Skip to content

Tap gegn Haukum á heimavelli

Gróttu-strákar fengu Hauka í heimsókn í gærkvöldi í fyrsta heimaleik sínum í vetur eftir endurbætur á Hertz-höllinni. Splunkuný Gróttu-blá stúka var meðal annars sem beið stuðningsmannana þegar þeir mættu að horfa á átökin sem framundan voru. Haukarnir voru búnir að vera á miklu skriði fyrir þennan leik með 2 sigra í röð og staðráðnir í að bæta þeim þriðja við. Gróttu-strákar hinsvegar fullir sjálfstrausts eftir góðan sigur á KA í seinustu umferð og tilbúnir að sýna sig og sanna á heimavellinum í fyrsta sinn í vetur.

Ágúst Emil var ljósið í myrkrinu í gærkvöldi

Það kom hinsvegar á daginn að Haukarnir reyndust alltof stór biti á þessum annars fallega sunnudegi. Það var aðeins í byrjun leiks þar sem Gróttu-liðið átti eitthvað roð í Haukana en strákarnir byrjuðu leikinn ágætlega og var jafnt á tölum alveg þangað til í stöðunni 5-7 eftir um 15 mínútna leik, þá skildu leiðir og Hauka-menn tóku algjörlega yfir leikinn. Argrúa af tækni og skotklikkum Gróttu-liðsins skiluðu Haukum fullt af hraðaupphlaupum en einnig hjálpaði ekki til að varnarmenn Gróttu-liðsins létu reka sig út af trekk í trekk og voru okkar menn því oftar en ekki einum færri sem tók mikið á orku liðsins. Staðan í hálfleik 8-14 og útlitið ekki bjart fyrir okkar menn.

Gróttu-strákar byrjuðu síðari hálfleikinn grimmt enda ljóst að þeir urðu að saxa á forskotið strax ætluðu þeir sér að eiga séns á að ná Haukunum. Eftir um 15 mín leik var Gróttu-liðið búið að minnka muninn í 4 mörk 17-21 og eigðu von að ná Haukunum. Hauka-liðið er hinsvegar ógnarsterkt skiptu á þessum tímapunkti hreinlega um gír og keyrðu yfir Gróttu-liðið með sex mörkum í röð og breyttu stöðunni í 17-27. Eftir það var morgunljóst í hvað stemmdi og endaði leikurinn 22-31.

Aðalstyrkleiki Gróttu-liðsins, vörn og markvarsla, var ekki til staðar í gærkvöldi og gegn eins sterku liði og Haukum má slíkt ekki gerast ef ekki á illa að fara. En strákarnir hafa viku til að rífa sig upp en þeir mæta Fram n.k sunnudag í Fram-heimilinu í gríðarlega mikilvægum leik.

Markahæstir í Gróttu-liðinu

  • Ágúst Emil – 5 mörk
  • Sveinn Rivera – 4 mörk
  • Gellir Michaelsson – 3 mörk
  • Árni Benedikt – 3 mörk
  • Alexander Jón – 2 mörk
  • Jóhann Reynir – 2 mörk
  • Aðrir minna

Hreiðar Levý átti ekki sinn besta dag á bakvið götótta Gróttu-vörn og varði 9 skot. Sverrir Andrésson varði 1.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print