Meistaraflokkur kvenna hélt til Bosön í Svíþjóð í æfingaferð dagana 5. 10. júní. 20 leikmenn, einn liðsstjóri og þrír þjálfarar héldu í ferðina snemma á miðvikudagsmorgni. Í Bosön beið hópnum frábær aðstaða, gervigrasvöllur, styrktarsalur, fjölbreytt og hollt fæði og skemmtileg kojustemning. Veðrið lék við hópinn, sólin skein og kannski full heitt fyrir suma, að minnsta kosti á meðan æfingum stóð.
Hópurinn nýtti tímann vel og æfði sjö sinnum á fimm dögum, fór og fylgdist með Svíþjóð – Malta, spókaði sig um í miðbæ Stokkhólms og liðsfundirnir voru einnig ófáir. Ferðin gekk vel í alla staði og er hópurinn enn tilbúnari í átök sumarsins, þéttari sem nokkru sinni fyrr.