Haustmót Fimleikasambands Íslands fór fram um helgina, 18.–19. október, í Versölum hjá Gerplu. Fimleikadeild Gróttu átti glæsilegan hóp keppenda sem stóð sig með stakri prýði á fyrsta móti haustannar!
Í 3. þrepi kepptu þær Salka, Guðrún, Sigurrós, Elsa, Sunneva, Sigurlaug Mirra og Hugrún. Sigurrós tryggði sér 2. Sæti á slá! Í 2. þrepi kepptu þær Fanney og Sigríður. Í unglingaflokki keppti Eldey Erla og tryggði sér 3. sæti á tvíslá!
Fimleikadeild Gróttu óskar öllum keppendum og þjálfurum innilega til hamingju með mótið og árangurinn. Við hlökkum til að fylgjast með þeim blómstra í vetur!
Ágústa Edda Björnsdóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri Fimleikadeildar Gróttu og hefur tekið til starfa.
Ágústa Edda kemur til Gróttu frá Sidekick Health þar sem hún hefur starfað við verkefnastýringu og notendarannsóknir síðustu fjögur ár. Áður starfaði hún hjá Félagsvísindastofnun í 10 ár sem verkefnastjóri við rannsóknir, rýnihópa, kannanir og viðtöl. Ágústa Edda hefur einnig sinnt stundakennslu í íþróttafélagsfræði við bæði HÍ og HR. Hún hefur ennfremur yfirgripsmikla reynslu af þjálfun þvert á íþróttagreinar. Ágústa Edda þjálfaði fimleika hjá Gróttu, var yfirþjálfari yngri flokka Vals í handbolta um árabil og er enn að þjálfa hjólreiðar hjá Hreyfingu, World Class og utandyra með Tindi. Ágústa Edda er með MA-gráðu í félagsfræði frá HÍ og B.sc. í félagsfræði og viðskiptafræði frá sama skóla.
Margir þekkja Ágústu Eddu sem afreksíþróttakonu í fimleikum, handbolta, hjólreiðum og nú nýlega í hlaupum. Ágústa Edda byrjaði í fimleikum 8 ára gömul þegar Fimleikadeild Gróttu var stofnuð, var í fyrsta keppnishóp félagsins og var valin í landsliðið. Handboltinn átti síðar hug hennar allan og spilaði hún með U-18 ára og A-landsliðum um árabil. Síðustu 10 ár hefur Ágústa Edda stundað hjólreiðar af kappi, verið í landsliðinu og keppt á þremur heimsmeistaramótum. Nú er hlaupin í hana áhugi fyrir hlaupum og við hlökkum til að fylgjast með afrekum hennar á því sviði.
Ágústa Edda býr í Garðabæ og á þrjá syni sem hafa allir stundað íþróttir af kappi hjá Stjörnunni og yngri landsliðum. Hún hefur einnig setið í stjórn Barna-og unglingaráðs Stjörnunnar. Ágústa Edda býr þannig yfir víðtækri reynslu af íþróttastarfi og afreksþjálfun barna sem iðkandi, foreldri og þjálfari. Við bjóðum Ágústu Eddu hjartanlega velkomna til starfa heim á Seltjarnarnesið og erum sannfærð um að þarna fari mikill liðstyrkur fyrir Gróttu og Fimleikadeildina.
Um helgina fór fram Bikarmót 2025 í áhalda- og hópfimleikum, þar sem fremsta fimleikafólk landsins keppti um titlana. Mótið var haldið af Fjölni í Egilshöll, og óhætt er að segja að sannkölluð fimleikaveisla átti sér stað. Grótta sendi sex lið til keppni ásamt tveimur gestum í frjálsu þrepi og 2. þrepi fimleikastigans. Liðin stóðu sig með prýði.
Í 3. þrepi A-deild tryggði lið Gróttu sér titil bikarmeistara með frábæra útkomu, 223.196 stig. Liðið skipuðu Mjöll Jónsdóttir, Sigurrós Ylfa Rúnarsdóttir, Þuríður Katrín Kistinsdóttir, Fanney Petrea L. Arnórsdóttir, Sigríður Lára Indriðadóttir og Sunna Mist Sheehen. Það er einnig vert að nefna að Grótta var með yngsta liðið í keppninni, og óskum við þeim innilega til hamingju með stórkostlegan árangur.
Í 3. þrepi B-deild hafnaði lið Gróttu í 2. sæti, og óskum við stelpunum innilega til hamingju með glæsilegan árangur. Liðið skipuðu Guðrún Jakóbína Eiríksdóttir, Margrét Helga Geirsdóttir, Magnea Margrét Þorsteinsdóttir, Hrefna Höskuldsdóttir Rafnar, Sigurlaug Margrét Pétursdóttir og Mirra Kjartansdóttir.
Hópfimleikadeild Gróttu sendi fjögur lið til keppni, og sýndu liðin miklar framfarir. Lið 3. flokks í A-deild hafnaði í 4. sæti, og verður gaman að fylgjast með þeim á Íslandsmeistaramótinu í hópfimleikum, sem fram fer á Akranesi 10.–13. apríl. Óhætt er að segja að framtíðin sé björt í fimleikadeild Gróttu.
Fimleikadeild og handknattleiksdeild Gróttu leita eftir þjálfurum fyrir vorönn sem að nú fer að hefjast.
Hægt er að sækja um á alfred.is fyrir fimleikadeildina, sjá hér-https://alfred.is/starf/fimleikathjalfarar-oskast-i-grottu, eða senda póst á [email protected]. Varðandi þjálfun í handknattleiksdeildinni er hægt að senda á [email protected], yfirþjálfara, upp á ítarlegri upplýsingar eða til að senda inn umsókn.
