Skip to content

Birgir Tjörvi nýr formaður: „Það gerist ekkert af sjálfu sér“

Fréttamaður Gróttusport arkar í sumarblíðunni gegnum miðbæ Reykjavíkur og hefur mælt sér mót við formann knattspyrnudeildar, Birgi Tjörva Pétursson, sem tók við í vor af Sölva Snæ Magnússyni sem hafði gegnt formennsku í tvö ár. Hver er maðurinn og hvað drífur hann áfram? Hvaða áskoranir þarf knattspyrnudeild Gróttu að takast á við á næstunni? Birgir er í símanum þegar mig ber að garði en kveður viðmælanda sinn nánast um leið. Við tökumst í hendur og spjallið hefst.

„Ég er Víkingur í grunninn. Ólst upp í Fossvoginum og spilaði bæði fótbolta og handbolta í yngri flokkunum. Entist lengur í handbolta en hætti um það leyti sem ég byrjaði í Versló. Það er alveg óhætt að segja að afrek mín á íþróttasviðinu hafi ekki verið til útflutnings. Ég hef hins vegar alla tíð verið mjög áhugasamur um íþróttir og fylgst með af ástríðu.“

„Við fjölskyldan fluttum á Nesið árið 2006 og þá fór maður auðvitað að fylgjast með liðinu í hverfinu. Börnin mín tvö hafa eins og flest börn á Nesinu verið í starfinu hjá Gróttu, í fimleikum, fótbolta og handbolta, en málefni Gróttu voru líka oft rædd við eldhúsborðið á meðan Erla Kristín [eiginkona Birgis Tjörva, innsk. blm.] tók þátt í uppbyggingu kraftlyftingadeildar á sínum tíma,“ segir Birgir Tjörvi sem er lögfræðingur að mennt og starfar hjá Lögmönnum Lækjargötu.

Að leggja sitt að mörkum

„Ég fylgdist nú bara með úr fjarlægð til að byrja með en fór svo að taka þátt í foreldraráðum. Það er nú oft fyrsta skrefið. Mér hefur fundist gott starf vera unnið í Gróttu og ekkert nema sjálfsagt að hjálpa til. Ég trúi á mikilvægi þess að fólk leggi eitthvað að mörkum til samfélagsins í hverfinu sínu, hvort sem það er tengt íþróttum eða einhverju öðru. Það er hluti af lífsgæðunum á Nesinu að starfið í Gróttu sé blómlegt og það er ekkert öðruvísi hjá okkur en annars staðar að starfsemin þrífst á sjálfboðaliðastörfum og stuðningi fólksins í kring. Það er gerist ekkert að sjálfu sér og því er mikilvægt að allir taki virkan þátt á einhverjum tímapunkti. Leggi sitt af mörkum með einhverjum hætti. Ég held að það skili okkur betra samfélagi á Nesinu.“

Gróttuleiðin

En hvað kom til að okkar maður settist í stjórn knattspyrnudeildar árið 2016?

„Þetta gerðist bara. Gróttuhjartað fór bara að slá hraðar með hverju árinu sem leið og mér fannst margt spennandi vera í gangi í fótboltanum. Það var að verða til ákveðin hugmyndafræði um hvernig Grótta vildi gera hlutina sem fólk virtist spennt fyrir að móta og vinna áfram. Það var kraftur í þjálfarateyminu og Gróttuleiðin fannst mér vera einstaklega áhugavert verkefni,“ segir Birgir og heldur áfram.

„Ég hef aðallega starfað í barna- og unglingaráði, með mjög góðu fólki, sem hefur verið mjög gefandi. Áskoranirnar eru margvíslegar í litlu félagi eins og Gróttu. Þótt það séu um 300 börn að æfa fótbolta hjá okkur, sem er alveg frábært, þá erum við lítill fiskur í stórri tjörn. Við viljum halda jafnvægi á milli uppeldis- og afreksstefnu, þ.e. reyna að fá öllum verkefni við hæfi og að öllum líði vel á sama tíma og við viljum líka að afreksfólk framtíðarinnar geti þrifist hjá okkur. Þetta getur verið mjög snúið og við verðum að vera mjög sveigjanleg, en sú skýra sýn sem birtist í Gróttuleiðinni hjálpar mikið í okkar starfi. Það er á verkefnalista ársins að ljúka fyrstu endurskoðun Gróttuleiðarinnar, en við höfum lært margt á þeim tíma sem liðinn er frá fyrstu útgáfu sumarið 2016.

