Lokahóf meistaraflokka Gróttu

Laugardaginn 14.maí fór fram lokahóf meistaraflokka Gróttu í handbolta. Þar komu leikmenn, þjálfarar, stjórn og sjálfboðaliðar og fögnuðu góðu tímabili.Á lokahófinu voru þeir leikmenn verðlaunaðir sem þóttu skara fram úr í vetur.

Meistaraflokkur kvenna

Efnilegasti leikmaður – Lilja Hrund Stefánsdóttir
Mikilvægasti leikmaður – Valgerður Helga Ísaksdóttir
Besti leikmaður – Rut Bernódusdóttir

______________________

Meistaraflokkur karla

Mikilvægasti leikmaður – Andri Þór Helgason
Mikilvægasti leikmaður – Einar Baldvin Baldvinsson
Besti leikmaður – Birgir Steinn Jónsson

______________________

Ungmennalið karla

Mikilvægasti leikmaður – Oliver Magnússon
Besti leikmaður – Daníel Andri Valtýsson

______________________

Því næst voru leikmenn heiðraðir sem höfðu leikið 50 leiki fyrir Gróttu. Það voru þau:

Anna Katrín Stefánsdóttir
Ari Pétur Eiríksson
Hrafnhildur Hekla Grímsdóttir
Jakob Ingi Stefánsson
Katrín Anna Ásmundsdóttir
Valgerður Helga Ísaksdóttir

Þeir leikmenn sem voru verðlaunaðir fyrir 100 leiki fyrir Gróttu voru:

Guðrún Þorláksdóttir
Soffía Steingrímsdóttir

________________________

Að lokum var þjálfarateymi meistaraflokks kvenna þakkað fyrir sín störf undanfarin ár; Davíð Örn Hlöðversson og Kári Garðarsson.

Við óskum þessum verðlaunahöfum til hamingju og hlökkum til að sjá þá og liðin okkar aftur í haust í Olísdeildinni, Grill 66-deildinni og 2.deild karla.

Gunni Gunn þjálfar Gróttu

Gunnar Gunnarsson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks kvenna til næstu þriggja ára. Gunnar þarf vart að kynna fyrir Gróttufólki og hvað þá handboltaáhugafólki enda margreyndur þjálfari og landsliðsmaður þar á undan. Gunnar þekkir vel til á Nesinu en hann þjálfaði kvennalið félagsins árin 1998-2000 og aftur 2001-2002. Árið 2000 stýrði hann liðinu alla leið í bikarúrslit og í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn. Tveimur árum síðar fór liðið aftur í bikarúrslit undir stjórn Gunna.

Undanfarin tvö tímabil hefur Gunni þjálfað kvennalið Hauka og náð frábærum árangri með liðið. Áður þjálfaði hann karlalið Víkings og Selfoss en hann hefur einnig þjálfað Elverum og Drammen í Noregi.

Það ríkir mikil ánægja með að Gunnar sé kominn á Nesið enda frábær þjálfari með mikla reynslu. Kára Garðarssyni sem hefur þjálfað liðið undanfarin tvö tímabilin er þakkað mikið og gott starf.

Á myndinni eru Gunnar Gunnarsson og Arnkell Bergmann Arnkelsson varaformaður handknattleiksdeildar að skrifa undir samninginn. Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Arna Katrín á leið til Osló

Á dögunum var valinn lokahópur stúlkna f. 2008 og 2009 sem fer á grunnskólaleika Höfuðborganna í Osló. Mótið fer fram 29.maí – 3.júní. Við eigum einn fulltrúa í hópnum en það er hún Arna Katrín Viggósdóttir. Til hamingju með valið !

Leikmannahópurinn lítur annars svona út:

Arna Sif Jónsdóttir, Valur
Arna Katrín Viggósdóttir, Grótta/KR
Ásdís Styrmisdóttir, Fram
Ester Elísabet Guðbjartsdóttir, Valur
Hrafnhildur Markúsdóttir, Valur
Laufey Helga Óskarsdóttir, Valur
Sigrún Erla Þórarinsdóttir, Valur
Silja Gunnarsdóttir, Fram
Sylvía Stefánsdóttir, Fram
Þóra Lind Guðmundsdóttir, Fram

Þjálfari liðsins er Sigríður Unnur Jónsdóttir.

Jakob Ingi framlengir

Jakob Ingi Stefánsson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Handknattleiksdeild Gróttu. Jakob er fæddur árið 1997 og leikur í vinstra horninu. Jakob kom til Gróttu árið 2019 frá Aftureldingu en hann er uppalinn í Breiðholtinu hjá ÍR.

Jakob skoraði 20 mörk í 20 leikjum í Olísdeildinni í vetur og myndaði frábært hornapar í vinstra horninu með Andra Þór Helgasyni. Jakob nýtir færin næstbest allra í Olísdeildinni en af þeim leikmönnum sem skoruðu fleiri en 3 mörk í deildinni, þá er hann með næstbestu nýtinguna eða 87%.

Það eru gleðileg tíðindi að Jakob Ingi verði áfram hjá okkur í Gróttu enda frábær hornamaður sem við bindum vonir við að haldi áfram að dafna á Nesinu.

„Ég er mjög spenntur fyrir komandi tímum hjá Gróttu. Mér hefur liðið vel í félaginu á undanförnum árum og næsta tímabil stefnir í veislu“, sagði Jakob Ingi við undirskriftina.

