Það voru fjórir leikir spilaðir um helgina hjá knattspyrnudeild Gróttu og enduðu þeir allir með sigri Gróttumanna!
3. flokkur karla keppti í úrslitum C-deildar Íslandsmótsins á föstudag og sunnudag. Á föstudagskvöldið mætti Grótta ÍR í Breiðholtinu og eftir venjulegan leiktíma var staðan 2-2. Arnþór Páll tryggði sigurinn í framlengingu og staðan 2-3 fyrir Gróttu. Grímur Ingi og Gunnar Hrafn skoruðu hin mörkin.
Strákarnir héldu síðan til Blönduós á sunnudaginn þar sem þeir mættu Þórsurum. Í hálfleik var staðan 0-0 en Orri Steinn kom Gróttu yfir í byrjun seinni hálfleiks. Jóhann Egill og Orri Steinn bættu síðan við mörkum og niðurstaðan 3-0 sigur Gróttumanna!
3. flokkur karla eru því sigurvegarar í C-deild og komnir í 4-liða úrslit Íslandsmótsins. Strákarnri mæta FH á fimmtudaginn kl. 17:00 í Kaplakrika og hvetjum við Gróttufólk til að fara á völlinn og styðja strákana til sigurs. Strákarnir hafa náð frábærum árangri hingað til og verður spennandi að fylgjast með þeim í úrslitunum.
Meistaraflokkur karla sótti þrjú stig á laugardaginn með sigri á Víði á útivelli. Kristófer Orri skoraði bæði mörk leiksins sem endaði 1-2. Strákarnir eru nú með 39 stig, jafnmörg og Afturelding sem eru í 1. sæti deildarinnar. Það eru aðeins tveir leikir eftir hjá drengjunum og vert að fylgjast með þeim, enda æsispennandi toppbarátta! Næstu leikir drengjanna eru laugardaginn 15. september, á útivelli gegn Fjarðarbyggð, og laugardaginn 22. september, á Vivaldivellinum kl. 14:00.
2. flokkur karla lék við ÍBV/KFS í úrslitaleik á sunnudaginn á Vivalidvellinum. Staðan var 0-0 í hálfleik en Sölvi Björnsson kom liðinu þegar hann skoraði úr vítaspyrnu snemma í seinni hálfleik. Óliver Dagur bætti síðan við marki á 83′ og Sölvi skoraði sitt annað mark á 86′. Niðurstaðan því 3-0 sigur Gróttumanna. Strákarnir sitja nú í 1. sæti í C-deildinni, með 4 stiga forskot á 2. sætið og eiga einn leik eftir. Með sigrinum tryggðu strákarnir sér sæti í B-deild að ári, en þetta er í annað skipti í sögu deildarinnar sem 2. flokkur kemst upp úr C-deild. Knattspyrnudeild Gróttu óskar 2. flokki innilega til hamingju með glæsilegan árangur.