Ágústa Edda Björnsdóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri Fimleikadeildar Gróttu og hefur tekið til starfa.
Ágústa Edda kemur til Gróttu frá Sidekick Health þar sem hún hefur starfað við verkefnastýringu og notendarannsóknir síðustu fjögur ár. Áður starfaði hún hjá Félagsvísindastofnun í 10 ár sem verkefnastjóri við rannsóknir, rýnihópa, kannanir og viðtöl. Ágústa Edda hefur einnig sinnt stundakennslu í íþróttafélagsfræði við bæði HÍ og HR. Hún hefur ennfremur yfirgripsmikla reynslu af þjálfun þvert á íþróttagreinar. Ágústa Edda þjálfaði fimleika hjá Gróttu, var yfirþjálfari yngri flokka Vals í handbolta um árabil og er enn að þjálfa hjólreiðar hjá Hreyfingu, World Class og utandyra með Tindi. Ágústa Edda er með MA-gráðu í félagsfræði frá HÍ og B.sc. í félagsfræði og viðskiptafræði frá sama skóla.
Margir þekkja Ágústu Eddu sem afreksíþróttakonu í fimleikum, handbolta, hjólreiðum og nú nýlega í hlaupum. Ágústa Edda byrjaði í fimleikum 8 ára gömul þegar Fimleikadeild Gróttu var stofnuð, var í fyrsta keppnishóp félagsins og var valin í landsliðið. Handboltinn átti síðar hug hennar allan og spilaði hún með U-18 ára og A-landsliðum um árabil. Síðustu 10 ár hefur Ágústa Edda stundað hjólreiðar af kappi, verið í landsliðinu og keppt á þremur heimsmeistaramótum. Nú er hlaupin í hana áhugi fyrir hlaupum og við hlökkum til að fylgjast með afrekum hennar á því sviði.
Ágústa Edda býr í Garðabæ og á þrjá syni sem hafa allir stundað íþróttir af kappi hjá Stjörnunni og yngri landsliðum. Hún hefur einnig setið í stjórn Barna-og unglingaráðs Stjörnunnar. Ágústa Edda býr þannig yfir víðtækri reynslu af íþróttastarfi og afreksþjálfun barna sem iðkandi, foreldri og þjálfari. Við bjóðum Ágústu Eddu hjartanlega velkomna til starfa heim á Seltjarnarnesið og erum sannfærð um að þarna fari mikill liðstyrkur fyrir Gróttu og Fimleikadeildina.