Skip to content

Arnar Daði þjálfari ársins 2021

Arnar Daði Arnarsson er þjálfari ársins 2021 hjá Gróttu. 

Úr umsögn handknattleiksdeildar:
Arnar Daði er fæddur árið 1992 og var ráðinn til Gróttu haustið 2019 á erfiðum tíma hjá Handknattleiksdeild Gróttu. Þá hafði liðið fallið úr úrvalsdeildinni og ekki bjartir tímar framundan. Fáir leikmenn voru samningsbundnir félaginu og elstu yngri flokkar Gróttu voru fámennir. Ný stjórn við og réð Arnar Daða sem þjálfara meistaraflokks karla. Arnar Daði hafði aldrei áður stýrt meistaraflokk en hafði sýnt frábæran árangur sem þjálfari yngri flokka. Á sínu fyrsta ári kom Arnar Daði liðinu aftur á meðal bestu liða landsins, í úrvalsdeildina sem vakti mikla athygli í handboltaheiminum.

Í fyrra lék liðið í úrvalsdeildinni og með fyrstu verkum Arnars Daða var að fá Maksim Akbachev sem aðstoðarþjálfara. Arnar Daði fékk til sín unga og efnilega leikmenn sem langaði að sanna sig og í bland við unga og efnilega Seltirninga gerðist hið ótrúlega, liðið hélt sæti sínu í deildinni um vorið. Sá árangur vakti mikla athygli enda Gróttuliðið ungt, efnilegt og lítill leikmannakostnaður sem fylgdi því. 

Núna í vetur er sama uppi á teningnum. Gróttuliðið er ungt, efnilegt og kostnaðarlítið. Liðið situr sem stendur í 10.sæti Olísdeildarinnar og hefur náð frábærum árangri í leikjunum hingað til. Grótta hefur tapað naumlega gegn bestu liðum landsins, unnið verðskuldað leiki gegn virkilega sterkum liðum og spilað feikilega skemmtilegan handbolta. Auk þess að þjálfa meistaraflokk, þjálfar Arnar Daði 3.flokks félagsins sem eru ungir leikmenn sem vonandi með tíð og tíma munu spila með meistaraflokki félagsins. Arnar Daði er ennfremur í þjálfarateymi ungmennaliðs Gróttu sem Maksim Akbachev stjórnar. Liðið situr þar á toppi 2.deildar.

Arnar Daði er mikill félagsmaður. Ekkert verk er of lítið eða of stórt fyrir hann. Hann hefur áhuga á öllu starfi deildarinnar eða félagsins ef því er að skipta. Hann tekur mikinn þátt í sjálfboðaliðstarfi félagsins, hvort sem það er mönnum dómara, dómgæsla, umgjörð á leikjum meistaraflokka eða hvað það sem viðkemur deildinni.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print