Íþróttafélagið Grótta fagnar 50 ára afmæli sínu um þessar mundir en félagið var stofnað þann 24. apríl árið 1967. Í tilefni af því munu meistaraflokkar karla og kvenna í handbolta og knattspyrnu leika í hvítum afmælisbúningum en fyrstu keppnisbúningar Gróttu voru einmitt hvítir.
Karlalið Gróttu í handbolta vígði búningana í gærkvöldi í góðum sigri liðsins gegn Akureyri í Olísdeildinni.
Á meðfylgjandi mynd má sjá knattspyrnufólkið Bjargeyju Ólafsdóttur og Bessa Jóhannsson og stórskytturnar Aron Dag Pálsson og Lovísu Thompson.
Á fyrri myndinni hér að neðan má sjá bræðurna Helga-, Þráin- og Skúla Skúlasyni í upprunalegum búningum félagsins.
Síðari myndin er svo af Finn Inga Stefánssyni, tekin úr leik gærkvöldsins gegn Akureyri. Það er gaman að segja frá því að Finnur er einmitt bróðursonur bræðranna þriggja á myndinni fyrir ofan.