Grótta semur við Spiideo

Handknattleiksdeild Gróttu hefur samið við sænska vefútsendingafyrirtækið Spiideo til næstu þriggja ára. Samningurinn felur í sér upptöku og streymi á öllum heimaleikjum meistaraflokka og yngri flokka. Auk þess að streyma leikjunum geta þjálfarar deildarinnar notað upptökurnar til þjálfunar sinna flokka.

Segja má að þetta sér bylting fyrir Gróttu og gaman að geta boðið áhorfendum og ekki síst okkar iðkendum og þjálfurum upp á hágæða upptökur á heimaleikjum.

Til að byrja með mun hver útsending kosta 5 evrur og þurfa notendur að skrá sig inn í fyrsta skipti sem þeir horfa á leiki.

Allir hlekkir á alla heimaleiki Gróttu munu koma inn á heimasíðu Gróttu á þessa síðu: grotta.is/handknattleiksdeild/handboltaleikir

Fjórar valdar í unglingalandslið

Fjórir fulltrúar frá Gróttu voru valdir í unglinglandslið HSÍ á dögunum. Arna Katrín Viggósdóttir og Kristín Fríða Scheving voru valdar í U15 ára landsliðið en Díana Guðjónsdóttir og Jón Brynjar Björnsson eru þjálfarar liðsins.

Katrín Anna Ásmundsdóttir og Katrín Scheving voru valdar í U19 áa landsliðið en þjálfarar þess liðs eru Ágúst Jóhannsson og Árni Stefán Guðjónsson.

Við óskum okkar fulltrúum til hamingju með valið og vonum að þær hafi nýtt tækifærið til hins ýtrasta.

Áfram Grótta !

Mikið fjör á æfingum 9.flokks

Tæplega 30 krakkar mæta að staðaldri á æfingar 9.flokks á laugardögum í Íþróttahúsi Gróttu. Arndís María Erlingsdóttir og Íris Björk Símonardóttir hafa veg og vanda að skipulagningu og æfingum krakkanna en þær eru margreyndar úr þjálfun hjá félaginu og tvær af leikjahæstu leikmönnum Gróttu frá upphafi.

Innihald æfinganna eru leikir með og án bolta auk fjölbreyttra handboltaæfinga sem reyna á samhæfingu, jafnvægi, styrk og hittni. Segja má að mikil einbeiting og mikið stuð sé hjá þessum flotta hópi á laugardögum.

Skráning í flokkinn fer fram í Sportabler: https://www.sportabler.com/shop/grotta/handbolti

Áfram Grótta !

Árskortin komin í sölu

Handknattleiksdeild Gróttu hefur hafið sölu á árskortum vetrarins Boðið er upp á fimm mismunandi gerðir af árskortum sem henta fjölbreyttum hópi áhorfenda.

Gullkort
Gullkortið gildir fyrir tvo á alla deildarleiki Gróttu í Hertz-höllinni í vetur hjá báðum meistaraflokkunum okkar. Kortið kostar 40.000 kr.

Silfurkort
Silfurkortið gildir fyrir einn á alla deildarleiki Gróttu í Hertz-höllinni í vetur hjá báðum meistaraflokkunum okkar. Kortið kostar 25.000 kr.

Olísdeildarkort
Olísdeildarkortið gildir fyrir einn á alla deildarleiki meistaraflokks karla í Hertz-höllinni í vetur. Kortið kostar 15.000 kr.

Grill 66-deildarkort
Grill 66-deildarkortið gildir fyrir einn á alla deildarleiki meistaraflokks kvenna í Hertz-höllinni í vetur. Kortið kostar 10.000 kr.

Ungmennakort (16 – 20 ára)
Ungmennakortið gildir fyrir einn á alla deildarleiki Gróttu í Hertz-höllinni í vetur hjá báðum meistaraflokkunum okkar. Kortið kostar 7000 kr.

Salan á kortunum fer fram í gegnum Stubbur appið. Beinn linkur á söluna er hérna: https://stubb.is/passes/teams/grotta

Athygli er vakin á að miðaverð á leiki í vetur er 2000 kr. Sala á heimaleikjakortum er stór fjáröflunarþáttur í starfi félagsins.

Við vonum að sem flestir styðji okkur í þessari fjáröflun.

Áfram Grótta !

Fyrsti heimaleikur í Olísdeildinni

Fyrsta umferð Olísdeildar karla fer fram í kvöld en þá mæta okkar menn ÍR í Hertz-höllinni á Nesinu. Leikurinn hefst kl. 19:30. Við hvetjum Seltirninga og annað Gróttufólk að mæta og styðja liðið frá upphafi.

Áfram Grótta !

Minningarleikur Ása

Miðvikudaginn 7.september fer fram minningarleikur Ása en þá mætast Grótta og U18 ára landslið kvenna. Leikurinn hefst kl. 19:30 og fer fram í Íþróttahúsi Gróttu, Hertz-höllinni.

