Pétur leggur þjálfaraskónna á hilluna í bili

Fyrir stuttu tilkynnti Pétur Rögnvaldsson, þjálfari meistaraflokks kvenna, stjórn og leikmönnum að hann hygðist taka sér hvíld frá þjálfun eftir níu ára farsælt starf fyrir knattspyrnudeild Gróttu. Það verður sjónarsviptir af Pétri þar sem hann hefur verið einn burðarásanna í þjálfarahópi félagsins í uppbyggingarstarfi þess á síðustu árum. Drýgstan skerf hefur Pétur þó lagt af mörkum til uppbyggingar kvennaknattspyrnu á Seltjarnarnesi og í Vesturbænum.


Pétur hóf störf hjá knattspyrnudeild Gróttu í ársbyrjun 2015 og hefur starfað þar óslitið síðan. Hann þjálfaði bæði stelpur og stráka í yngri flokkunum og þar af fjögur ár í eldri flokkum kvenna. Fyrst 4. flokk Gróttu/KR tímabilin 2016 og 2017 og síðar 3. flokkinn í tvö ár við góðan orðstír. Í ársbyrjun 2019 tók hann við sem aðstoðarþjálfari Magnúsar Arnar Helgasonar hjá meistaraflokki kvenna í Gróttu sem þá lék í 2. deild. Tveimur árum síðar steig hann upp að hlið Magnúsar sem aðalþjálfari liðsins. 


Eftir dramatískt fall í 2. deild haustið 2021 tók Pétur við sem aðalþjálfari enda hafði uppbygging gengið vel og allar forsendur til að fara rakleiðis aftur upp í Lengjudeildina. Það tókst Gróttukonum með Pétur í brúnni í fyrra og í sumar náði liðið besta árangri í sögu meistaraflokks kvenna. Eins og kunnugt er spilaði Grótta hreinan úrslitaleik við Fylki um sæti í Bestu deildinni fyrir framan 800 áhorfendur á Vivaldivellinum laugardaginn 9. september. Eftir jafnan leik hafði Fylkir sigur en sú niðurstaða varpar ekki skugga á stórkostlegan árangur Gróttuhópsins. 


Gróttufólk þakkar Pétri ómetanlegt starf í þágu knattspyrnudeildar og félagsins. Það er ekki ofsagt að hann hafi gegnt lykilhlutverki í starfinu; borið hag félagsins fyrir brjósti, alltaf með hjartað á réttum stað og hugann við að byggja upp heilsteypta einstaklinga og öfluga liðsheild. Jafnframt óskum við Pétri velfarnaðar í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur í framtíðinni og bjóðum hann velkominn í bakvarðasveitina!

