STARFSMANNAKYNNING GRÓTTU

Nafn: Hrafnhildur Thoroddssen
Gælunafn: Bídó
Ég ólst upp mestmegnis í Keflavík 
Fyrri störf: Ég var byrjuð að vinna sem sendill á lögfræðisstofu föður míns. Ári síðar hóf ég störf á smurbrauðsstofunni Birninum á Njálsgötu og vann þar með skóla og öll sumur til sextán ára aldurs en þá lenti ég í bílslysi á leið til vinnu.   Á Birninum var ég þátttakandi í matseld, þjónustu og þrifum auk þess sem ég smurði snittur og gerði brauðtertur fyrir veislur. Tvö síðustu ár mín á Birninum leysti ég eigendur af í fríum og bar ábyrgð á starfsseminni. 

Ég lauk stúdentsprófi frá MH árið 2002 en ég var nemandi í skólanum fyrir slysið. Fyrir þann tíma hafði ég starfað á kassa í Hagkaupum. Eftir stúdentsprófið starfaði ég hjá Össur stoðtækjaþjónustu eða þar til ég hóf störf hjá íþróttamiðstöð Seltjarnaness.    

Árið 1994 fór ég til Shangai í Kína til skoðunar vegna lömunar minnar sem lauk með því að kínverskur skurðlæknir kom tvisvar til Íslands og gerði á mér tilraunaskurðaðgerðir. Eftir það fór ég fjórum sinnum til Moskvu í Rússlandi í rafmagnsmeðferðir, tvisvar sinnum til Burgundy í Frakklandi í leisermeðferðir og tvisvar sinnum til London í sértæka sjúkraþjálfun.  Í mörg ár æfði ég stíft göngu á spelkum.  Allt þetta hefur verið mikil vinna. 

Hve lengi starfað hjá Gróttu: Ég er búinn að vinna hjá Gróttu í 6 ár.  
Áhugamál:  Hef gaman að horfa á sjónvarp eða lesa góða bók. 
Stundaðir þú íþróttir: Ég stundaði ekki beint íþróttir en ég var í leikfimi hjá Sissa.
Bíómynd í uppáhaldi: No country for old man er í sérstöku uppáhaldi en ég hef líka gaman af Woody Allen myndunum.  
Uppáhalds tónlistarmaður: Bubbi Morthens sem er nýji nágranni minn.
Hvað færðu að borða á Aðfangadag: Hamborgarahrygg.
Skilaboð til foreldra:  Gleðileg jól til allra 

Luke Rae til Gróttu

Framherjinn Luke Rae er genginn til liðs við Gróttu og hefur skrifað undir samning við félagið til 2023 🤝

Luke er tvítugur Englendingur sem hefur þrátt fyrir ungan aldur spilað í tvö ár á Íslandi. Eftir að hafa byrjað aðeins 16 ára gamall að spila í neðri deildum á Englandi gekk hann til liðs við Tindastól og skoraði 16 mörk í 20 leikjum í 3. deild sumarið 2020. Á liðnu tímabili spilaði hann svo með Vestra í Lengjudeildinni og tók þátt í bikarævintýri Ísfirðinga sem komust alla leið í undanúrslit, en hann á að baki 26 leiki fyrir Vestra í sumar þar sem hann skoraði 3 mörk.

Luke er duglegur og eldfljótur leikmaður sem getur spilað allar stöður fremst á vellinum. Hann er spenntur fyrir komandi áskorunum með Gróttu:
„Ég er mjög glaður með að hafa skrifað undir hjá Gróttu. Mér finnst vera mikill metnaður hjá félaginu – æfingarnar eru góðar og ég held að leikstíll liðsins henti mér vel. Öll vinna í kringum liðið er mjög fagleg og ég trúi því að hér geti ég bætt mig sem leikmaður. Strákarnir hafa tekið vel á móti mér og ég er spenntur að komast betur inn í hópinn sem stendur þétt sama og er hungraður í að ná árangri.”

Hilmar Þór Helgason á láni til Gróttu

Hinn 16 ára Hilmar Þór hefur skrifað undir eins árs lánssamning við Gróttu en hann kemur frá Breiðablik. Hilmar er uppalinn Gróttumaður en skipti yfir í Breiðablik árið 2019 og hefur spilað þar síðan. Hilmar er gríðarlega efnilegur markmaður sem á að baki einn leik fyrir U-17 ára landsliðið.

