Sigur og jafntefli hjá meistaraflokkunum

Nú eru Íslandsmótin hjá meistaraflokkum landsins farin aftur af stað eftir tveggja vikna hlé vegna Covid-19 takmarkana. Strákarnir héldu til Garðabæjar síðasta föstudag til að spila við Stjörnuna. Stjörnumenn komust yfir á ’26 mínútu og staðan 1-0 í hálfleik. Grótta jafnaði síðan metin á ’75 mínútu þegar Karl Friðleifur Gunnarsson kom boltanum í netið eftir sendingu frá Kristófer Orra Péturssyni. Lokatölur 1-1 eftir hörku leik!

Stelpurnar lögðu leið sína í Grafarvog í gærkvöldi og léku við Fjölni á tómum Extravellinum. Grótta komst snemma yfir en Signý Ylfa Sigurðardóttir skoraði fyrsta mark Gróttu á 5’ mínútu. Grótta innsiglaði síðan sigurinn á 90’ mínútu þegar Guðfinna Kristín Björnsdóttir kom boltanum í netið eftir hornspyrnu. Grótta situr áfram í 3. sæti eftir sigurinn með 17 stig, tveimur stigum á eftir Tindastól sem eru í 2. sæti og þremur stigum á eftir Keflavík sem sitja á toppnum.


Næsti leikur hjá drengjunum er föstudaginn 21. ágúst þegar Blikar koma í heimsókn á Vivaldivöllinn og næsti leikur hjá Gróttukonum er á laugardaginn á Vivaldivellinum kl. 13:00 gegn ÍA. Við minnum á að áfram er áhorfendalaust á leikjunum.

Mynd: Eyjólfur Garðarsson.

Þrír flokkar frá Gróttu á Rey Cup

3. og 4. flokkur kvenna ásamt 4. flokki karla fóru á Rey Cup 22.-26. júlí. 3.flokkur kvenna var með tvö lið á mótinu. Þeim gekk vel alla dagana og það var frábær stemning í hópnum. Allar stelpurnar spiluðu vel þrátt fyrir marga leiki og erfiðar aðstæður. Það var ekki bara spilað fótbolta heldur skellti hópurinn sér einnig saman í Fjölskyldu og Húsdýragarðinn. Lið 1 endaði í 3.sæti á mótinu og lið 2 í 4.sæti.
4.flokkur kvenna fór með 1 lið á mótið. Stelpurnar spiluðu frábæran sóknarbolta á mótinu og sköpuðust mörg glæsileg mörk uppúr uppspili stelpnanna. Úrslitin voru aukaatriði og skemmtu allar stelpurnar sér frábærlega alla dagana þar sem leikgleði og hamingja var við völdin!

4. flokkur karla fór með 2 lið á Rey Cup og stóðu sig með stakri prýði. Skemmtu drengirnir sér mjög vel og spiluðu skemmtilegan fótbolta þrátt fyrir skrautlegar vallaraðstæður inn á milli. Mörg glæsileg mörk voru skoruð og mátt sjá að drengirnir höfðu mjög gaman af mótinu. 

Meðfylgjandi mynd er af liði 1 hjá 3. flokki kvenna Gróttu/KR og er tekin af Margréti Kristínu Jónsdóttur. 

Knattspyrnuskólanum lokið

Þá er enn öðru farsælu sumri hjá knattspyrnuskóla Gróttu lokið, en hann var starfrækur frá 10. júní til 31. júlí. Góð mæting var á öll fjögur námskeiðin en tæplega 380 börn voru skráð á námskeiðin. Til viðbótar því voru um 100 börn sem sóttu sumarnámskeið fyrir 4. og 5. flokk. Iðkendur í skólanum eru bæði krakkar sem hafa æft lengi og einnig krakkar sem eru að prófa fótbolta í fyrsta skipti, og lögð er áhersla á að kenna fótbolta í gegnum skemmtilega leiki og æfingar. Námskeiðin voru 4 talsins, í tvær vikur í senn, og í lok hvers námskeiðs var krökkunum blandað saman og skipt í landslið og keppt í HM. Að keppni lokinni var síðan pulsupartí og allir fóru glaðir inn í helgina. Áhugasamir og fjörugir krakkar, efnilegir unglingar og gott veður var virkilega góð blanda sem varð til þess að námskeiðin gengu gríðarlega vel. Hér má sjá myndir frá starfinu í sumar, en einnig eru fleiri myndir og myndbönd á instagram.com/grottasport

Starfsmenn knattspyrnuskólans þakka fyrir sumarið og hlakka til að sjá sem flesta aftur næsta sumar!