Gróttukonur enda í 4. sæti Lengjudeildarinnar eftir frábært sumar

Grótta mætti Fylki á Vivaldivellinum laugardaginn 9. september í hreinum úrslitaleik um hvort liðið myndi komast upp í Bestu deildina að ári. Fáir höfðu spáð því fyrir tímabilið að Grótta yrði í þessari stöðu, liðið nýkomið upp úr 2. deild eftir stutt stopp þar síðasta sumar, en liðið sýndi svo sannarlega í sumar hvað í þeim býr. Grótta komst yfir gegn Fylki á ’23 mínútu með frábæru skallamarki frá hinni 15 ára Arnfríði Auði Arnarsdóttur, betur þekktri sem Aufí. Fylki tókst að jafna metin á ’54 mínútu og stuttu síðar skoruðu þær sitt annað mark. Grótta jafnaði metin á ’73 mínútu eftir að hin 14 ára Rebekka Sif Brynjarsdóttir lét vaða fyrir utan teig og skoraði geggjað mark fyrir Gróttu en hún var aðeins búin að vera inná í nokkrar mínútur þegar hún skoraði. Því miður tókst Fylkiskonum að komast yfir á ný á ’84 mínútu og endaði leikurinn 2-3 fyrir Fylki sem tryggðu sér þar með sæti í Bestu deildinni að ári. Leikurinn var gríðarlega spennandi og var frábær mæting á völlinn. Umgjörðin í kringum leikinn var fyrsta flokks og stóðu sjálfboðaliðar Gróttu í ströngu til að gera hana sem allra flottasta, eins og sást vel. Gróttukonur mega svo sannarlega ganga stoltar frá borði eftir frábært sumar þar sem þær náðu besta árangri kvennaliðs Gróttu frá upphafi. Þrátt fyrir tapið á laugardaginn er hægt að fagna mörgu – í leiknum skoruðu tvær ungar og efnilegar Gróttukonur sem eiga framtíðina fyrir sér, liðið hefur aldrei endað jafn ofarlega í Lengjudeildinni og fengið jafn mörg stig né skorað jafn mörg mörk og í ár og aldrei hefur verið jafn vel mætt á leik hjá kvennaliðinu líkt og á laugardaginn. Það má einnig nefna það að Grótta átti markahæsta leikmann Lengjudeildarinnar, en Hannah Abraham skoraði 16 mörk fyrir Gróttu í sumar og er markahæsti leikmaður Lengjudeildarinnar!

Meistaraflokkur kvenna þakkar fyrir stuðninginn í sumar og hlakkar til að sjá sem flesta á vellinum í Lengjudeildinni á næsta ári.

Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Fyrstu A-landsleikir Orra Steins 

Orri Steinn Óskarsson lék sinn fyrsta A-landsleik þegar Ísland mætti Lúxemborg í undankeppni EM 2024 föstudaginn 8. september. Orri kom inn á í hálfleik en leikurinn tapaðist 1-3. Orri var síðan í byrjunarliði Íslands á Laugardalsvelli mánudaginn 11. september þegar liðið tók á móti Bosníu og Hersegóvínu. Ísland vann dramatískan 1-0 sigur en Alfreð Finnbogason skoraði mark Íslands í uppbótartíma. Orri Steinn spilaði allan síðari leikinn og stóð sig gríðarlega vel! Hákon Rafn Valdimarsson var einnig í landsliðshópnum og var á bekk Íslands í báðum leikjunum. Knattspyrnudeild Gróttu er gríðarlega stolt af Orra og Hákoni og óskum við Orra Steini innilega til hamingju með fyrstu landsleikina! Svo sannarlega frábærar fyrirmyndir fyrir unga Gróttukrakka!

Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir 

Æfingatafla knattspyrnudeildar 2023-2024

Vetraræfingatafla knattspyrnudeildar tekur gildi mánudaginn 28. ágúst. Iðkendur í 5.-2. flokki halda áfram að æfa með þeim flokki sem þau voru með í sumar þangað til Íslandsmótin klárast, en 2013 árgangurinn bætist við í 5. flokki.

Halda áfram að lesa

3. flokkur kvenna sigurvegarar á USA Cup!

3. flokkur kvenna kom heim á þriðjudagsmorgun eftir frábæra viku á USA Cup í Minnesota í Bandaríkjunum. Ferðin var virkilega vel heppnuð í alla staði en 24 stelpur fóru á mótið með þjálfurum og fararstjórum. Stelpurnar kepptu á USA Cup en yfir 1.200 lið léku á mótinu frá ýmsum heimshornum. Stelpurnar úr Gróttu/KR voru til fyrirmyndar innan sem utan vallar og voru félögum sínum svo sannarlega til sóma. Báðum liðum gekk mjög vel á mótinu og stóðu stelpurnar sig gríðarlega vel. Lið 1 vann alla sína leiki og stóðu uppi sem sigurvegarar í U16 með markatöluna 28-3! Lið 2 tapaði einum leik á mótinu sem var á móti sterku liði Fylkis í 8-liða úrslitum og það í framlengingu og enduðu stelpurnar með markatöluna 15-3. Fararstjórarnir stóðu sig ekki síður vel og stóðu vaktina frá morgni til kvölds og héldu vel utan um hópinn. Stelpurnar sköpuðu svo sannarlega dýrmætar minningar í ferðinni sem munu fylgja þeim um ókomna tíð.
Knattspyrnudeild Gróttu óskar stelpunum innilega til hamingju með þennan frábæra árangur! 👏🏽 Geggjaðar 💙🖤