Við viljum hvetja alla þá aðila sem að hafa áhuga á því að þjálfa fyrir hönd Gróttu að sækja um störfin sem fyrst.
Grótta hefur ákveðið að selja hin geysivinsælu og fallegu Gróttu handklæði á sannkölluðu jólatilboði.
Handklæðin kosta núna 3500 kr og eru til sölu hérna í húsinu til klukkan 15.00- en eftir þann tíma að þá er velkomið að hringja í Hörpu, stjórnarmann knattspyrnudeildarinnar, í síma 8960118 til að nálgast handlæðin.
Frábær gjöf í jólapakkann þetta árið- Áfram Grótta.
Með því að styrkja starf Gróttu með fjárframlögum þá getur þú fengið skattaafslátt. Lágmarksupphæð styrks til að fá lækkun á tekjuskattsstofni er 10.000 krónur, en hámark 350.000 krónur – eða samtals 700.000 krónur hjá hjónum.
Á vef ríkisskattstjóra – skatturinn.is – má finna upplýsingar um skattafrádrátt vegna gjafa/framlaga til almannaheillafélaga. Ríkisskattstjóri birtir þar lista yfir viðurkennda móttakendur, og þar á meðal er Íþróttafélagið Grótta.
Fólk sem ákveður að styrkja félagið getur komið þeim skilaboðum áleiðis á skrifstofu Gróttu á netfangið [email protected]. Síðan er hægt að millifæra upphæð að eigin vali eða óska eftir því að fá reikning í heimabankann. Fjármálastjóri Gróttu sér síðan um að upplýsa Skattinn um styrkina og síðan er það fært inn í skattframtal viðkomandi í framhaldi. Frádráttur frá tekjuskattsstofni er áritaður fyrirfram inn á framtalið, í reit 155 í klafla 2.6. á tekjusíðu framtals. Því er það mjög mikilvægt að láta skrifstofu félagsins vita til að allt gangi snuðrulaust fyrir sig í ferlinu.
Lágmarksupphæð til að nýta þennan frádrátt er 10.000 krónur, en að hámarki getur einstaklingur fengið lækkun á tekjuskattsstofni upp á 350.000 krónur, og hjón upp á 700.000 krónur. Ofanritað á við um einstaklinga, en rekstraraðilar geta einnig styrkt félagið og nýtt sér skattafrádrátt, sem getur numið 1,5% af rekstrartekjum á því ári sem gjöf er afhent eða framlag er veitt.
Þegar fólk ákveður að styrkja Gróttu er hægt að velja um að millfæra beint inn á reikning félagsins – 0537-26-201234, kt. 700371-0779 – eða fá reikning í heimabanka.
Grótta þakkar öllum styrktaraðilinum innilega veittan stuðning
Íþróttafélagið Grótta auglýsir til umsóknar starf framkvæmdastjóra félagsins. Leitað er eftir einstaklingi sem er kraftmikill leiðtogi sem fer fyrir hópi öflugra starfsmanna og vinnur að uppbyggingu Gróttu í takti við framtíðarsýn félagsins. Starfið er fjölbreytt og krefjandi og eru mikil tækifæri fyrir nýjan aðila að hafa mótandi áhrif á félagið.
Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri Gróttu sem og fjármálum og rekstri mannvirkja um heyra undir Aðalstjórn félagsins. Innan Gróttu starfa þrjár deildir; Fimleikadeild, Handknattleiksdeild og Knattspyrnudeild, með um 1000 iðkendur og tugi þjálfara.
Umsóknarfrestur er til og með 23. nóvember 2023. Við hvetjum öll kyn til að sækja um. Unnið verður úr umsóknum jafnóðum og þær berast og því hvetjum við umsækjendur til að sækja um sem fyrst.
Helstu verkefni og ábyrgð
· Ábyrgð á allri starfsemi félagsins, mannauðsmálum, rekstri deilda og fjármálum
· Stefnumótun og eftirfylgni hennar, markmiðasetning og ferla- og umbótarvinna
· Rekstraráætlanagerð og tekjuöflun í samstarfi við stjórnir, auk markaðssetning félagins
· Ábyrgð á innri og ytri upplýsingagjöf í samræmi við stefnu Gróttu og í samvinnu við deildir
· Umsjón með markaðssetningu Gróttu og stærri viðburðum félagsins
· Ber ábyrgð á starfsmannahaldi félagsins og skipuleggur verkefni og verksvið
· Stuðlar að því að efla félagsandann og vinnur að uppbyggingu félagsins
· Ber ábyrgð á samningum félagsins og vinnur með deildum í samningagerð þeirra
· Sér til þess að rekstur félagsins, mannvirkja og skrifstofu sé hagkvæmur og árangursríkur
· Stuðningur við stjórnir deilda og sjálfboðaliða félagsins
· Rekstur og viðhald mannvirkja og aðstaða félagsins
· Leiðir samskipti við sérsambönd og opinbera aðila
· Umsjón aðalstjórnarfunda ásamt eftirfylgni með ákvörðunum funda
· Önnur tilfallandi verkefni
Menntunar- og hæfniskröfur
· Mikil hæfni í samskiptum og sterk leiðtoga- og skipulagshæfni
· Háskólamenntun sem nýtist í starfi
· Hefur góða innsýn í og reynslu af stjórnun, rekstri og fjármálum
· Frumkvæði, áræðni og jákvætt viðhorf
· Sjálfstæð og öguð vinnubrögð
· Reynsla og þekking á íþróttastarfsemi og rekstri innan íþróttahreyfingarinnar er kostur.
Umsóknarfrestur er til og með 23. nóvember 2023. Sótt er um starfið á umsóknarvef Alfreðs: Íþróttafélagið Grótta (alfred.is) Nánari upplýsingar má nálgast með því að senda tölvupóst á [email protected]