Rakel Lóa valin í hóp U17 ára landsliðsins

Rakel Lóa Brynjarsdóttir hefur verið valin í hóp U17 ára landsliðs kvenna fyrir úrtaksæfingar 25.-27. janúar. Hin 16 ára Rakel á að baki 27 leiki með meistaraflokki Gróttu og hefur skorað í þeim tvö mörk. Knattspyrnudeild Gróttu óskar Rakel til hamingju með valið og góðs gengis á æfingunum 👏🏼

Meistaraflokkur kvenna 5 ára

Haustið 2015 útskrifuðust nokkrar Gróttustelpur fæddar árið 1996 úr 2. flokki en þá var enginn meistaraflokkur til staðar í félaginu. Þær langaði hvergi að æfa nema í uppeldisfélaginu og óskuðu því eftir fundi með formanni og gjaldkera knattspyrnudeildarinnar, Hilmari S. Sigurðssyni og Magnúsi Gunnarsyni, til að bera undir þá þá tillögu um að stofna meistaraflokk kvenna. Þeim tókst að hóa saman stelpum til að mynda lið og tillagan var samþykkt af stjórn deildarinnar. Guðjón Kristinsson var ráðinn þjálfari liðsins og fyrsta formlega æfing flokksins var haldin 15. janúar 2016, fyrir fimm árum síðan. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan en gaman er að líta til baka og sjá hve miklum árangri liðið hefur náð á þessum stutta tíma. Aðeins fjórum mánuðum eftir fyrstu æfingu hóf Grótta keppni í bikarkeppni og síðar Íslandsmótinu í B-deild 1. deildar. Að ári var stofnuð 2. deild þar sem Gróttukonur spiluðu þrjú sumur. Liðið komst upp um deild sumarið 2019 undir stjórn Magnúsar Arnar Helgasonar og Péturs Rögnvaldssonar. Þjálfaraskipti urðu haustið 2018 þegar Magnús tók við liðinu eftir að Gaui hafði stýrt því í þrjú tímabil.
Liðið hefur breyst mikið síðustu ár og í dag samanstendur hópurinn af ungum og uppöldum Gróttustelpum í bland við stelpur úr öðrum félögum sem margr eiga nú fjölmarga leiki fyrir Gróttu. Liðið er í stöðugri uppbyggingu og spilar í Lengjudeild kvenna í sumar í annað sinn. Umgjörðin í kringum liðið og heimaleiki er virkilega góð og erum við stolt af baklandinu sem stelpurnar eru með og hafa haft frá stofnun liðsins.
Það sem er þó einna mikilvægast er að nú geta ungar Gróttustelpur átt sér fyrirmyndir í sínu eigin félagi og drauma um að komast í meistaraflokk Gróttu.

Pétur Theodór Árnason framlengir hjá Gróttu

Pétur Theódór Árnason hefur framlegt samning sinn við knattspyrnudeild Gróttu til tveggja ára. Pétur Theódór á að baki 119 leiki fyrir Gróttu þar sem hann hefur skorað 41 mark. Pétur spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir félagið árið 2011 en hann hefur verið lykilmaður í liðinu síðustu ár. Í byrjun árs 2020 var Pétur valinn bæði íþróttamaður Gróttu og íþróttamaður Seltjarnaness ásamt því að hafa verið markahæsti leikmaður Gróttu sumarið 2019 þar sem hann skoraði 15 mörk í 22 leikjum í Inkasso-deild karla.

„Við erum himinlifandi með samkomulagið við Pétur, enda mikilvæg fyrirmynd í okkar starfi og frábær íþróttamaður. Við erum líka sannfærð um að hann haldi áfram að gleðja Seltirninga í framlínu Gróttuliðsins.
sagði Birgir Tjörvi Pétursson formaður knattspyrnudeildar Gróttu við undirritun samningsins,“

Emelía og Lilja Lív valdar í æfingahóp U16

Þær Emelía Óskarsdóttir og Lilja Lív Margrétardóttir hafa verið valdar af Jörundi Áka Sveinssyni, landsliðsþjálfara U16 kvenna, til að æfa með U16 dagana 20.-22. janúar. Grótta er stolt af því að eiga fulltrúa í þessum hóp en þær Emelía og Lilja Lív eru gríðarlega efnilegar knattspyrnukonur. Emelía, sem er 14 ára, spilaði 12 leiki með Gróttu í sumar og skoraði í þeim eitt mark. Lilja Lív, 15 ára, lék 7 leiki með Gróttu í sumar. Til hamingju stelpur 👏

Tinna Brá í Fylki

Grótta og Fylkir hafa komist að samkomulagi um félagaskipti markvarðarins efnilega Tinnu Brár Magnúsdóttur. Tinna gerir 3 ára samning við Árbæinga sem enduðu í 3. sæti í Pepsi Max deild kvenna síðasta sumar.