Grótta með 12 lið á Símamótinu

Hátt í 80 Gróttustelpur kepptu á Símamótinu í Kópavogi helgina 10-12. júlí. Um 2400 stelpur léku á mótinu sem er stærsta knattspyrnumót landsins!
5. flokkur Gróttu tefldi fram fjórum liðum sem samanstóðu af 31 stelpu, 6. flokkur kvenna var með 16 stelpur í þremur liðum og 7. flokkur kvenna fór með 28 stelpur í fimm liðum. Mótið var frá föstudegi til sunnudags og leikið var frá morgni til eftirmiðdags.
Grótta náði góðum árangri á mótinu í öllum flokkum. Grótta 1 í 7. flokki kvenna vann sinn riðil eftir 3-2 sigur gegn Njarðvík 1 í úrslitum og fóru því með bikar heim! Grótta 1 í 6. flokki kvenna komst í undanúrslit en töpuðu fyrir Hetti 1 2-1, og enduðu í 4. sæti. Grótta 1 í 5. flokki kvenna komst einnig í undanúrslit A-liðakeppni mótsins en töpuðu 2-1 fyrir Þrótti sem stóðu síðan uppi sem sigurvegarari, en Grótta endaði í 4. sæti.
Gróttustelpurnar upplifðu bæði sigra, töp og jafntefli, en leikgleðin var aldrei langt undan. Það er mikil upplifun að spila á Símamótinu og alltaf mikið tilhlökkunarefni hjá ungum knattspyrnukonum. Keppendum frá Gróttu fer fjölgandi með ári hverju sem er skýrt merki um uppgang kvennafótboltans á Nesinu.
Stelpurnar stóðu sig með prýði á mótinu og voru Gróttu til sóma 👏🏼
Myndir: Eyjólfur Garðarsson og Sporthero.

Ungir leikmenn semja við Gróttu

Í morgun skrifaði knattspyrnudeild Gróttu undir samninga út árið 2021 við sex leikmenn meistaraflokks kvenna. Um er að ræða stelpur á aldrinum 16-19 ára sem komu flestar inn í liðið í fyrra og hafa allar spilað með Gróttu í Lengjudeildinni í sumar. 

Þetta eru þær Tinna Brá Magnúsdóttir (16 ára), Rakel Lóa Brynjarsdóttir (16 ára), María Lovísa Jónasdóttir (17 ára), Lovísa Scheving (17 ára), Helga Rakel Fjalarsdóttir Hagalín (19 ára) og Edda Björg Eiríksdóttir (19 ára). 

Tinna Brá, Rakel Lóa, María Lovísa og Lovísa eru allar uppaldar í Gróttu. Tinna er markmaður, Rakel getur bæði leikið sem varnar- og miðjumaður, María leikur sem framherji eða kantmaður og Lovísa dreifir spilinu á miðjunni.

Helga Rakel er uppalin í Vesturbænum og lék upp yngri flokkana með KR og Gróttu/KR. Helga, sem leikur sem miðjumaður, var á láni hjá Gróttu í fyrra en skipti alfarið yfir síðasta haust. Edda Björg er uppalin á Höfn – hún lék með Sindra til 15 ára aldurs þar til hún skipti yfir í Val. Edda, sem getur bæði leikið sem kantmaður og bakvörður, gekk til liðs við Gróttu í vetur. 

„Það er mikið gleðiefni fyrir Gróttu að hafa samið við þessar frambærilegu stelpur. Þær hafa allar staðið sig vel og eru klárar í að halda áfram af fullum krafti í uppbyggingunni í Gróttu.“ sagði Magnús Örn Helgason þjálfari meistaraflokks kvenna.

„Hér erum við að semja við sex stelpur sem hafa allar spilað stórt hlutverk í sumar og munu bara eflast á næstu  árum. Framtíðin er sannarlega björt hjá meistaraflokki kvenna.“ sagði Birgir Tjörvi Pétursson formaður knattspyrnudeildar þegar samningarnir voru undirritaðir.

Tinna Brá Magnúsdóttir, Lovísa Scheving, Rakel Lóa Brynjarsdóttir, María Lovísa Jónasdóttir og Birgir Tjörvi Pétursson.