Hilmar er spenntur fyrir verkefninu í Gróttu og segist vera ánægður að vera mættur aftur á Vivaldivöllinn.

„Þetta ferli að koma hingað er búið að vera langt. Ég er mjög glaður að vera kominn aftur og er spenntur að vera partur af þessu liði. Strákarnir, staffið og þjálfararnir eru búnir að taka vel á móti mér og ég hlakka til að vinna með þeim. Ég er mikill og stoltur Gróttumaður og mun gera allt sem ég get til að hjálpa þessu liði að ná langt.“

Það er mikið gleðiefni að fá Hilmar aftur í Gróttu 👏🏼

Arnar Þór Helgason og Júlí Karlsson framlengja hjá Gróttu

Þeir Arnar Þór Helgason og Júlí Karlsson hafa framlengt samninga sína við knattspyrnudeild Gróttu til tveggja ára.

Arnar Þór er 25 ára gamall miðvörður, sem hefur verið lykilmaður í vörn Gróttuliðsins síðastliðin ár ásamt því að vera afar ógnandi í vítateig andstæðinganna. Arnar Þór á að baki 101 leiki fyrir Gróttu og hefur skorað í þeim 12 mörk, en hann lék sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk félagsins árið 2016.

Júlí er 25 ára gamall miðvörður sem spilaði sína fyrstu leiki með Gróttu sumarið 2018 og hefur spilað með liðinu síðan. Júlí á 47 leiki að baki fyrir félagið og hefur skorað í þeim 2 mörk en hann var ásamt Arnari lykilleikmaður í varnarlínu Gróttu síðastliðið sumar.

Samningarnir við Arnar Þór og Júlí eru mikið fagnaðarefni fyrir knattspyrnudeild Gróttu og alla stuðningsmenn félagsins.

Katrín Anna með U18 landsliðinu í Serbíu

U-18 ára landslið kvenna lék í Belgrad í Serbíu 22 – 25.nóvember síðastliðinn á umspilsmóti um sæti í A-keppni Evrópumóts kvenna í þessum aldurshópi á næsta ári. Katrín Anna Ásmundsdóttir leikmaður meistara- og 3.flokks var okkar fulltrúi í landsliðinu.

Stelpurnar unnu Slóveníu 24-21 í fyrsta leik og síðan Slóvakíu í öðrum leik 29-26. Því miður tapaðist úrslitaleikurinn við Serba stórt, 31-20. Okkar leikmaður Katrín Anna Ásmundsdóttir stóð sig vel á mótinu.

Katrín Anna hefur verið fastamaður í þessu landsliði undanfarin ár. Gríðarleg reynsla og tækifæri sem Katrín Anna fær í landsliðinu sem vonandi nýtist Gróttu næstu misseri.

STARFSMANNAKYNNING GRÓTTU

Nafn: Sólveig Soffía Herbertsdóttir
Gælunafn: Solla
Hvar ólstu upp:  Akureyri
Fyrri störf (nefna 2-3):  Var lengi á lyfjadeildinni á sjúkrahúsinu á Akureyri. Einnig vann ég á hamborgastaðnum á Lækjartorgi um tíma.
Hve lengi starfað hjá Gróttu: Ég hóf störf hjá Gróttu: Búin að vera í 5 ár.   
Áhugamál: Ferðalög og útivera, geng mikið. 
Stundaðir þú íþróttir:  nei en var mikið í sundi sem krakki.
Bíómynd í uppáhaldi: Hef alltaf gaman af spennu og löggu myndum.
Uppáhalds matur: Lambahryggur og meðlæti, svo er ég hrifin af grænmetisréttum.
Skilaboð til foreldra:  Mér finnst krakkarnir vera algjörir snillingar, það sem vellur uppúr þeim er oft alveg ótrúlegt. 

