Það er með mikilli gleði sem við bjóðum Völu Thoroddsen, Bjarna Geir H. Halldórsson og Bergdísi Kötlu Birgisdóttur hjartanlega velkomin til starfa sem yfirþjálfarar hjá Fimleikadeild Gróttu. Bæði iðkendur, aðstandendur og starfsfólk fimleikadeildarinnar ættu að þekkja vel til þeirra enda hafa þau öll verið viðriðin deildina lengi og unnið frábært starf.
Vala Thoroddsen tók við sem yfirþjálfari grunnhópa haustið 2024. Hún hefur gegnt fjölbreyttum hlutverkum innan Gróttu síðustu ár, bæði sem þjálfari og framkvæmdastjóri deildarinnar og eins æfði hún sjálf fimleika í 11 ár. Vala er uppalin á Seltjarnarnesi og er þekkt fyrir einstaka jákvæðni og hlýju og er sannur leiðtogi í fimleikasalnum.
Bjarni Geir H. Halldórsson tók við sem yfirþjálfari áhaldafimleika haustið 2024. Hann hefur þjálfað hjá Gróttu frá því hann var fjórtán ára gamall og hefur víðtæka reynslu og þekkingu í íþróttinni bæði hjá drengja- og stúlknaliðum. Bjarni Geir hefur mikinn metnað fyrir starfinu í Gróttu og er frábær fyrirmynd og leiðtogi í fimleikasalnum.
Bergdís Katla Birgisdóttir tók við sem yfirþjálfari hópfimleika haustið 2024. Hún er öflug fimleikakona með 15 ára feril að baki, þar af sex ár í hópfimleikum, og kom reynslunni ríkari aftur til Gróttu eftir sérnám í fimleikum við Lýðháskólann Ollerup í Danmörku. Bergdís hóf þjálfun hjá Gróttu árið 2018 og hefur einbeitt sér aðallega að keppnishópum í hópfimleikum. Bergdís er frábær fyrirmynd og býr yfir einstaklega jákvæðu viðhorfi og krafti og það verður ánægjulegt að sjá hana vaxa sem áframhaldandi leiðtogi hjá félaginu.
Við hlökkum til að fylgjast með þessu öfluga teymi yfirþjálfara vaxa og dafna í öflugu starfi hjá Fimleikadeildinni.