Allir handboltaunnendur og aðrir sem vilja minnast Ása eru hvattir til að mæta.

Aðangaseyrir er 1000 kr eða frjáls framlög. Sjoppusala verður á staðnum og mun öll sjoppusala og aðgangseyrir renna í styrktarsjóð barna hans: 512-26-204040, kt. 700371-0779.

Ásmundur Einarsson var formaður Handknattleiksdeildar Gróttu. Hann vann mikið og gott starf allan sinn tíma í félaginu, fyrst í barna- og unglingaráði og síðan heimaleikjaráði og formennsku Handknattleiksdeildar. Ási var bráðkvaddur 24.júlí sl. langt fyrir aldur fram.

Æfingar hefjast í handboltanum

Á mánudaginn, 22.ágúst, hefjast handboltaæfingar hjá öllum flokkum í Gróttu. Við hvetjum alla krakka til að koma á æfingar strax frá upphafi. Við vonumst til að sjá alla iðkendurna frá því í fyrra og þeir krakkar sem vilja koma og prófa eru sérstaklega boðin velkomin. Frítt er að prófa handboltaæfingar í ágúst. Þjálfarar taka vel á móti krökkunum.

Æfingatöfluna má sjá hér fyrir neðan en einnig eru allar æfingar komnar inn í Sportabler. Búið er að opna fyrir skráningar í Sportabler. Allir iðkendur fá nýjan keppnisbúning frá Craft núna í haust en sérstakur mátunardagur verður auglýstur síðar.

Fyrir frekari upplýsingar er hægt að hafa samband við Maksim yfirþjálfara á netfangið maksim@grotta.is

Áfram Grótta !

Æfingar hjá 9.flokki hefjast aftur

Æfingarnar í 9.flokki sem slógu í gegn í fyrra hefjast aftur í byrjun september. Æfingarnar verða kl. 09:20-10:10 og fara fram í litla salnum í íþróttahúsinu. Þjálfar verða þær Arndís María Erlingsdóttir og Íris Björk Símonardóttir. Lögð verður áhersla á skemmtilega leiki með og án bolta og grunnatriði handbolta kennd með fjölbreyttri hreyfingu.

Skráning fyrir haustönnina er hafin og fer fram í gegnum Sportabler: https://www.sportabler.com/shop/grotta/handbolti

Katrín Anna og U18 ára landsliðið í 8.sæti á HM

Undanfarna daga og vikur hefur U18 ára landsliðs kvenna staðið í ströngu á HM í Norður-Makedóníu. Katrín Anna Ásmundsdóttir úr Gróttu lék á mótinu og stóð sig frábærlega líkt og liðið í heild sinni. Í riðlakeppninni vann Ísland tvo leiki gegn Svíum og Alsíringum og gerði jafntefli við Svartfjallaland. Í milliriðlum vann liðið báða sína leiki gegn heimasætunum í Norður-Makedóníu og Íran.

Með þeim úrslitum var liðið komið í 8 liða úrslit og lék háspennuleik gegn Hollendingum. Því miður tapaðist sá leikur með minnsta mun og liðið lék því um 5. – 8.sæti. Þar voru Frakkar sterkari í fyrri leiknum en í leiknum um 7.sætið þurfti vítakeppni að skera út um sigurvegara. Ísland beið lægri hluti og 8.sætið staðreynd sem er besti árangur sem íslenskt kvennalandslið hefur náð á HM.

Til hamingju Katrín Anna og til hamingju stelpur og þjálfarar!

Myndir: HSÍ og IHF

Handboltaskóli Gróttu í ágúst

Líkt og undanfarin ár verður handboltaskóli Gróttu á sínum stað. Skólinn er haldinn dagana 2. – 19.ágúst en hægt er að skrá sig á einstakar vikur. Skólinn er kl. 09:00-12:00 en boðið er upp á ókeypis gæslu frá kl. 08:00 og til kl. 13:00.

Handboltaskólinn er fyrir krakka f. 2016 – 2011 og verður vel tekið á móti öllum byrjendum. Þátttakendum verður skipt upp eftir aldri.

Undanfarin ár hefur Handboltaskólinn verið vel sóttir enda markar hann upphaf handboltatímabilsins. Skólastjóri skólans er Maksim Akbachev yfirþjálfari en auk hans mun Andri Sigfússon, Birgir Steinn Jónsson, Hrafnhildur Hekla Grímsdóttir, Edda Steingrímsdóttir, Patrekur Pétursson Sanko koma að þjálfuninni auk annarra góðra þjálfara hjá deildinni.

Verð:

Vika 1 (2. – 5.ágúst) – 5500 kr
Vika 2 (8. – 12.ágúst) – 7000 kr
Vika 3 (15 – 19.ágúst) – 7000 kr

Allar vikurnar (2. – 19.ágúst) – 18.000 kr

Skráning í Handboltaskóla Gróttu fer fram hérna:

www.sportabler.com/shop/grotta/handbolti