Lítið félag með stórt hjarta

„Við erum viðkvæmari fyrir brottfalli í barna- og unglingastarfi hjá Gróttu en flest félög í kringum okkur. Við erum færri og fyrir vikið þurfum við að hafa meira fyrir hverjum og einum en aðrir. Það er gott í sjálfu sér, en þetta er alls ekki alltaf auðvelt, ekki síst vegna þess að smæðinni fylgja líka fjárhagslegar takmarkanir. Það er krefjandi verkefni að gera alla ánægða og tekst sannarlega ekki alltaf. Mér finnst við hafa verið heppin með þjálfara sem vilja krökkunum vel. Í fullkomnum heimi værum við með fleiri þjálfara í yngri flokka starfinu, með færri verkefni, til að geta sinnt öllum aðeins betur, en þetta er ekki eins auðvelt og það hljómar. Það snýst ekki bara um peninga. Þrátt fyrir jákvæða umræðu um þjálfaramál á Íslandi, er reynsla okkur sú að það séu ekki á hverjum tíma margir þjálfarar á lausu sem passa inn í rammann, taka þarf tillit til ólíkra þarfa einstakra flokka, æfingatíma, annarra starfa eða náms þjálfaranna o.fl. Mín upplifun er að allir séu að reyna að gera sitt besta og vanda sig af litlum efnum og á takmörkuðum tíma. Það skilar litlu fyrir starfið að berja í borð, heimta og krefjast. En það getur gert kraftaverk að bjóða fram aðstoð og sýna lit.“

„Undanfarin ár hefur fótboltinn verið rosalega fyrirferðarmikill á Íslandi, sem hefur verið mjög skemmtilegt og búið til heilbrigðan metnað, en það hafa komið upp tilvik þar sem mér hefur þótt of langt gengið. Við verðum að gæta okkur á því að skapa ekki óþarfa pressu á krakkana og starfið og fólkið sem heldur því gangandi. Krakkarnir verða að fá að vera þau sjálf, þau eru með ólík áhugamál og áherslur sem verður að virða. Það verða jú ekki allir afreksmenn í fótbolta. Í stórum dráttum held ég að jafnvægið hafi verið fínt hjá Gróttu. Félagið er með stórt hjarta og mér finnst við hafa náð ótrúlega góðum árangri. Stefnan og starfið í knattspyrnudeild hefur vakið verðskuldaða athygli annarra. En það má sannarlega alltaf gera betur og ég held að lykilþættir í því séu heilbrigður metnaður, raunhæf markmið, kröftug þátttaka sjálfboðaliða og gott samráð milli allra sem að málum koma.“

Gengið í takt

„Ég ætlaði mér aldrei að taka að mér formennsku en það þróaðist bara einhvern veginn þannig. Það sem hvatti mig ekki síst áfram var sú staðreynd að meistaraflokkarnir, með Óskar Hrafn og Magga við stjórnvölinn, eru nú í svipuðum takti og yngri flokkarnir. Það er verið að byggja fólk upp sem sterkari leikmenn og einstaklinga.

Mér hefur fundist að í formannstíð bæði Hilmars og Sölva hafi samvinna milli meistaraflokka og yngri flokka sífellt verið að aukast, þannig að starfið byggi æ meira á heildstæðri stefnu. Þeir eiga báðir miklar þakkir skildar fyrir sitt framlag. Það er miklu áhugaverðara að taka þátt í þannig stjórnarstörfum í íþróttafélagi, þar sem allir koma að stórum ákvörðunum og horft er á stærri mynd. Ég lít á það sem mitt hlutverk að halda áfram á þessari braut, ég verð bara fundarstjóri í þessum góða hópi fólks sem mér hefur fundist samstilltur og róa í sömu átt.