Edda Björg Eiríksdóttir og Helga Rakel Fjalarsdóttir Hagalín.

5. flokkur karla á N1 mótinu

5 flokkur karla hélt til Akureyrar í síðustu viku til að spila á hinu fræga N1 móti. Mótið hófst á miðvikudegi og spilað var til laugardags. Grótta fór með fimm lið á mótið og stóðu drengirnir sig með prýði innan sem utan vallar! Fleiri skemmtilegar myndir má sjá á instagram síðu knattspyrnudeildarinnar @grottasport

Knattspyrnudeildin semur við Arnþór Pál

Nú á dögunum var gengið frá leikmannasamningi við Arnþór Pál Hafsteinsson til næstu tveggja ára. Arnþór Páll er fæddur árið 2002 og er uppalinn hjá Gróttu. Ásamt því að spila með 2. flokki félagsins hefur hann einnig verið að spila með Kríu. Arnþór er gríðarlega efnilegur leikmaður og einn af framtíðarmönnum félagsins. Knattspyrnudeildin er því mjög ánægð með að Arnþór hafi skrifað undir samning við uppeldisfélagið sitt. Það verður spennandi að sjá hann vaxa og þroskast á næstu misserum.

6. flokkur karla á Orkumótinu í Eyjum

Eldra ár 6. flokks karla hélt til Vestmannaeyja í síðustu viku til að spila á Orkumótinu. Grótta fór með þrjú lið á mótið sem samanstóðu af 24 drengjum. Mótið gekk mjög vel fyrir sig og var hópurinn vel samstilltur og var ótrúlega góður andi í öllum sem voru í Gróttu. Öll liðin stóðu sig frábærlega á vellinum, spilið hjá drengjunum til fyrirmyndar og voru allir staðráðnir í að standa sig eins vel og þeir gátu fyrir liðsfélagana sína og sitt lið. Utan vallar voru þeir til fyrirmyndar og voru flottir fulltrúar Gróttu.

5. flokkur kvenna á TM-mótinu í Eyjum

Á dögunum héldu pæjurnar í 5. flokki Gróttu á TM-mótið í Vestmannaeyjum, betur þekkt sem Pæjumótið. Annað árið í röð fóru 34 stelpur frá Gróttu sem skipuðu fjögur lið, hvorki meira né minna!
Grótta1 gerði sér lítið fyrir og endaði í 4. sæti mótsins sem er besti árangur Gróttu frá upphafi. Ennfremur jöfnun á besta árangri 5. flokks Gróttu á stórmóti í en A-lið 5.fl.kk hjá Gróttu endaði í 4. sæti á N1-mótinu árið 2009. Arnfríður Auður Arnarsdóttir var fulltrúi Gróttu í landsleiknum og skoraði tvö mörk fyrir framan troðfulla stúku. Í mótslok var Aufí, eins og hún er oftast kölluð, valin í úrvalslið mótsins.
Grótta2 byrjaði brösuglega en komst svo á þvílíka siglingu og sigraði alla sína leiki á öðrum degi. Stelpurnar héldu áfram að spila vel á lokadeginum og voru ekki langt frá því að komast í úrslit í sinni deild. Enduðu sem fimmta hæsta B-lið mótsins.
Grótta3 byrjaði hægt en óx jafnt og þétt eftir því sem leið á mótið. Sama má í raun segja um stelpurnar í Gróttu4 en þar voru allar á sínu fyrsta Pæjumóti og þurftu því sinn tíma til að venjast aðstæður.
Auk fótboltans fór Gróttuliðið í skemmtilegra siglingu og tók þátt í hæfileikakeppni. Stelpurnar voru Gróttu til mikils sóma á móti og mikið gleðiefni að svo stórir og glæsilegir hópar stelpna séu nú á fleygiferð í fótbolta hjá Gróttu.

7. flokkur karla á Norðurálsmótinu

Helgina 19.-21. júní hélt 7. flokkur karla á Akranes til að spila á hinu fræga Norðurálsmóti. Grótta fór með 39 drengi í sjö liðum á mótið svo það var nóg um að vera hjá strákunum og þjálfurum. Spilað var á Akranesi þrjá daga í röð, föstudag til sunnudag, og gist á Skaganum. Margir voru að fara á sitt fyrsta stórmót og því mikil spenna í hópnum. Mótið gekk mjög vel hjá drengjunum og allir fóru glaðir heim, þótt margir hefðu helst vilja vera aðeins lengur 😊