Paul og Gabríel skrifa undir

Þeir Gabríel Hrannar Eyjólfsson og Paul Westren munu leiða starf yngri flokka knattspyrnudeildar Gróttu næstu tvö árin en þeir skrifuðu undir samninga þess efnis í dag. Þeir munu sinna yfirþjálfarastörfum í sameiningu og þjálfa í yngri flokkunum. Auk þess verða þeir svokallaðir „transition“ þjálfarar hjá félaginu, Paul hjá strákunum og Gabríel hjá stelpunum, og munu styðja við bakið á ungum leikmönnum sem eru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki. 

Paul er Englendingur sem fæddur árið 1980 og kom til starfa hjá Gróttu sumarið 2021. Hann hefur komið víða við á sínum ferli og meðal annars þjálfað í Síerra Leóne, Kína og Lesótó. Paul tók við starfi yfirþjálfara síðasta haust og hefur stýrt deildinni síðustu mánuði á krefjandi tímum þar sem mikil hreyfing hefur verið á þjálfarahópnum. 

Gabríel er fæddur árið 1999 og skipti yfir í Gróttu úr KR árið 2018. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann talsverða reynslu af yngri flokka þjálfun og útskrifaðist á dögunum sem íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Gabríel er núverandi þjálfari 4. flokks karla, skólastjóri knattspyrnuskólans og leikmaður í meistaraflokki Gróttu. 

Hildur Ólafsdóttir hjá barna- og unglingaráði segir spennandi tíma framundan hjá knattspyrnudeildinni:  „Við erum gríðarlega ánægð með að hafa samið við bæði Gabríel og Paul til tveggja ára. Markmiðið er að bjóða öllum Gróttukrökkum upp á framúrskarandi gott starf og teljum að það muni klárlega takast með góðum hópi þjálfara og þá Gabríel og Paul við stjórnvöllin.“

Yfirþjálfararnir höfðu þetta að segja þegar skrifað var undir samningana í morgun: 

Paul: „Ég er mjög glaður að framlengja samninginn minn og halda áfram að vinna fyrir Gróttu. Eitt af einkennum félagsins er að halda vel utan um uppalda leikmenn og hjálpa þeim að taka skrefið upp í meistaraflokk og því viljum við halda áfram. Grótta er fjölskylduklúbbur og við viljum styðja við bakið á öllum sem taka þátt í starfinu og búa til jákvætt og hvetjandi umhverfi á Vivaldivellinum.“

Gabríel: „Ég er gríðarlega spenntur að halda áfram og efla það góða starf sem unnið hefur verið í Knattspyrnudeild Gróttu undanfarin ár. Ég trúi því innilega að í Gróttu sé unnið eitt besta yngri flokka starf á landinu – félagið hefur alið af sér leikmenn sem eiga möguleika á að ná í fremstu röð og samfélagslegi þátturinn hefur sömuleiðis verið sterkur þó að alltaf megi gera betur. Það er mikill heiður að fá tækifæri til að hafa áhrif og vera í forystuhlutverki.“

Miðasala á Verbúðarballið hafin

Ekki missa af stærsta balli ársins – Verbúðarballinu 2023 – 9. september í íþróttahúsinu á Seltjarnarnesi.

Verbúðarbandið ásamt BUBBA MORTHENS & RÖGGU GÍSLA gera allt vitlaust.

