Skip to content

Frábær sigur gegn Fram

Meistaraflokkur karla hélt í Safamýrina í gærkvöldi og mættu þar heimamönnum í Fram í 6.umferð Olísdeildar-karla.

Hannes fékk rautt gegn Fram – ekki hans fyrsta.

Leikurinn gríðarlega mikilvægur og þá sérstaklega í ljósi þess að liðin í neðri hluta deildarinnar voru búin að næla sér í stig fyrr um daginn og því mikilvægt að Gróttu-strákar myndu mæta af krafti í leikinn og stela stigi ef ekki tveimur í Safamýrinni til að missa ekki af lestinni.

Grótta endurheimti Sigfús Pál og Leonharð Þorgeir úr meiðslum og var það kærkomið fyrir liðið að fá aðeins meiri breidd í hópinn.

Leikurinn byrjaði af krafti varnarlega hjá báðum liðum en annað má segja um sóknarleik beggja liða sem fer sennilega ekki í sögubækurnar fyrir gott skemmtanagildi en eftir 5 mínútna leik var staðan ennþá 0-0, ótrúlegar tölur í raun. Eftir það skiptust liðin á að skora og var leikurinn jafn og spennandi. Á 18.mínútu í stöðunni 5-6 fyrir Gróttu tók línutröllið Hannes Grimm sig til og löðrungaði Svavar Kára leikmann fram í andlitið og uppskar í kjölfarið beint rautt spjald. Eftir þetta atvik frosnuðu leikmenn Gróttu algjörlega og Fram-liðið gekk á lagið og breytti stöðunni í 10-7 fyrir lok fyrri hálfleiks. Lélegur fyrri hálfleikur að baki hjá okkar strákum og stuðningsmenn voru ekkert alltof bjartsýnir fyrir þann síðari.

Leonharð var frábær í seinni hálfleik.

Eitthvað virtist Einar Jónsson þjálfari Gróttu hafa sagt í hálfleik þar sem Gróttu-liðið kom gríðarlega einbeitt til leiks í þeim síðari og voru búnir að jafna leikinn 10-10 eftir 3ja mínútna leik og komust í kjölfarið í 11-14, stórkostleg 1-7 byrjun á hálfleiknum og Fram-liðið virtist slegið út af laginu. Eftir þessa byrjun rétt glefsuðu Framarar frá sér og minnkuðu muninn í 15-17 en þá gáfu Gróttu-strákar í á ný og juku forskotið í 6 mörk, 15-21 þegar 6 mínútur lifðu leiks. Það bil reyndist of mikið fyrir Framara og sigldu Gróttu-strákar frábærum sigri í hús á útivelli 20-24.

Eins og lokatölur gefa til kynna að þá var varnarleikur Gróttu-liðsins frábær allan leikinn og eru liðinu allir vegir færir með slíkum varnarleik. Sóknarleikurinn var þó oft stirður í fyrri hálfleik en getum við þakkað Sigfúsi Páli fyrir að bera hann uppi í fyrri hálfleik. Allt annar sóknarleikur var uppi á teningunum í þeim síðari þar sem okkar strákar skoruðu 17 mörk og voru þar Jóhann Reynir og Leonharð Þorgeir fremstir meðal jafningja.

Nú tekur við 2ja vikna landsliðspása sem liðið um eflaust nýta vel til æfinga og er næsti leikur liðsins heimaleikur gegn Akureyri sunnudaginn 4.nóvember. Nánar síðar.

Markahæstir í Gróttu-liðinu

  • Jóhann Reynir – 6 mörk
  • Leonharð Þorgeir – 5 mörk
  • Alexander Jón – 4 mörk
  • Magnús Öder – 3 mörk
  • Sigfús Páll – 2 mörk
  • Sveinn José – 2 mörk
  • Aðrir minna

Hreiðar Levý varði 10 skot í markinu eða 33% skota sem hann fékk á sig og var frábær á lokakafla leiksins.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print