Skip to content

Svekkjandi tap gegn FH í Kaplakrika

Meistaraflokkur karla fór í heimsókn í Kaplakrika í gærkvöldi þar sem heimamenn í FH biðu þeirra. Eftir frekar dapran leik gegn Val í seinustu umferð sást á strákunum strax í upphitun að þeir voru staðráðnir í að bæta upp fyrir það.

Leikurinn byrjaði ansi fjörlega og einkennismerki Gróttu-liðsins, hörð vörn og markvarsla, sáust strax á upphafsmínútunum, það varð strax ljóst að FH-ingar myndu ekki fá neitt gefins. Fyrri hálfleikur var í járnum allan tímann og skiptust liðin á að ná 1-2 marka forskoti. Lokasókn fyrri hálfleiks var Gróttu og eftir frábæra leikfléttu endaði fast skot Leonharðs í stönginni sem gerði það að verkum að FH leiddi með 1 marki, 14-13, þegar liðin gengu til búningsherbergja. Jóhann Reynir var yfirburða leikmaður í Gróttu-liðinu í fyrri hálfleik þar sem hann skoraði 7 mörk í öllum regnbogans litum, gaman að sjá Jóa í þessu formi eftir dapran leik gegn Val.

Jóhann Reynir var frábær í leiknum

Síðari hálfleikur var keimlíkur þeim fyrri, mikil harka var í leiknum og komust Gróttu-menn yfir strax á upphafsmínútum hálfleiksins. FH-ingar bitu þó frá sér og náðu eins marks forskoti og voru í raun alltaf skrefinu á undan. Gróttu-strákar náðu reglulega að jafna leikinn en komust þó aldrei yfir. Sorglegt var að sjá öll þau fráköst sem fóru í hendur FH-inga á lokamínútum leiksins eftir frábærar markvörslur frá Hreiðari sem var magnaður í leiknum.

Á endanum eftir æsilegar lokamínútur þar sem liðin skiptust á að láta reka sig útaf fóru FH-ingar í lokasókn leiksins með 1 marks forystu, þeir fengu að spila alltof lengi þangað til þeir misstu boltann þegar 5 sekúndur voru eftir af leiknum, Gróttu-menn brunuðu upp völlinn en náðu ekki skoti áður en leiktíminn rann út, grátleg niðurstaða fyrir okkar menn í Kaplakrika eftir hetjulega baráttu.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu voru mikil batamerki á leik liðsins frá seinasta leik og þá allra helst sóknarlega, Jóhann Reynir var virkilega flottur í skyttu stöðunni og eins varði Hreiðar virkilega vel í markinu.

Markahæstir Gróttu í leiknum:

  • Jóhann Reynir – 10 mörk
  • Leonharð – 4 mörk
  • Sveinn José – 3 mörk
  • Alexander Jón – 2 mörk
  • Vilhjálmur Geir – 2 mörk
  • Aðrir skoruðu minna
  • Hreiðar Levý var frábær í markinu og varði alls 19 skot í leiknum og var með 41% markvörslu.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print

Helstu upplýsingar

Aðalsími Gróttu 561-1133
Skrifstofa Gróttu opin virka daga
frá kl. 13:00 – 16:00
grotta@grotta.is

Fréttaflokkar