Skip to content

Emelía til Kristianstad

Í síðasta mánuði var tilkynnt að hin 15 ára gamla Emelía Óskarsdóttir hefði gert 3 ára samning við sænska úrvalsdeildarfélagið Kristianstads DFF, sem tekur gildi í mars næstkomandi á 16 ára afmæli Emelíu. Þetta eru frábær tíðindi og mikil viðurkenning fyrir Emelíu en Kristianstad hefur á síðustu árum verið eitt allra best lið Svíþjóðar. Síðustu tvær leiktíðir hefur Kristianstads endað í 3. sæti sænsku deildarinnar og mun því í annað sinn leika í Meistaradeild Evrópu á komandi keppnistímabili. 

Emelía hóf knattspyrnuferil sinn í 8. flokki Gróttu og lék upp yngri flokkana með Gróttu og Gróttu/KR. Hún kom inn í meistaraflokkslið Gróttu í Lengjudeildinni sumarið 2020, þá aðeins 14 ára gömul, og skoraði 1 mark í 13 leikjum. Síðasta sumar fluttist hún til Danmerkur og spilaði með unglingaliðum BSF þar sem frammistaða hennar vakti athygli Kristianstad og fleiri stórliða. Emelía hefur leikið 5 leiki með yngri landsliðum Íslands og skorað eitt mark. 

Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari Kristianstad en hún sagði í viðtali í sænskum fjölmiðlum að Emelía væri mjög spennandi framherji og hún fagnaði því að hafa fengið hana til liðs við félagið. Amanda Andradóttir gekk nýverið til liðs við Kristianstad en á síðustu leiktíð léku Sveindís Jane Jónsdóttir og Sif Atladóttir með liðinu. 

Emelía kvaðst vera spennt fyrir komandi tímum: „Þetta er rosalega spennandi tækifæri og ég er mjög spennt að takast á við þetta verkefni í Svíþjóð.“

Knattspyrnudeild Gróttu óskar Emelíu og fjölskyldu hennar til hamingju með þennan áfanga og hlakkar til að fylgjast með ævintýrum hennar í Svíþjóð.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print