Níu leikmenn mfl. kvk. skrifa undir til tveggja ára

Okkur er sönn ánægja að segja frá því að þær Bjargey Sigurborg Ólafsson, Edda Steingrímsdóttir, Jórunn María Þorsteinsdóttir, Nína Kolbrún Gylfadóttir, María Lovísa Jónasdóttir, Margrét Rán Rúnarsdóttir, Sigrún Ösp Aðalgeirsdóttir, Tinna Bjarkar Jónsdóttir og Patricia Dúa Thompson Landmark hafa skrifað undir samning við knattspyrnudeild Gróttu til næstu tveggja ára. Þær eru allar mikilvægir hlekkir í Gróttuliðinu og við hlökkum til að takast á við verkefnin sem framundan eru með þeim 🤝

Pétur Rögnvaldsson tekur við meistaraflokki kvenna

Það er ánægjulegt að segja frá því að knattspyrnudeild Gróttu hefur gengið frá samningi við Pétur Rögnvaldsson sem aðalþjálfara meistaraflokks kvenna til næstu tveggja ára.

Hinn 28 ára gamla Pétur þarf ekki að kynna fyrir Gróttufólki en hann hefur þjálfað hjá knattspyrnudeildinni frá árinu 2015. Pétur var ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna í janúar 2019 og um haustið 2020 varð hann aðalþjálfari ásamt Magnúsi Erni. Pétur er með UEFA-B þjálfaragráðu og BSc gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Knattspyrnudeild Gróttu fagnar því að hafa Pétur áfram með meistaraflokk kvenna 👏🏼

Katrín Helga og íslenska landsliðið í 5. sæti

Undanfarna daga hefur B-keppni EM hjá U19 ára landsliði kvenna farið fram í Norður Makedónía. Við vorum búin að segja frá því að Ísland missti sorglega af sæti í undanúrslitunum og þurfti því að leika um 5. – 8.sætið.

Fyrri leikurinn var gegn Kosóvó og vannst hann örugglega 37-23. Með þeim úrslitum léku íslensku stelpurnar við heimasæturnar í Norður Makedóníu um 5. sætið.

Íslenska liðið var betri aðilinn stærstan hluta leiksins en Norður Makedónía skoruðu seinustu mörk leiksins og jafntefli niðurstaðan, 28-28. Í vítakeppninni sem var að ljúka höfðu íslensku stelpurnar betur og uppskáru 5. sætið.

Okkar manneskja, Katrín Helga Sigurbergsdóttir lék stórt hlutverk með U19 ára liðinu í keppninni, sérstaklega í dag gegn Norður Makedóníu og stóð sig vel.

Áfram Grótta og áfram Ísland !

Myndir: EHF

Helga Guðrún framlengir

Hornamaðurinn Helga Guðrún Sigurðardóttir hefur framlengt samning sinn við Gróttu um 2 ár. Helga sem er 20 ára gömul og uppalin hjá félaginu spilaði á síðastliðnu keppnistímabili 15 leiki og skoraði í þeim 12 mörk í Gróttu-liðinu sem endaði í 4.sæti Grill-66 deildarinnar þegar tímabilinu var aflýst.

Halda áfram að lesa

Hulda Sigurðardóttir til Gróttu

Hulda Sigurðardóttir er genginn til liðs við Gróttu á láni frá Fylki. Hulda, sem er fædd árið 1993, hefur spilað 123 leiki (48 í efstu deild) með Leikni, Haukum og Fylki og skorað í þeim 24 mörk. Þá á Hulda að baki 10 leiki með yngri landsliðum Íslands.
Magnús Örn Helgason þjálfari Gróttu fagnar komu Huldu á Nesið. „Það er frábært fyrir okkar unga lið að fá hæfileikaríkan og reynslumikinn leikmann eins og Huldu í okkar raðir. Hún getur spilað margar stöður og brotið leikinn upp. Hulda er sterkur karakter og strax á hennar fyrstu æfingum hefur sést hve öfluga keppnismanneskju hún hefur að geyma.“ Hulda var einnig mjög kát með skiptin yfir í Gróttu. „Ég er mjög glöð að vera komin í Gróttu og hlakka til að byrja að spila. Það er mikil stemning og metnaður innan hópsins og móttökurnar sem ég fékk voru frábærar. Vonandi get ég hjálpað liðinu að eiga frábært sumar í Lengjudeildinni.“