16:00
grotta@grotta.is

Fréttaflokkar