Skip to content

Auður Anna og Ingi Þór íþróttamenn Seltjarnarness 2023

Kjör íþróttamanns Seltjarnarness 2023 í karla- og kvennaflokki fór fram fimmtudaginn 8. febrúar í 30. skipti við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu.

Íþróttamenn Seltjarnarness 2023 eru Auður Anna Þorbjarnardóttir fimleikakona og Ingi Þór Ólafson golfari.

Kjörið er í umsjón íþrótta- og tómstundanefndar Seltjarnarness, sem vill með kjörinu vekja athygli á gildi íþrótta, öflugu íþróttastarfi á Seltjarnarnesi og verðlauna sérstaklega afreksíþróttamenn úr hópi bæjarbúa. Sex tilnefningar bárust nefndinni þetta árið. Jafnframt voru veitt verðlaun til landsliðsfólks, ungs og efnilegs íþróttafólks auk þess sem Íslands- og bikarmeistarar voru sérstaklega verðlaunaðir og tveir íþróttamenn fengu úthlutað úr afreksmannasjóði ÍTS.

Auður Anna Þorbjarnardóttir, fimleikakona

Auður Anna er nýorðin 14 ára og einn allra efnilegasti iðkandi fimleikadeildar Gróttu. Hún var í bikarliði Gróttu í frjálsum æfingum vorið  2023, keppti fyrir Gróttu á Íslandsmóti í áhaldafimleikum í unglingaflokki í maí og varð í 4. sæti í fjölþraut. Auður Anna komst í úrslit á stökki, slá og gólfi og fékk silfur á stökki. Þá sigraði hún á stökki í unglingaflokki í GK móti Fimleikasambands Íslands og varð í 3. sæti á stökki í unglingaflokki á haustmóti FSÍ.

Auður Anna var valin í úrvalshóp Fimleikasambands Íslands og keppti með unglingalandsliði Íslands á Norðurlandamóti unglinga í Finnlandi sem og á EYOF (European Youth Olympic Festival) í Slóveníu á árinu. Á Norðurlandamótinu varð Auður Anna í 13. sæti í fjölþraut, stigahæst íslensku keppendanna. Hún komst í úrslit á stökki þar sem að hún vann silfurverðlaun. Þá keppti Auður með Gróttu á alþjóðlegu móti Gymsport í Porto á árinu þar sem hún varð í 10. sæti í fjölþraut og komst í úrslit á stökki og gólfi. Hún fékk bronsverðlaun fyrir stökk á mótinu og varð í 6. sæti á gólfi.

Ingi Þór Ólafson, golfari

Ingi Þór er afrekskylfingur sem keppir í golfi fyrir hönd Golfklúbbs Mosfellsbæjar. Hann leikur á mótaröð þeirra bestu og endaði í 8. sæti á stigalista mótaraðarinnar 2023. Hápuktur sumarsins var 4. sæti í Íslandsmótinu í höggleik en einnig var hann í öðru sæti í Hvaleyrarbikarnum. Ingi Þór lék í karlasveit Golfklúbbs Mosfellsbæjar sem sigruðu Íslandsmót golfklúbba 2023 og má segja að Ingi Þór hafi verið einn af lykilmönnum sveitar GM. Í kjölfarið var hann valinn í lið þriggja kylfinga úr GM til að leika á Evrópumóti golfklúbba í Portúgal.

Ingi Þór fór í tvö úrtökumót fyrir Nordic mótaröðina í haust og lék frábært golf og tryggði sér fullan þátttökurétt á mótaröðinni fyrir keppnistímabilið 2024. Einnig var Ingi Þór valinn í landsliðshóp GSÍ fyrir 2024.

Þau sem hlutu tilnefningar til Íþróttamanns Seltjarnarness 2023


Frá vinstri: Ingi Þór Ólafson golf, Lovísa Davíðsdóttir Scheving knattspyrna, Rut Bernódusdóttir handknattleikur og Auður Anna Þorbjarnardóttir. Á myndina vantar Hannes Grimm handknattleikur og Grím Inga Jakobsson knattspyrna.

Afreksmannastyrkur

Aðalsteinn Karl Björnsson júdó og Ingi Þór Ólafson golf.

Landsliðsfólk

Frá vinstri: Rebekka Sif Brynjarsdóttir U-15 knattspyrna, Arnfríður Auður Arnarsdóttir U-15 knattspyrna, Katrín Anna Ásmundsdóttir U19 handknattleikur, Antonie Óskar Pantano U-17 handknattleikur, Sara Björk Arnarsdóttir U-15 knattspyrna, Auður Anna Þorbjarnardóttir U-landslið fimleikar. Á myndina vantar Andra Fannar Elísson U-19 handknattleikur og Tómas Johannessen U-17 knattspyrna.

Ungt og efnilegt íþróttafólk

Í stafrófsröð:

  • Arnfríður Auður Arnarsdóttir, knattspyrna
  • Birgir Davíðsson Scheving, knattspyrna
  • Edda Sigurðardóttir, handknattleikur
  • Elísabet Þóra Ólafsdóttir, golf
  • Freyja Geirsdóttir, hópfimleikar
  • Jón Agnar Magnússon, golf
  • Jón Bjarni Pálsson, handknattleikur
  • Katrín Arna Andradóttir, handknattleikur
  • Nína Karen Jóhannsdóttir, áhaldafimleikar
  • Rakel Lóa Brynjarsdóttir, knattspyrna
  • Tómas Johannessen, knattspyrna
  • Þröstur Blær Guðmundsson, handknattleikur

Bikarmeistarar í 2. þrepi fimleikastigans

Í stafrófsröð:

  • Ása Agnarsdóttir
  • Áslaug Glúmsdóttir
  • Harpa Hrönn Egilsdóttir
  • Nína Karen Jóhannsdóttir
  • Á myndina vantar Eldey Erlu Hauksdóttur sem einnig varð Íslandsmeistari í 2. þrepi.

Til hamingju allir með frábæran árangur á árinu 2023. 

Ljósmyndari: Eyjólfur Garðarsson.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print