Skip to content

Andlát – Davíð B. Gíslason

Svo óvænt er komið að leiðarlokum fallinn er frá einstakur Gróttumaður Davíð B. Gíslason, eftir harða baráttu við illvígan sjúkdóm.
Þegar fólk fellur frá í blóma lífsins, fyrirvaralaust, er okkur sem eftir lifum oft orða vant. Okkur verður oft starsýnna á það sem ekki varð fullgert, fremur en það góða og mikla dagsverk, sem unnið var. Davíð lifði góða ævi og lét margt gott af sér leiða, bæði með fjölskyldu sinni og í daglegum störfum sínum en ekki síður í margvíslegum félagsstörfum fyrir Gróttu. Davíð var um árabil óþreytandi í öllu starfi félagsins. Hann hóf handboltaiðkun tólf ára gamall og einungis fimmtán ára var hann farinn að æfa með meistaraflokki félagsins sem hann lék með lék alla tíð ef frá eru talin tvö keppnistímabil þegar hann lék með Fram. Lék hann með Gróttu allt þar til hann varð fertugur. Davíð spilaði jafnframt með öllum yngri landsliðum Íslands.

Auk þess að vera leikmaður Gróttu sinnti hann margvíslegum félagsstörfum fyrir félagið. Davíð sat m.a. í stjórn handknattleiksdeildar Gróttu/KR árin 2003-2004 og aftur í stjórn handknattleiksdeildar Gróttu 2012-2013. Hann var handknattleiksdómari á vegum HSÍ fyrir Gróttu á árunum 2010-2011. Jafnframt dæmdi Davíð fjölmarga leiki í yngri flokkum Gróttu, þann síðasta á vormánuðum árið 2021. Davíð sat í stjórn HSÍ sem varaformaður frá árinu 2013 og til dauðadags auk þess að sinna öðrum trúnaðarstörfum fyrir HSÍ frá árinu 2007.

Að auki sinnti Davíð margvíslegum störfum fyrir Íþróttafélagið sem foreldri. Þannig fylgdi Davíð börnum sínum þeim Evu Björk, Þorgeiri Bjarka, Önnu Láru og Benedikt Davíð á öll þau mót og alla þá leiki sem hann frekast gat komið við bæði í handbolta og fótbolta. Var hann oftar en ekki fararstjóri í þeim ferðum sem farið var út á land eða utan landsteina og í nokkrum ferðum var hann yfirfarastjóri enda átti hann auðvelt með að hrífa fólk með sér til starfa auk þess að vera einstaklega dugmikill og ósérhlífinn í félagsstörfum.

Davíð var árið 2010 sæmdur bronsmerki Gróttu fyrir óeigingjörn störf í þágu félagsins og árið 2014 fékk hann afhent silfurmerki Gróttu fyrir áralangt starf fyrir félagið sem leikmaður, þjálfari, dómari, stjórnarmaður, fararstjóri og stuðningsmaður.

Með Davíð er genginn drenglyndur og heilsteyptur maður langt um aldur fram. Grótta saknar vinar í stað og harmar einstakan liðsmann. Mestur er þó missir fjölskyldu Davíðs, móður, eiginkonu, barna og annarra aðstandenda. Stjórn og starfsmenn Gróttu færa þeim einlægar samúðarkveðjur með djúpri þökk fyrir ómetanlegt starf Davíðs á liðnum árum. Megi hið eilífa ljós lýsa Davíð á nýju og æðra sviði.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print

Helstu upplýsingar

Aðalsími Gróttu 561-1133
Skrifstofa Gróttu opin virka daga
frá kl. 13:00 – 16:00
grotta@grotta.is

Fréttaflokkar