Ofurhetjur blómstruðu á litríku og kraftmiklu Ofurhetjumóti Gróttu og Colgate!

Ofurhetjumót Fimleikadeildar Gróttu og Colgate 2025, fór fram síðustu helgi, þar sem alls 330 ofurhetjur frá fjórum félögum sýndu glæsilega takta í fimleikum, allt frá 6. þrepi upp í frjálst þrep, Íslenska fimleikastigans. Keppt var frá föstudegi til sunnudagskvöld og óhætt að segja að mikil gleði og líf ríkti í Hertzhöllinni.

Mótið tókst ótrúlega vel og það var frábært að sjá keppendur njóta sín í litríkri og ævintýralegri umgjörð mótsins. Fimleikadeild Gróttu vill þakka öllum keppendum og foreldrum kærlega fyrir komuna. Sérstakar þakkir fá einnig allir þjálfarar, dómarar og sjálfboðaliðar sem lögðu hönd á plóg við uppsetningu og framkvæmd mótsins.

Að lokum viljum við þakka styrktaraðila Ofurhetjumótsins, Colgate innilega fyrir stuðninginn, en allir keppendur fóru heim með glæsilega þátttökugjöf frá þeim.

Katrín Anna Ásmundsdóttir og Kristófer Melsted kjörin Íþróttafólk Gróttu 2024

Kjör Íþróttafólks Gróttu var haldið þriðjudaginn 11. mars við hátíðlega athöfn í hátíðarsal Gróttu. Viðburðurinn er fastur liður ár hvert þar sem veittar eru viðurkenningar fyrir árangur og framlag einstaklinga innan félagsins.

Helstu viðurkenningar

Kristófer Melsted knattspyrnumaður var kjörinn Íþróttamaður Gróttu og Katrín Anna Ásmundsdóttir handknattleikskona var kjörin Íþróttakona Gróttu.

Hrafn Ingi Jóhannsson handknattleiksmaður var valinn Íþróttamaður æskunnar og Rebekka Sif Brynjarsdóttir knattspyrnukona var kjörin Íþróttakona æskunnar.

Tomas Bekkavik fimleikaþjálfari var valinn þjálfari ársins.

Sjálfboðaliðar ársins
Sjálfboðaliðar gegna lykilhlutverki í íþróttafélögum með ómetanlegu framlagi sínu þar sem þeir gefa tíma sinn og krafta til að skapa öflugt íþróttaumhverfi. Við kunnum sjálfboðaliðum miklar þakkir fyrir óeigingjarnt starf sitt sem gerir fjölbreytta íþróttastarfsemi mögulega og styrkir samheldni innan félagsins. Sjálfboðaliðar ársins 2024 eru Aron Bjarki Arnarsson hjá handknattleiksdeild og Lilja Nótt Þórarinsdóttir hjá knattspyrnudeild.

Viðurkenningar til þeirra sem kepptu fyrir íslandshönd í fyrsta sinn á árinu

Þrír íþróttamenn hlutu viðurkenningu fyrir að hafa keppt fyrir Íslandshönd í fyrsta sinn á árinu 2024 en það voru þau Atli Steinn Arnarsson, Anna Karólína Ingadóttir og Bessi Teitsson

Bronsmerki Gróttu hlutu: Ari Pétur Eiríksson, Arnar Þór Helgason, Edda Andradóttir, Eva Björk Hlöðversdóttir, Bjarni Rögnvaldsson, Helgi Héðinsson, Hulda Björk Halldórsdóttir, Filip Andonov, Katrín Viðarsdóttir, Kristín Gísladóttir, Kristín Björg Svövudóttir, Kristín Huld Þorvaldsdóttir, Tinna Bjarkar Jónsdóttir, Patrekur Pétursson Sanko, Páll Þórólfsson og Pétur Theodór Árnason.

Silfurmerki Gróttu hlutu: Anna Björg Erlingsdóttir og Jórunn María Þorsteinsdóttir.

Gullmerki Gróttu hlaut: Andri Sigfússon.