Tinna Brá er uppalin Gróttukona og stóð milli stanganna síðasta sumar í frumraun Gróttu í Lengjudeildinni. Frammistaða hennar vakti verðskuldaða athygli, ekki síst í ljósi þess að Tinna er aðeins 16 ára gömul. Tinna hefur leikið 24 leiki fyrir meistaraflokk Gróttu og fjóra leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Magnús Örn Helgason, annar þjálfara meistaraflokks, sagði þetta um málið: „Það er alltaf erfitt að missa góða leikmenn og það er ljóst að nú erum við komin í markmannsleit. Fyrst og fremst erum við þó stolt af Tinnu Brá. Hún hefur bætt sig mikið síðustu misseri og hefur framúrskarandi hugarfar. Við í Gróttu hlökkum til að fylgjast með henni í Pepsi Max deildinni og óskum henni alls hins besta.“

Sigurvin framlengir við Gróttu

Sigurvin Reynisson hefur framlengt samning sinn við knattspyrnudeild Gróttu til loka keppnistímabilsins 2022. Sigurvin kom til Gróttu á árinu 2015 og hefur verið í lykilhlutverki í uppgangi liðsins síðustu ár. Hann hefur leikið yfir 100 leiki fyrir meistaraflokk félagsins og verið fyrirliði liðsins síðastliðin þrjú ár.

„Við erum afar ánægð með að hafa samið við Sigurvin um að halda áfram í verkefninu hjá Gróttu. Hann hefur verið lykilmaður hjá okkur og það skiptir miklu máli að hafa leikmann með slíka reynslu í okkar forystusveit, þótt hann sé reyndar ekki nema 25 ára gamall,“ sagði Birgir Tjörvi Pétursson formaður knattspyrnudeildar Gróttu við undirritun samningsins.

„Þetta er búið að vera mikið ævintýri hjá Gróttu undanfarin ár, en mér finnst verkefninu ekki vera lokið. Hópurinn er enn ungur, margir að bæta sig og ég vil leggja mitt af mörkum áfram. Ég er spenntur fyrir komandi tímabili, síðasta ár var mjög sérstakt, en við horfum fram á veginn og ætlum okkur stóra hluti næsta sumar,“ sagði Sigurvin.

Vivaldi styrkir knattspyrnudeild Gróttu áfram

Vivaldi á Íslandi hefur gert nýjan þriggja ára styrktarsamning við knattspyrnudeild Gróttu.
Samkvæmt samningnum mun vörumerkið Vivaldi prýða keppnisbúninga meistaraflokka knattspyrnudeildar Gróttu næstu þrjú árin og völlurinn mun áfram bera nafnið Vivaldivöllurinn. Að auki prýðir vörumerkið keppnisbúninga yngri flokka félagsins.

Samningurinn er lyftistöng fyrir starfið í félaginu og með honum hefur Jón von Tetzchner forsvarsmaður fyrirtækisins enn og aftur sýnt í verki mikilvægan stuðning við uppeldisfélagið sitt.

Gróttublaðið komið út í tíunda sinn!

Gróttublaðið er komið út í tíunda sinn 👏

Fyrir jólin 2011 ákvað knattspyrnudeild Gróttu að gefa út blað þar sem farið var yfir árið hjá deildinni í máli og myndum. Á þeim tímapunkti óraði líklega engan fyrir því að árið 2020 myndi 10. blaðið koma út! Blaðið var 28 blaðsíður árið 2011 en er nú 52. 

Í blaði ársins má m.a. finna viðtal við landsliðskonuna Sveindísi Jane Jónsdóttur og önnur viðtöl við Gróttumenn- og konur sem eru að gera það gott. Þá eru yngri iðkendur einnig teknir tali og loks má ekki gleyma þeim fjölmörgu myndum sem prýða blaðið. 

Dreifing hefur gengið vel og ætti Gróttublaðið nú að vera komið í flest hús á Seltjarnarnesi.

Vefútgáfu blaðsins er að finna hér

Hákon á reynslu hjá Norrköping

Hákon Rafn Valdimarsson, markmaður Gróttu, er á leið til reynslu hjá sænska úrvaldsdeildarfélaginu Norrköping. Hákon, sem er 19 ára gamall, heldur til Svíþjóðar á fimmtudaginn og verður í eina viku. Knattspyrnudeild Gróttu heyrði hljóðið í Hákoni sem sagðist vera mjög spenntur fyrir þessu tækifæri. Grótta óskar Hákoni góðs gengis meðan á dvölinni stendur 🇸🇪⚽️

Signý til Gróttu – Margrét Rán skrifar undir

Signý Ylfa Sigurðardóttir er gengin til liðs við Gróttu frá Val og hefur skrifað undir tveggja ára samning. Signý var á láni í sumar og skoraði 3 mörk í 13 leikjum en lenti einnig í meiðslum sem héldu henni frá keppni í 6 vikur. Signý er 19 ára gömul og á að baki þrjá leiki fyrir U16 ára landslið Íslands. Við sama tækifæri skrifaði hin 17 ára Margrét Rán Rúnarsdóttir undir tveggja ára samning við Gróttu. Margrét kom sterk til baka í sumar eftir að hafa verið frá í heilt ár vegna höfuðmeiðsla. Hún kom við sögu í 12 leikjum með meistaraflokki og var lykilmanneskja í 2. flokki Gróttu/KR sem sigraði B-deild Íslandsmótsins. Magnús Örn, annar þjálfara Gróttuliðsins, fagnar því að stelpurnar hafi skrifað undir: „Það var frábært að sjá Margréti snúa aftur á völlinn í sumar eftir langa fjarveru. Það er hægara sagt en gert að vera svona lengi frá en margir hefðu hreinlega gefist upp. Það verður gaman fyrir okkur þjálfarana að geta unnið með Margréti allt tímabilið og sömuleiðis Signýju sem kom til okkar rétt fyrir Covid pásuna í mars. Nú er hún orðin innvígð Gróttukona sem eru gleðifréttir fyrir félagið.“