Spennandi tímar hjá meistaraflokkum félagsins

„Strákarnir unnu í raun og veru afrek í fyrra með því að komast upp um deild. Liðið skipuðu ungir og óreyndir strákar og boltinn sem þeir spiluðu var ólíkur því sem maður hefur áður séð. Einna helst í yngri flokka leikjum hjá Gróttu!“ segir Birgir Tjörvi. „Það er ótrúlegt hvað mörg knattspyrnufélög á Íslandi hafa lagt í meistaraflokkana sína. Ég hef lengi fylgst með keppni í efstu tveimur deildum Íslandsmóts karla, verið duglegur að sækja leiki og veit hvað samkeppnin þar er mikil, en mér kom mjög á óvart hvað keppnin í 2. deildinni var hörð. Það þarf svo ekki að taka það fram að verkefnið í sumar er ennþá erfiðara. Mér finnst alveg magnað að Gróttuliðið skuli vera í toppbaráttu í deildinni. Það hefur aldrei gerst áður. En við verðum að halda okkur á jörðinni, sýna auðmýkt í þessari stöðu og reyna að njóta þessa á meðan hægt er. Í Inkasso-deildinni takast á stór félög á íslenskan mælikvarða, sum með mikla hefð og sögu, sem vilja alltaf vera í efstu deild; félög eins og Keflavík, Þór, Fram, Þróttur og í seinni tíð Fjölnir. Þarna eru líka félög úr fjölmennarri byggðum en Nesið er, eins og t.d. Haukar, Afturelding og Leiknir í Breiðholti og það ætla allir að festa sig í sessi, eða fara lengra. Það hafa líka verið peningar í þessu. Við sjáum t.d. mjög sterkt lið Víkings frá Ólafsvík sem að miklu leyti er byggt upp af erlendum leikmönnum. Ég ber virðingu fyrir því sem þar hefur verið gert og er ekki í þessu til að gera lítið úr öðrum, en við förum aðra leið. Kannski ef lið Magna frá Grenivík er undanskilið, þá held ég Grótta sé með langminnsta peninga í sínu meistaraflokksstarfi af öllum liðunum í deildinni. Við erum ekkert ósátt við það. Við erum eiginlega bara stolt af því. Okkar rekstur verður að vera ábyrgur, við getum ekki eytt því sem við eigum ekki til. Og við erum þakklát fyrir að hafa haft svo frábært teymi að vinna fyrir okkur undanfarin ár. Teymi sem þorði að gera tilraunir. T.d. að marka þá stefnu að það fær enginn peninga í dag fyrir að spila fótbolta hjá Gróttu. Ég tel að okkar fólk hafi sýnt að þetta er vel hægt. Það er ekki þar með sagt að það sé engin umbun, hún er bara ekki í formi peninga. Mér finnst spennandi að taka þátt í að þróa þetta áfram innan félagsins. Í því efni tel ég mikilvægt að festast ekki í einhverjum kreddum, við þurfum að vera eins og fótboltaliðin okkar. Vera hugrökk, taka áhættu og vera tilbúin til að gera breytingar. Ekkert af þessu sem við erum að gera er endanlega meitlað í stein.“ Talið berst í kjölfarið að meistaraflokki kvenna sem leikur í 2. deild.

„Mér fannst stelpurnar standa sig vel í fyrra þegar þær enduðu í 4. sæti undir stjórn Gaua Kristins sem vann mjög gott frumkvöðlastaf með meistaraflokkinn. Undanfarin ár hefur stelpum í fótbolta á Nesinu fjölgað mikið. Þær eru komnar á annað hundrað, stelpurnar sem æfa hjá okkur. Og þá er nauðsynlegt að halda úti metnaðarfullu meistaraflokksstarfi, en það er ekki alveg sjálfgefið. Við megum ekki gleyma því að meistaraflokkur kvenna er á sínu fjórða ári.

Stelpurnar eru í öðru sæti þegar mótið er hálfnað og ég tel að þær eigi alla möguleika á að komast upp um deild í sumar. Þær þurfa bara að trúa því. Í þeim leikjum sem ég hef séð hefur Gróttuliðið haldið boltanum vel innan liðsins og það hefur verið gaman að sjá yngri stelpurnar blandast við þær sem hafa verið í liðinu í nokkur ár. Það er minni hefð í kvennaknattspyrnu á Íslandi þótt veruleg breyting hafi orðið til batnaðar. Ég held að Grótta hafi undanfarin ár verið með betra starf en mörg stærri félög og samstarfið við KR í 2., 3. og 4. flokki hefur í öllum aðalatriðum gengið vel. Mín skoðun er sú að það sé mikið sóknarfæri fyrir Gróttu í kvennafótbolta í framtíðinni.“

Umræðan um heimafólk

Mikið hefur verið rætt um mikilvægi þess að gefa heimafólki tækifæri í meistaraflokki. Birgir Tjörvi er á þeirri skoðun að mikilvægt sé að byggja liðin upp á uppöldum Gróttukrökkum en þó þurfi alltaf að þétta raðirnar með öðrum leikmönnum.

