Þetta viðtal birtist upprunalega í Nesfréttum.
Það er mikið líf á Vivaldivellinum þegar blaðamann Nesfrétta ber að garði á fallegu síðdegi í maí. Örugglega um 60 börn og unglingar að æfa á iðagrænu gervigrasinu. Við höfum mælt okkur mót við þjálfara meistaraflokka Gróttu í knattspyrnu, þá Óskar Hrafn Þorvaldsson og Halldór Árnason sem þjálfa karlaliðið og Magnús Örn Helgason og Pétur Rögnvaldsson sem þjálfa kvennaliðið. Magnús og Óskar eru í hrókasamræðum þegar ég geng inn í vallarhúsið en þeir standa snögglega upp og bjóða mér kaffibolla. Halldór er að klára æfingu hjá 5. flokki karla og Pétur kemur nokkrum mínútum síðar, beint af liðsfundi með stelpunum í 3. flokki.
Ég byrja á að spyrja hvort það sé algengt að meistaraflokksþjálfarar séu einnig að þjálfa í yngri flokkunum. „Ég held hreinlega að það sé einsdæmi að báðir aðalþjálfarar og aðstoðarþjálfarar meistaraflokks séu að þjálfa í yngri flokkum eins og hjá Gróttu,“ segir Halldór sem tók við sem yfirþjálfari yngri flokka síðastliðið haust. „Ég tel að það styrki tengslin á milli yngri og eldri iðkenda og að meiri eining skapist innan deildarinnar. Vandamál Gróttu er hins vegar það að þjálfararnir okkar eru oft að þjálfa of marga flokka sem getur leitt til of mikils álags og jafnvel kulnunar í starfi. En menn þurfa að eiga fyrir salti í grautin og því endar þetta oft svona.“
Unga kynslóðin bankar á dyrnar
Magnús og Óskar þjálfuðu einmitt 3. flokk karla á síðasta ári og stýrðu A-liði Gróttu alla leið í undanúrslit Íslandsmótsins. „Þetta var frábært tímabil og það eru forréttindi að fá að vinna með þessum strákum,“ segir Magnús og bætir við: „Þeir eru nú flestir á fullri ferð í annað hvort 2. eða 3. flokki og eru sterk heild þrátt fyrir að spila ekki alltaf á sama stað. Fimm strákar úr þessum hópi fengu tækifæri með meistaraflokki í vetur og þrír léku með U16 ára landsliðinu á dögunum,“ segir Magnús sem hefur þjálfað stráka og stelpur hjá Gróttu í meira en áratug.
Uppgangur kvennaboltans í Gróttu hefur einmitt verið hraður síðustu ár og nú eru leikmenn úr yngri flokka starfinu farnir að skila sér upp í meistaraflokk. Pétur er á sínu fimmta tímabili sem þjálfari í yngri flokkum kvenna og er ánægður með framfarir sinna stelpna. „Það hafa sex stelpur úr 3. flokki komið við sögu hjá meistaraflokki í vetur og fjórar þeirra æft með yngri landsliðunum. Þessi hópur hefur ekki verið sigursæll í yngri flokkunum og því er sérstaklega gaman að sjá stelpurnar stíga þessi skref og að upplifa viljann sem þær hafa til að bæta sig,” segir Pétur.
Inkasso-deildin
Talið berst að frábærum árangri meistaraflokks karla sem komst upp í Inkasso-deildina síðasta sumar með ungt og óreynt lið. Ekki nóg með það heldur vakti leikstíll Gróttu verðskuldaða athygli en strákarnir hikuðu ekki við að taka áhættur í samspili á eigin vallarhelmingi sem ekki er algengt í meistaraflokksfótbolta. Við spyrjum Óskar hver hafi verið lykillinn að árangrinum. „Fyrst og fremst mikill dugnaður strákanna. Þeir lögðu hart að sér og voru hungraðir í að uppskera, sem þeir og gerðu. Við þjálfararnir unnum líka mikið og lögðum metnað í að undirbúa liðið til spila sókn, vörn og hlaupa meira en andstæðingarnir. En heiðurinn er allur hjá þessum hugrökku, ungu mönnum sem voru félaginu sínu til mikils sóma á síðasta ári.
