Skip to content

5. flokkur kvenna á Pæjumótinu í Eyjum

Um síðustu helgi tók 5. flokkur kvenna þátt í TM-mótinu í Vestmannaeyjum, betur þekkt sem Pæjumótið. Grótta tefldi fram fjórum liðum og var þetta því stærsti hópur frá félaginu hefur sent á mótið. Öll fjögur liðin átti góða spretti.

Grótta1 byrjaði illa en endaði mótið af krafti. Stelpurnar voru ósigraðar sex leiki í röð og fóru alla leið í úrslitaleik um Huginsbikarinn sem er næstefsti bikarinn.

Grótta2 átti flott mót og vakti spilamennska stelpnanna verðskuldaða athygli. Á lokadeginum komust Gróttustelpur í úrslitaleik í sínum riðli en töpuðu þar fyrir Snæfellsnesi1.

Grótta3 var hins vegar lengi í gang og óx ásmegin eftir því sem leið á mótið. Seinni tveir keppnisdagarnir hjá Gróttu4 voru ljómandi góðir og var gaman að sjá hve baráttuandi stelpnanna styrktist eftir því sem leið á. Fyrir utan sjálfan fótboltann fór hópurinn í siglingu um Eyjarnar og tók þátt í hæfileikakeppni á fimmtudagskvöldið.

Á föstudeginum fór fram landsleikur þar sem hvert lið sendi einn fulltrúa en Jóna Guðrún Gylfadóttir spilaði fyrir hönd Gróttu. Ekki nóg með það heldur stýrði Magnús Örn þjálfari landsliðinu, með Jónu innanborðs, sem lék við pressuliðið. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli þar sem Jóna skoraði mark landsliðsins við mikinn fögnuð Gróttustelpnanna sem létu vel í sér heyra í stúkunni.

Allar 34 Gróttupæjurnar voru félagi sínu til mikils sóma á Pæjumótinu. Stemningin í hópnum var góð og framkoma og viðmót stelpnanna til fyrirmyndar. Mikill fjöldi foreldra fylgdi Gróttuliðunum til Vestmannaeyja og studdi vel við bakið á sínum stelpum. Nú taka við leikir í Íslandsmótinu og í júlí tekur Grótta svo þátt í Símamótinu í Kópavogi – fjölmennasta fótboltamóti landsins!

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print

Helstu upplýsingar

Aðalsími Gróttu 561-1133
Skrifstofa Gróttu opin virka daga
frá kl. 13:00 – 16:00
grotta@grotta.is

Fréttaflokkar