Dagskrá:
21:00 Húsið opnar
Tilboð á barnum og vel valinn plötusnúður hitar upp.
23:00-1:00 Verbúðarbandið ásamt BUBBA MORTHENS & RÖGGU GÍSLA

Miðasala fer fram Tix.is tix.is/is/event/15690/verbu-arball-2023

Verð: 6.990.- kr frá og með 1. Júlí.

ATH 20 ára aldurstakmark er á ballið

Grótta leitar að verkefnastjóra

Íþróttafélagið Grótta óskar eftir því að ráða öflugan verkefnastjóra á skrifstofu
aðalstjórnar félagsins í 100% starf. Um er að ræða fjölbreytt, krefjandi og lifandi starf.
Gert er ráð fyrir að ráðið sé í starfið frá 1. ágúst.

Helstu verkefni og ábyrgð:

  • Hefur umsjón með viðburðum félagsins og hefur aðkomu að mótahaldi
  • Leiðir umbótavinnu við gerð verkferla
  • Leiðir samstarf innan sem utan félags
  • Ritstjórn miðla, samræming kynningarefnis og innleiðing skýjalausna
  • Almenn þjónusta við félagsmenn og samskipti við hagsmunaaðila

Kröfur um hæfni (þekking, færni, eiginleikar):

  • Háskólagráða sem nýtist í starfi
  • Góð samstarfs- og samskiptahæfni
  • Frumkvæði, sjálfstæði, skipulagshæfni og ögun í vinnubrögðum
  • Góð tölvufærni og hæfni til að tjá sig í ræðu og riti
  • Hreint sakavottorð

Umsóknarfrestur er til og með 31. maí 2023.
Sótt er um starfið á umsóknarvef Alfreðs: Íþróttafélagið Grótta (alfred.is)
Nánari upplýsingar má nálgast með því að senda tölvupóst á grotta@grotta.is

Aðalfundur Gróttu 2023

Aðalfundir deilda og ráða Íþróttafélagsins Gróttu fóru fram 27. apríl og fóru þeir fram í hátíðarsal félagsins.  Fundurinn hófst á tónlistaratriði Jón Guðmundsson frá tónlistarskóla Seltjarnanesbæjar kynnti inn 3 stúlkur sem einnig eru iðkendur í félaginu. Þetta eru þær Arney María Arnarsdóttir sem spilaði á þverflautu, Sólveig Þórhallsdóttir einnig á þverflautu og Eyrún Þórhallsdóttir á saxófón.

Ólafur Örn Svansson hélt um fundarstjórnina en fundurinn hófst með skýrslu Þrastar Guðmundssonar, formanns aðalstjórnar og í kjölfarið komu formenn og gjaldkerar deilda og ráða í pontu og fóru yfir starfið á árinu og rekstrarniðurstöður. 

Þröstur var að klára sitt fyrsta ár sem formaður en aðrir aðalstjórnarmeðlimir gáfu öll kost á sér til endurkjörs og er stjórnin því óbreytt. 

Gísli Örn Garðarsson hætti í stjórn fimleikadeildar og Fanney Magnúsdóttur kemur inn í hans stað. Gylfi Magnússon hætti í stjórn handknattleiksdeildar og Páll Gíslason í stjórn unglingaráðs handknattleiksdeildar. 

Þá hættu þeir Alexander Jensen og Rögnvaldur Dofri Pétursson í stjórn knattspyrnudeildar en það var fækkað í stjórninni sem er núna skipuð þeim Þorsteinn Ingasyni formanni, Hörpu Frímansdóttur, Kristínu Huld Þorvaldsdóttur, Stefáni Bjarnasyni, Helga Héðinssyni og Hildi Ólafsdóttir. 

Gefin var út glæsileg árskýrsla fyrir síðasta ár:
https://grotta.is/wp-content/uploads/2023/05/A%CC%81rssky%CC%81rsla-Gro%CC%81ttu-2022-web.pdf

Eyjólfur Garðarsson ljósmyndari félagsins mætti svæðið og tók frábærar myndir sem lýsa vel heppnuðum aðalfundi.