Að kjöri loknu var boðið upp á léttar veitingar fyrir gesti. Eyjólfur Garðarsson var viðstaddur og festi viðburðinn á filmu en hann hefur um árabil sinnt ómetanlegu starfi fyrir Gróttu með því að mynda mikilvæga viðburði innan félagsins.

Grótta óskar öllum viðtakendum til hamingju og þakkar þeim kærlega sem láta gott af sér leiða innan félagsins.

ÁFRAM GRÓTTA!

Ofurhetjur keppa í Gróttu um helgina – 300 fimleikahetjur sýna listir sínar

Ofurhetjumót Fimleikadeildar Gróttu og Colgate, fer fram um helgina, þar sem alls 300 ofurhetjur frá fjórum félögum sýna listir sínar í fimleikum. Keppt verður í 6. þrepi, bæði hjá stúlkum og drengjum, auk keppni í fimmta, fjórða og þriðja þrepi stúlkna. Undirbúningur fyrir mótið er á fullum og mikil tilhlökkun ríkir innan Gróttu. Fylgjast má með mótinu á Instagram-síðu fimleikadeildar Gróttu @grottafimleikar og á Facebook-síðu deildarinnar, Grótta Fimleikar.

Við óskar öllum keppendum góðs gengis á mótinu og hlökkum til að taka á móti gestum í Hertz- höllina um helgina.

Kjör Íþróttafólks Gróttu 2024

Kjör íþróttafólks Gróttu fyrir árið 2024 fer fram við hátíðlega athöfn þriðjudaginn 11. mars kl. 17:30 í hátíðarsal Gróttu.

Auk þess verða krýnd:
*Íþróttakona æskunnar.
*Íþróttamaður æskunnar.
*Þjálfari ársins.
*Sjálfboðaliðar ársins.
*Þau sem kepptu í fyrsta sinn fyrir Íslands hönd á árinu.
*Afhent verða brons-, silfur- og gullmerki Gróttu.

Við hvetjum allt Gróttufólk til að mæta og heiðra okkar flotta íþróttafólk. Það verða léttar veitingar í boði að kjöri loknu.

Aðalfundir aðalstjórnar og deilda Íþróttafélagsins Gróttu

Aðalfundir aðalstjórnar og deilda Íþróttafélagsins Gróttu fara fram fimmtudaginn 27. mars 2025. Aðalfundirnir hefjast kl. 17:30 og er gert ráð fyrir að þeim sé lokið kl. 18:30. Eftir að aðalfundunum lýkur verður öllum gestum boðið upp á léttar veitingar.

Grótta með flottan hóp á GK-móti yngri í Gerplu

Helgina 7-9 febrúar fór fram GK-mót yngri í Gerplu, þar sem Grótta tók þátt með fjögur lið: eitt lið í 4. flokki, tvö lið í stökkfimi 4. flokks og eitt lið í keppnisflokki KKY.

Grótta náði góðum árangri í stökkfimi þar sem annað liðið hafnaði í 1. sæti og hitt í 9. sæti. Liðið í 4. flokki endaði í 8. sæti, í A- deild og keppnisflokkur KKY hafnaði í 5. sæti.

Fimleikadeild Gróttu er stolt af árangri sinna keppenda og óskar þeim innilega til hamingju með frammistöðuna og hlakkar til að fylgjast með yngri flokkum deildarinnar í hópfimleikum. 

Áfram Grótta!

Frábær árangur á Þrepamóti hjá keppendum Fimleikadeildar Gróttu

Þrepamót í 1.-3. þrepi íslenska fimleikastigans fór fram helgina 15.-16. febrúar í Keflavík. Fimleikadeild Gróttu átti fjölmennan og glæsilegan hóp keppenda, sem sýndi frábæra frammistöðu á fyrsta móti vorannar. Keppendur stóðu sig með prýði og náðu miklum árangri.

Í 2. þrepi stúlkna, 13 ára og eldri, keppti Hildur Monika Baldvinsdóttir á sínu fyrsta móti í 2. þrepi. Hún sýndi nýjar æfingar á slá og gólfi með góðum árangri.