Sjö stelpur í U15 ára landsliðinu

Um helgina fara fram æfingar hjá U15 ára landsliði kvenna. Við eigum hvorki fleiri né færri en sjö fulltrúa í hópnum að þessu sinni. Það eru þær:

Arndís Áslaug Grímsdóttir
Dóra Elísabet Gylfadóttir
Elísabet Ása Einarsdóttir
Embla Hjaltadóttir
Helga Sif Bragadóttir
Margrét Lára Jónasdóttir
Marta Sif Þórsdóttir

Við óskum stelpunum hjartanlega til hamingju með valið og óskum þeim góðs gengis á æfingunum undir stjórn landsliðsþjálfaranna, Díönu Guðjónsdóttur og Jóns Brynjars Björnssonar

Katrín Anna og Katrín Scheving í U18

Þessa dagana æfir U18 ára landslið kvenna undir stjórn landsliðsþjálfaranna Ágústar Þórs Jóhannssonar og Árna Stefáns Guðjónssonar. Upphaflega var eingöngu einn fulltrúi frá Gróttu í hópnum, Katrín Anna Ásmundsdóttir sem hefur verið fastamanneskja í liðinu undanfarin ár. Núna hefur nafna hennar, Katrín Scheving einnig verið valin í hópinn. Við eigum því tvo fulltrúa í hópnum.

Til hamingju með valið, Katrín Anna og Katrín Scheving og gangi ykkur vel !

Arna Katrín og Sigríður Agnes valdar í æfingahóp

Á dögunum voru tveir leikmenn úr 5.flokki kvenna valdir í æfingahóp Reykjavíkurúrvalsins í handbolta. Það eruð þær Arna Katrín Viggósdóttir og Sigríður Agnes Arnarsdóttir. Liðið mun æfa saman næstu daga og vikur til undirbúnings fyrir hina árlega höfuðborgarleika sem haldnir eru að þessu sinni í Osló í Noregi 29. maí – 4.júní næstkomandi.

Við óskum stelpunum til hamingju með valið og vonum að þær verði í lokahópnum sem fer til Noregs í lok maí.

Myndir: Eyjólfur Garðarsson

Arnar Daði og Maksim áfram með Gróttuliðið

Þjálfarateymi Gróttu hefur framlengt samninga sína við Handknattleiksdeild Gróttu til þriggja ára. Arnar Daði Arnarsson verður áfram þjálfari liðsins og honum til aðstoðar verður áfram Maksim Akbachev. Þjálfararnir hafa átt gríðarlega mikinn þátt í því að festa Gróttuliðið á meðal bestu liða landsins. Takmark næstu tímabila er að færast enn ofar í töflunni.

„Þetta er stór dagur fyrir Gróttu. Arnar Daði og Maksim hafa staðið sig frábærlega hérna á Nesinu og við lögðum okkur mikið fram við að halda þeim áfram. Það og að Birgir Steinn verður áfram í herbúðum okkar er stórt skref í þeirri vegferð að Grótta berjist í efri helmingi deildarinnar“, sagði Arnkell Bergmann Arnkelsson varaformaður Handknattleiksdeildar Gróttu við undirritunina.

Birgir Steinn framlengir

Birgir Steinn Jónsson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Handknattleiksdeild Gróttu. Birgir Steinn hefur verið í herbúðum Gróttu undanfarin tvö ár og staðið sig frábærlega. Það eru því frábær tíðindi að hann verði áfram á Nesinu. Birgir skoraði 125 mörk í vetur og varð fjórði markahæsti leikmaður deildarinnar. Ef frá eru talin mörk úr vítaköstum, þá er þetta annað tímabilið í röð sem Birgir Steinn er markahæsti leikmaður deildarinnar.  Hann gaf flestar stoðsendingar í deildinni í vetur. Nýverið var hann valinn besti leikmaður deildarinnar samkvæmt tölfræði HBstatz og í liði tímabilsins.

„Ég er virkilega spenntur fyrir komandi tímum hjá Gróttu. Við höfum sýnt það í vetur að við erum með hörkugott lið en ég hef trú á því að þessi hópur geti náð enn lengra á næsta tímabili og á næstu árum“, sagði Birgir Steinn við undirritunina.

„Þetta eru stór tíðindi fyrir Gróttu enda Birgir Steinn stimplað sig inn sem einn albesti leikmaður deildarinnar og mörg lið sem horfðu hýru auga til hans. Hann hefur bætt leik sinn gríðarlega undanfarin ár og verður frábært að vinna áfram með honum næstu tvö árin“, sagði Arnar Daði Arnarsson þjálfari Gróttuliðsins.

Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Ágúst Emil áfram á Nesinu

Ágúst Emil Grétarsson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Handknattleiksdeild Gróttu. Ágúst Emil er 24 ára gamall og leikur sem hægri hornamaður. Hann hefur leikið með Gróttu undanfarin fjögur tímabil og leikið samtals 84 leiki fyrir félagið. Ágúst Emil hefur leikið afar vel í vetur og skorað 43 mörk í deildinni og er með um 70% skotnýtingu. Það er mikil gleðitíðindi að Ágúst Emil verði áfram í herbúðum Gróttu.

„Ágúst Emil hefur verið vaxandi leikmaður undanfarin ár og hefur í vetur verið frábær. Það er því frábært að hann verði áfram á Nesinu. Ég hlakka mikið til að vinna með honum áfram“ sagði Arnar Daði Arnarsson þjálfari Gróttu þegar samningurinn var í húsi.