Jólahandboltanámskeið Gróttu

Handknattleiksdeild Gróttu verður með jólahandboltanámskeið milli jóla og nýárs. Námskeiðið er opið öllum hvort sem viðkomandi er að æfa handbolta eða ekki. Leikmenn meistaraflokka félagsins munu þjálfa á námskeiðinu. Þátttakendur hafa því möguleika á að læra af þeim bestu í Gróttu. Námskeiðið fer fram 27. – 30.desember og er tvískipt:

7. og 8.flokkur (f. 2012-2015)
5. og 6.flokkur (f. 2008-2011)


Skráning er opin og fer fram í gegnum Sportabler. https://www.sportabler.com/shop/grotta/handbolti


Áfram Grótta !

STARFSMANNAKYNNING GRÓTTU

Nafn: Reynir Hólm Jónsson  
Ræstitæknir í fimleikasal Gróttu
Fyrri störf: Byrjaði sem messagutti hjá Eimskip haustið 1966 (þá 14 ára) síðar var ég háseti, lærði svo skipstjórn og endaði sem yngsti skipstjóri hjá Eimskip 1977. Ári síðar fór ég í land og gerðist verkstjóri.  Þegar ég hætti hjá Eimskip árið 2017 átti ég lengstan starfsaldur hjá fyrirtækinu.
Hve lengi starfað hjá Gróttu: Ég hóf störf hjá Gróttu : Hóf störf í byrjun árs 2019.  
Hvar ólstu upp:  Ég ólst upp í Norðurmýrinni í Reykjavík.
Áhugamál: Útivera, veiðar og golf. 
Stundaðir þú íþróttir:  Stundaði knattspyrnu með Val.
Uppáhalds tónlistarmenn:  Uppáhalds hljómsveit er ELO en einnig fíla ég Metallica.  Þegar ég þríf fimleikasalinn eldnsnemma á morgnana þá blasta ég stundum Metallica.
Bíómynd í uppáhaldi: Forrest Gump og svo voru Dirty Harry myndirnar góðar.
Uppáhalds matur:  Skötuselur innvafinn í beikon – grillað úti.
Skilaboð til foreldra: Að kenna börnunum að ganga vel um.  

Skráning í stubbafimi vorönn 2022 hefst 1. desember

Skráning í stubbafimi vorönn 2022 hefst 1. desember inn á vefverslun sportabler https://www.sportabler.com/shop/grotta/

Stubbafimi er ætluð yngstu iðkendunum.

Áhersla lögð á grundvallarhreyfigetu og líkamsvitund með fjölbreyttum æfingum.

Markmiðið er að vekja áhuga á fimleikum, byggja upp góðan grunn fyrir áframhaldandi fimleikaiðkun, kenna jákvæðan aga og reglur sem gilda í salnum.

Kennt er á laugardagsmorgnum:
Iðkendur fæddir 2019 eru kl. 08:50 – 09:40.
Iðkendur fæddir 2018 eru kl. 09:50 – 10:40.
Iðkendur fæddir 2017 eru kl. 10:50 – 11:40.

Fyrsti stubbatími vorannar verður laugardaginn 8. janúar og sá síðasti 30. apríl.

Fyrirkomulagið er á þann hátt að börn fædd 2019 eru með foreldri á æfingu en iðkendur fæddir 2018 og 2017 æfa án foreldra í tímunum.

Góð frammistaða hjá 5.flokki karla

Um helgina spilaði eldra árið á sínu öðru móti í vetur. Mótið fór fram í Fjölnishöllinni í Grafarvogi. Strákarnir léku í 3. deild og voru staðráðnir í að fara beint aftur upp um deild.

Strákarnir byrjuðu á að spila við Val 2 og var leikurinn í járnum í fyrri hálfleik. Seinni hálfleikur var flottur og leikurinn endaði 22-17 fyrir okkar drengjum. Annar leikur liðsins var við ÍR 1 og unnu strákarnir frábæran sigur eftir að hafa verið tveimur mörkum undir í hálfleik. Leikur þrjú var gegn Fram 2 og spiluðu strákarnir ekki nægilega vel en náðu samt sem áður að kreista út sigur með sigurmarki á lokasekúndunum frá Kolbeini. Síðan var komið að úrslitaleiknum og aftur spiluðu strákarnir við Val 2. Leikurinn var jafn í þrjátíu mínútur en endaði að lokum með sigri Gróttu 17-16.

Frábær helgi að baki hjá strákunum í 5.flokki. Þjálfarar flokksins eru Andri Þór Helgason og Hannes Grimm.