Skip to content

Sigrún Ösp til Ítalíu

Sigrún Ösp Aðalgeirsdóttir leikmaður Gróttu hefur gert lánssamning við ítalska félagið Apulia Trani og mun spila með liðinu í vetur. Sigrún er alin upp í Þór og Þór/KA en hefur verið lykilleikmaður í Gróttu síðustu þrjú tímabil. Apulia Trani spilar í Serie C á Ítalíu og leikur í riðli með liðum í suðurhluta landsins. 

Við slógum á þráðinn til Sigrúnar sem er þessa dagana að koma sér fyrir í hafnarborginni Trani:

„Þetta gerðist allt mjög hratt. Það var haft samband við mig á þriðjudaginn í síðustu viku og fimm dögum síðar var búið að kaupa flugmiðann! Lengjudeildin er nánast búin og mér fannst spennandi að fá tækifæri til að spila fótbolta í öðru landi. Svo var tilhugsunin um að flytja til Suður-Ítalíu líka mjög heillandi. Það á eftir að koma í ljós hversu sterk C-deildin hér er miðað við fótboltann heima. Hvað sem því líður þá vona ég að ég geti hjálpað liðinu og komið reynslunni ríkari heim í Gróttu næsta vor“ sagði Sigrún sem gæti spilað sinn fyrsta leik þegar Apulia Trani ferðast til Sikileyjar og leikur við lið Palermo í næstu viku. 

Fjallað er um félagaskiptin á vefmiðlinum TraniViva. Það segir m.a. í tilkynningu frá Apulia Trani: „Við erum sannfærð um að koma Sigrúnar muni hjálpa félaginu að ná settum markmiðum og að hún geti tekið næsta skrefið á sínum fótboltaferli. Við bjóðum Sigrúnu hjartanlega velkomna til borgarinnar og í liðið„. 

https://www.traniviva.it/sport/apulia-trani-il-rinforzo-a-centrocampo-arriva-dall-islanda/

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print