Nú takast Gróttumenn á við nýja áskorun: Inkasso-deildina þar sem fornfræg félög eins og Keflavík, Fram, Þór og Þróttur eru meðal mótherja. Í aðdraganda tímabilsins var mikil hreyfing á leikmannahópum nær allra liðanna nema Gróttu. Óskar Hrafn hefur orðið: „Það voru tveir menn sem lögðu skóna á hilluna í haust, þeir Ásgrímur Gunnarsson og Sindri Már Friðriksson, og við fengum tvo í staðinn. Þá Axel Sigurðsson og Bjarka Leósson sem báðir hafa komið feykilega sterkir inn í hópinn. Ákveðið var að stóla á mannskapinn sem skilaði félaginu upp um deild síðasta sumar og því mikilvægt að hjálpa strákunum að stíga þetta skref, að spila deild ofar. Hversu mörgum tekst það mun koma í ljós,“ segir Óskar.
Vallarhúsið sprungið
Halldór Árnason er uppalinn KR-ingur en starfaði fyrir Stjörnuna í Garðabæ áður en hann gekk til liðs við þjálfarateymi Gróttu haustið 2017. Halldór er þó Seltjarnarnesinu að góðu kunnur en foreldrar hans búa í bænum og hann spilaði með Gróttu í bæði 2. og meistaraflokki. „Starfið í Gróttu hefur vakið eftirtekt síðustu árin og því þótti mér mjög spennandi að ráða mig til félagsins. Hér vinna gríðarlega duglegir þjálfarar og stemningin á vellinum er heimilisleg og jákvæð. Mér líður vel í Gróttu og hef notið þess að starfa í bæði meistaraflokki sem og í yngri flokkunum. Það er styrkur fólginn í því hve vel Seltjarnarnes styður við bakið á félaginu. Gervigrasið sem var lagt 2016 er fyrsta flokks og það verður spennandi að sjá nýja lyftingasalinn í íþróttahúsinu. En betur má ef duga skal og nú þarf með einhverjum hætti að leysa búningsklefavandann sem við í knattspyrnudeildinni búum við. Frá því að húsið var vígt árið 2009 hefur iðkendum fjölgað verulega og nú þurfa krakkarnir stundum að skipta um föt í boltageymslunni eða í samkomusalnum þegar klefarnir eru uppteknir vegna leikja. Það er staða sem enginn er sáttur við.
Látum ekki stjórnast af ótta
Kvennalið Gróttu leikur í 2. deild sem er jafnframt neðsta deild Íslandsmótsins. Við spyrjum Magnús hver séu markmið sumarsins. „Við förum ekki í neinar felur með að stefnan er sett upp í Inkasso-deildina. Umhverfið í 2. deild kvenna er sérstak. Við spilum aðeins 12 leiki, sem er svipað og í 4. flokki, og miklum fjármunum þarf að eyða í ferðalög. Ég tel að Grótta sé félag sem geti vel spjarað sig deild ofar án þess að falla frá sínum grunngildum.“ Pétur tekur undir þessi orð Magnús og bætir við: „Markið er klárlega sett á efstu tvö sætin í deildinni en við megum samt ekki gleyma því hver við erum og fyrir hvað við stöndum. Við ætlum ekki að pakka í vörn. Við viljum stjórna leikjum og spila skemmtilegan fótbolta, eins og við höfum reynt að gera allt undirbúningstímabilið. Svo má aldrei gleyma því að hafa gaman af því sem maður er að gera.”
Óskar tekur í sama streng og fullvissar blaðamann um að karlalið Gróttu muni ekki breyta um stíl þó að andstæðingarnir verði erfiðir við að eiga. „Við viljum halda okkar einkennum og vera við sjálfir. Leggjum áherslu á að stjórnast ekki af óttanum við að mistakast heldur kjarkinum til að láta hlutina takast. Það er líka mikilvægt að stuðningsmennirnir standi við bakið á okkur eins og í fyrra. Þó að við munum gera vond mistök og gefa mörk, að þá verðum við að horfa á stóru myndina og trúa því að tilgangurinn sé stærri en einn og einn leikur.“
Með þessum lokaorðum kveðjum við fjórmenningana og höldum út í vorkvöldið. Stelpur og strákar í Gróttugöllum spila fótbolta af miklu kappi á vellinum og hafa eflaust ekki miklar áhyggjur af því að koma of seint í kvöldmatinn. Enda engin ástæða til.