Skip to content

Dagur Guðjónsson íþróttamaður Gróttu

Knattspynumaðurinn Dagur Guðjónsson var í gærkvöldi kjörinn íþróttamaður Gróttu fyrir árið 2018.

Dagur er fæddur og uppalinn á Seltjarnarnesi. Hann er 21 árs gamall og lék upp alla yngri flokkana með Gróttu. Dagur spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik árið 2014 en hefur síðustu þrjár leiktíðir verið fastamaður í liði Gróttu. Dagur hefur alla tíð verið með framúrskarandi æfingasókn og metnað til að bæta sig og það skein í gegn á liðnu tímabili.

Hann var fljótur að tileinka sér þær áherslur sem nýtt þjálfarateymi kom með að borðinu og nálgaðist æfingar og leiki af miklum metnaði og fagmennsku. Á miðju undirbúningstímabili var hann orðinn lykilmaður í liðinu og endaði á að spila alla leiki sumarsins í byrjunarliði, að einum undanskildum þegar hann tók út leikbann. Eins og kunnugt er vann Grótta sér sæti í Inkasso-deildinni með eftirtektarverðum hætti en meðalaldur liðsins var ekki hár og spilaður var áhættusamur sóknarfótbolti.

Dagur stýrði spilinu af miklu hugrekki frá vörn Gróttuliðsins og varðist fimlega þegar á þurfti að halda. Hann hélt ró sinni þegar á móti blés og stappaði stálinu í liðsfélaga sína þegar á þurfti að halda. Að loknu tímabili var Dagur útnefndur leikmaður ársins af þjálfurum Gróttu og vonandi mun þessi mikli Gróttumaður halda uppteknum hætti árið 2019.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print