Fyrir stuttu tilkynnti Pétur Rögnvaldsson, þjálfari meistaraflokks kvenna, stjórn og leikmönnum að hann hygðist taka sér hvíld frá þjálfun eftir níu ára farsælt starf fyrir knattspyrnudeild Gróttu. Það verður sjónarsviptir af Pétri þar sem hann hefur verið einn burðarásanna í þjálfarahópi félagsins í uppbyggingarstarfi þess á síðustu árum. Drýgstan skerf hefur Pétur þó lagt af mörkum til uppbyggingar kvennaknattspyrnu á Seltjarnarnesi og í Vesturbænum.
Pétur hóf störf hjá knattspyrnudeild Gróttu í ársbyrjun 2015 og hefur starfað þar óslitið síðan. Hann þjálfaði bæði stelpur og stráka í yngri flokkunum og þar af fjögur ár í eldri flokkum kvenna. Fyrst 4. flokk Gróttu/KR tímabilin 2016 og 2017 og síðar 3. flokkinn í tvö ár við góðan orðstír. Í ársbyrjun 2019 tók hann við sem aðstoðarþjálfari Magnúsar Arnar Helgasonar hjá meistaraflokki kvenna í Gróttu sem þá lék í 2. deild. Tveimur árum síðar steig hann upp að hlið Magnúsar sem aðalþjálfari liðsins.
Eftir dramatískt fall í 2. deild haustið 2021 tók Pétur við sem aðalþjálfari enda hafði uppbygging gengið vel og allar forsendur til að fara rakleiðis aftur upp í Lengjudeildina. Það tókst Gróttukonum með Pétur í brúnni í fyrra og í sumar náði liðið besta árangri í sögu meistaraflokks kvenna. Eins og kunnugt er spilaði Grótta hreinan úrslitaleik við Fylki um sæti í Bestu deildinni fyrir framan 800 áhorfendur á Vivaldivellinum laugardaginn 9. september. Eftir jafnan leik hafði Fylkir sigur en sú niðurstaða varpar ekki skugga á stórkostlegan árangur Gróttuhópsins.
Gróttufólk þakkar Pétri ómetanlegt starf í þágu knattspyrnudeildar og félagsins. Það er ekki ofsagt að hann hafi gegnt lykilhlutverki í starfinu; borið hag félagsins fyrir brjósti, alltaf með hjartað á réttum stað og hugann við að byggja upp heilsteypta einstaklinga og öfluga liðsheild. Jafnframt óskum við Pétri velfarnaðar í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur í framtíðinni og bjóðum hann velkominn í bakvarðasveitina!