Skip to content

Gróttukonur enda í 4. sæti Lengjudeildarinnar eftir frábært sumar

Grótta mætti Fylki á Vivaldivellinum laugardaginn 9. september í hreinum úrslitaleik um hvort liðið myndi komast upp í Bestu deildina að ári. Fáir höfðu spáð því fyrir tímabilið að Grótta yrði í þessari stöðu, liðið nýkomið upp úr 2. deild eftir stutt stopp þar síðasta sumar, en liðið sýndi svo sannarlega í sumar hvað í þeim býr. Grótta komst yfir gegn Fylki á ’23 mínútu með frábæru skallamarki frá hinni 15 ára Arnfríði Auði Arnarsdóttur, betur þekktri sem Aufí. Fylki tókst að jafna metin á ’54 mínútu og stuttu síðar skoruðu þær sitt annað mark. Grótta jafnaði metin á ’73 mínútu eftir að hin 14 ára Rebekka Sif Brynjarsdóttir lét vaða fyrir utan teig og skoraði geggjað mark fyrir Gróttu en hún var aðeins búin að vera inná í nokkrar mínútur þegar hún skoraði. Því miður tókst Fylkiskonum að komast yfir á ný á ’84 mínútu og endaði leikurinn 2-3 fyrir Fylki sem tryggðu sér þar með sæti í Bestu deildinni að ári. Leikurinn var gríðarlega spennandi og var frábær mæting á völlinn. Umgjörðin í kringum leikinn var fyrsta flokks og stóðu sjálfboðaliðar Gróttu í ströngu til að gera hana sem allra flottasta, eins og sást vel. Gróttukonur mega svo sannarlega ganga stoltar frá borði eftir frábært sumar þar sem þær náðu besta árangri kvennaliðs Gróttu frá upphafi. Þrátt fyrir tapið á laugardaginn er hægt að fagna mörgu – í leiknum skoruðu tvær ungar og efnilegar Gróttukonur sem eiga framtíðina fyrir sér, liðið hefur aldrei endað jafn ofarlega í Lengjudeildinni og fengið jafn mörg stig né skorað jafn mörg mörk og í ár og aldrei hefur verið jafn vel mætt á leik hjá kvennaliðinu líkt og á laugardaginn. Það má einnig nefna það að Grótta átti markahæsta leikmann Lengjudeildarinnar, en Hannah Abraham skoraði 16 mörk fyrir Gróttu í sumar og er markahæsti leikmaður Lengjudeildarinnar!

Meistaraflokkur kvenna þakkar fyrir stuðninginn í sumar og hlakkar til að sjá sem flesta á vellinum í Lengjudeildinni á næsta ári.

Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print

Helstu upplýsingar

Aðalsími Gróttu 561-1133
Skrifstofa Gróttu opin virka daga
frá kl. 13:00 – 16:00
grotta@grotta.is

Fréttaflokkar