Í 3. þrepi stúlkna 11 ára og yngri náði Mjöll Jónsdóttir tilsettum stigafjölda í fjölþraut til að ná þrepinu. Mjöll sigraði einnig í tvíslá og hlaut gullverðlaun, og Sigurrós Ylfa Rúnarsdóttir náði bronsi í gólfæfingum í sama flokki.

Í 3. þrepi stúlkna 12 ára, fékk Hugrún Anna Guðnadóttir bronsverðlaun í stökki.

Í 3. þrepi stúlkna 13 ára og eldri, fékk Hrefna Höskuldsdóttir Rafnar gull á stökki og Sunna Mist Sheehan hlaut gull á tvíslá.

Fimleikadeild Gróttu óskar keppendum sínum og þjálfurum innilega til hamingju með árangurinn og hlakkar til að fylgjast með frekari frammistöðu á komandi mótum.

Áfram Grótta!

Öll úrslit mótsins má nálgast hér.

Frísk í Gróttu – Heilsuefling fyrir 65 ára og eldri

Kynningarfundur ​​á nýju hreyfingarúrræði fyrir íbúa 65 ára og eldri á Seltjarnarnesi. Kynningarfundurinn fer fram í hátíðarsal Gróttu miðvikudaginn 19.febrúar klukkan 14:00.

Frísk í Gróttu er heilsueflandi verkefni fyrir einstaklinga 65 ára og eldri á Seltjarnanesi. Starfsemi Frísk í Gróttu verður byggð í kringum hópþjálfun þar sem þátttakendur fá tækifæri á því að stunda líkamsrækt í skemmtilegum félagsskap undir handleiðslu fagmenntaðra þjálfara. Um er að ræða markvissa og skipulagða þjálfun þar sem sem þjálfarar útbúa 6 vikna æfingaráætlanir sem þeir aðlaga eftir getu hvers og eins þátttakanda. Á æfingum verður lögð áhersla á styrktar-, þol-, liðleika- og jafnvægisæfingar. Ekki síður verður lögð áhersla á andlega og félagslega heilsu og verður starfsemin í heild sinni unnin með það að leiðarljósi. Æfingar munu fara fram 2x í viku fyrir hádegi á – þriðjudögum og fimmtudögum í íþróttahúsi Gróttu í nýjum styrktarsal félagsins.

Fyrsta námskeið verður 12. vikur og hefst þriðjudaginn 11. mars.
Hægt verður að velja um tvær tímasetningar klukkan 09:00 og 09:45.

Hægt er að tryggja sér pláss fyrir kynningarfund með því að skrá sig hér: https://docs.google.com/…/1FAIpQLSfD9xbttuAfIW…/viewform
Námskeiðs gjald er 16.500 kr eða 5.500 kr á mánuði.

Rauð viðvörun – Allar æfingar falla niður

Allar æfingar falla niður í dag, miðvikudaginn 5. febrúar hjá öllum deildum félagsins.

Foreldrar eru beðnir að sækja þau börn sem eru nú þegar komin í Íþróttahúsið.

Samkvæmt veðurstofu Íslands getur verið hættulegt að vera utandyra og því hvetjum við fólk til að vera heima.

Kjör á íþróttamanni og konu Seltjarnarness 2024

Kjör á íþróttamanni og konu Seltjarnarness 2024 fór fram í hátíðarsal Gróttu fimmtudaginn 31.janúar síðastliðinn.

Níu einstaklingar voru tilnefndir að þessu sinni, en til þess að vera kjörgengur þarf íþróttamaðurinn/konan að búa á Seltjarnarnesi.

Fimleikakonan Auður Anna Þorbjarnadóttir var tilnefnd til íþróttakonu Seltjarnarness.

Auður æfir áhaldafimleika með Stjörnunni en áður æfði hún með Gróttu í árabil.

Innilega til hamingju með tilnefninguna Auður.

Einnig var ungt og efnilegt íþróttafólk heiðrað á samkomunni.

Þær Harpa Hrönn Egilsdóttir og Eva Bryndís Ragnheiðardóttir æfa báðar fimleika með Gróttu og fengu báðar viðurkenningu í þessum flokki.

Innilega til hamingju stelpur