Skip to content

HSÍ aflýsir öllu mótahaldi – Karlaliðið upp í efstu deild!

Stjórn HSÍ ákvað á fundi sínum í kvöld að aflýsa öllu frekara mótahaldi á vegum sambandsins. Ákvörðun þessi er tekin í ljósi þess að yfirvöld hafa ákveðið að framlengja samkomubanni til 4. maí nk. og er því ljóst að ekki verður unnt að hefja keppnir að nýju þar sem félögin þarfnast að minnsta kosti 2-3 vikna undirbúnings til að geta hafið leik.

Í framhaldi af þessu ákvað stjórn HSÍ að núgildandi staða í mótum myndi standa og samkvæmt því eru deildarmeistarar Olís deildar kvenna Fram og deildarmeistarar Olís deildar karla Valur.

Tvö neðstu lið Olís deildar karla (HK og Fjölnir) falla í Grill 66 deild karla. Sæti í Olís deild karla fá tvö efstu lið Grill 66 deildar karla (Þór Ak. og Grótta). Kvennalið félagsins mun áfram leika í Grill-66 deildinni en þær sátu í umspilssæti þegar mótahaldi var aflýst. Ákveðið var að aðeins 1 lið myndi falla úr Olís-deild kvenna og 1 lið færi beint upp úr Grill-66 deildinni og kom það í hlut FH sem við óskum til hamingju.

Þetta eru frábærar fréttir fyrir okkur Gróttu fólk en markmið liðsins var fyrir keppnistímabilið að tryggja sæti liðsins í deild þeirra bestu á ný. Ljóst er að það tókst þó svo það hafi verið með öðrum hætti en leikmenn og þjálfarar hefðu kosið en keppnisfólk vill ávallt spila mótin sín til enda.

Handknattleiksdeildin styður þó ákvörðun HSÍ af aflýsa mótahaldi enda taldi deildin í stóra samhenginu ekkert vit í því að klára yfirstandandi keppnistímabil.

Það er ljóst að viðtekur stórt verkefni fyrir karlaliðið að festa sig í sessi í deild þeirra bestu og er undirbúningsvinna hjá stjórn deildarinnar nú þegar hafin og búast má við fréttum af liðinu á næstu dögum.

Handknattleiksdeildin vill nýta tækifærið og þakka leikmönnum, þjálfurum og sérstaklega öllum þeim frábæru sjálfboðaliðum sem hafa tekið þátt í keppnistímabilinu sem nú er á enda og er það von deildarinnar að geta nýtt krafta þeirra áfram á komandi keppnistímabili.

Áfram Grótta!

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print