„Stefnan sem Óskar og Halldór hafa verið með í karlaliðinu finnst mér hárrétt. Að byggja liðið á heimamönnum í bland við unga og hæfileikaríka stráka sem ekki fá tækifæri hjá stærri félögunum. Ég tel að þannig verði til blanda sem sé til þess fallin að lyfta öllu starfinu,“ segir Birgir og heldur áfram: „Grótta er það lítið félag að það er óraunhæft að vænta þess að við getum mannað liðin okkar eingöngu með heimafólki. Það kannski gerist einhvern tímann en við getum ekki gert ráð fyrir því. Meistaraflokkarnir eru okkar afrekshópar og við viljum að þar séu gerðar kröfur sem hæfa afreksstarfi. Þar eru aðrar áherslur en í barna- og unglingastarfinu. Svo megum við heldur ekki gleyma því að stundum kemur fyrir að efnilegt knattspyrnufólk, sem hefur alla burði til að verða afreksfólk, skilar sér ekki upp í meistaraflokk. Það hefur bara önnur markmið í lífinu en að spila fótbolta og við verðum að virða það. Við þurfum því að sækja okkur liðsstyrk og það er mikilvægt að vanda valið vel. En þegar nýir leikmenn eru gengnir til liðs við Gróttu er mikilvægt að þeim finnist þeir vera velkomnir. Það er hættulegt að vera með einhverja flokkadrætti og líta á aðkomumenn- eða konur sem eitthvað annað en Gróttufólk. Tilgangurinn með komu hvers nýs leikmanns annars staðar frá þarf að vera skýr, en þegar hann er kominn að þá er viðkomandi einn af okkur.“

Skemmtilegt samfélag

En hvað er það sem nýr formaður brennur fyrir á sínu fyrsta kjörtímabili? Hverjar eru helstu áskoranirnar?

„Til að byrja með að þá tel ég mikilvægt að knattspyrnudeildin haldi áfram að standa fyrir ábyrgri fjármálastjórn. Það er lítið um framúrkeyrslur og því þarf sem betur fer ekki oft að eyða orku í að slökkva elda,“ segir Birgir Tjörvi og kemur svo að uppbyggingu innviða. Dálítið stjórnmálaskotin umræða en mjög mikilvæg, þegar vel er að gáð.

„Ég endurtek það sem ég sagði áðan: Það eru gríðarlega færir og duglegir þjálfarar að vinna hjá knattspyrnudeildinni. Fólk sem þekkir samfélagið vel og hefur framtíðarsýn fyrir hönd félagsins. Þjálfarateymi Gróttu hafa þurft að ganga í fleiri störf en gengur og gerist annars staðar og það gerir það stundum að verkum að faglega starfið situr á hakanum. Ein mikilvægasta áskorun Gróttu, sem íþróttafélags, er að styrkja innviði félagsins. Þjálfararnir okkar, í öllum deildum, verða að geta einbeitt sér að því að þjálfa og við þurfum fleiri hendur í að sinna ótal stórum og smáum verkefnum tengdum daglegum stjórnunar- og skipulagsverkefnum. Ég veit að Bragi, formaður aðalstjórnar, hefur líka þessa sýn og ég hef trú á aðalstjórn hvað þetta varðar. En mig langar líka til að sjá fleira fólk í starfinu og halda áfram byggja upp skemmtilegt samfélag í kringum knattspyrnudeild. Það þurfa ekki allir að vera að spila fótbolta eða eiga börn sem gera það til að eiga erindi í okkar starf. Þá myndi ég gjarnan vilja sjá fleiri af yngri kynslóðinni reyna fyrir sér í þjálfun hjá félaginu, við höfum sannarlega frábær dæmi um það, eins og t.d. Magga Helga, Bjarka Má, Bjössa Vald, Pétur Rögnvalds, Arnar Axels, Eydísi, Jórunni og fleiri, en við verðum að halda þessu áfram líka. Sérstaklega myndi ég vilja sjá fleiri stelpur byggja sig upp í þjálfun. En svo eru það líka stjórnarstörf, uppbygging stuðningsmannaklúbba o.fl. Því fleiri sem taka þátt með jákvæðum hætti því meira gaman er að standa í þessu. Og kannski til að gera langa sögu stutta er þetta það sem drífur mig áfram, ég nýt þess að vera í svoleiðis umhverfi.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print