Samningar við unga og efnilega leikmenn

Grótta heldur áfram að framlengja leikmannasamninga við unga og efnilega leikmenn félagsins. Samningarnir eru til tveggja ára og eru hluti af framtíðaráformum félagsins við að byggja upp meistaraflokkinn með leikmönnum Gróttu.

Allir leikmennirnir eru lykilleikmenn í 3.flokki og U-liði félagsins. Leikmennirnir eru Bessi Teitsson, Hrafn Ingi Jóhannsson, Kári Benediktsson og Þórður Magnús Árnason,

* Bessi er 18 ára gamall. Hann rétthentur hornamaður og öskurfljótur sem slíkur. Hann býr yfir mikilli skottækni.

* Hrafn Ingi er 18 ára gamall og er fjall að burðum. Hann er línumaður og öflugur varnarmaður.

* Kári er 17 ára gamall. Hann er örvhentur og leikur sem hornamaður. Hann er hávaxinn og sterkur.

* Þórður Magnús er 17 ára gamall. Hann er metnaðarfullur markvörður sem ætlar sér langt. Hann býr yfir snerpu og góðum staðsetningum.

Allir leikmennirnir voru tvívegis í leikmannahópi meistaraflokks á nýafstaðinni leiktíð. Við munum án efa fá að sjá þá enn oftar á næstu leiktíð.

Grótta er virkilega ánægt með samningana enda eru þeir mikilvægur liður í framtíðaráformum félagsins.

„Við erum mjög ánægðir að vera búnir að semja við þessa ungu stráka. Þessir strákar hafa verið viðloðandi meistaraflokkinn síðastliðinn vetur og því eðlileg þróun að þeir stígi næsta skref og verði partur af uppbyggingunni,“ sagði Róbert Gunnarsson þjálfari Gróttuliðsins.

Arnari veitt gullmerki HSÍ og silfurmerki ÍSÍ

Ársþing HSÍ fór fram miðvikudaginn 19.júní síðastliðinn í Laugardalshöll. Eins og venja ber á ársþingum þá eru reikningar og skýrsla stjórnar síðasta árs lagðir fram, stjórnarkjör fer fram og önnur mál sem fram koma í lögum sambandsins.

Gróttumaðurinn Arnar Þorkelsson hefur setið í stjórn HSÍ sem gjaldkeri undanfarin 8 ár. Hann hefur ákveðið að hætta í stjórn sambandsins og við það tilefni var honum afhent gullmerki HSÍ fyrir frábær störf fyrir handboltann í landinu. Við sama tilefni var honum einnig afhent silfurmerki ÍSÍ fyrir sín störf.

Þó að Arnar hafi byrjað ungur að æfa handbolta hjá Gróttu, þjálfað yngri flokka, setið í barna- og unglingaráði, setið í nefndum á vegum Gróttu, verið formaður Handknattleikadeildar Gróttu og setið í stjórn HSÍ í 8 ár, þá er hann engan veginn hættur. Hann hefur tekið sæti í barna- og unglingaráði Handknattleiksdeildar Gróttu.

Til hamingju Arnar !

Ungir og efnilegir skrifa undir

Grótta hefur framlengt samninga sína til tveggja ára við unga og efnilega leikmenn félagsins sem hluta af uppbyggingu félagsins. Allir leikmennirnir eru lykilleikmenn í 3.flokki og U-liði félagsins. Leikmennirnir eru Alex Kári Þórhallsson, Gísli Örn Alfreðsson, Hannes Pétur Hauksson og Sverrir Arnar Hjaltason.

* Alex Kári er 18 ára gamall. Hann örvhentur og getur bæði leikið sem skytta og hornamaður. Hann er klókur leikmaður og spilar vel upp á félaga sína í liðinu.

* Gísli Örn er 17 ára gamall og getur bæði leikið sem leikstjórnandi og skytta. Hann er góður skotmaður, fylginn sér og öflugur beggja megin vallarins.

* Hannes Pétur er 18 ára gamall og er hávaxinn markvörður. Hann hefur góðar staðsetningar, les skotin vel og hefur góða sendingagetu.

* Sverrir Arnar er 16 ára gamall og er línumaður. Hann er nautsterkur, viljugur og hefur stigið stór framfaraskref síðastliðinn vetur.

Gísli og Hannes hafa hlotið eldskírn sína í Olísdeildinni á meðan Alex og Sverrir eiga hana eftir og vonandi kemur hún á næstu misserum.

Grótta er virkilega ánægt með samningana enda eru þeir mikilvægur liður í framtíðaráformum félagsins.

„Við erum mjög ánægðir að vera búnir að semja við þessa ungu stráka. Þessir strákar hafa flestir verið viðloðandi meistaraflokkinn síðastliðinn vetur og því eðlileg þróun að þeir stígi næsta skref og verði partur af uppbyggingunni,“ sagði Róbert Gunnarsson þjálfari Gróttuliðsins.

Aufí og Rebekka á leið til Finnlands með U16 ára landsliðinu

Gróttukonurnar Arnfríður Auður Arnarsdóttir og Rebekka Sif Brynjarsdóttir eru á leið til Finnlands með U16 ára landsliðinu sem tekur þátt í Norðurlandamótinu dagana 1. til 7. júlí næstkomandi. Knattspyrnudeild Gróttu er hreykin af því að eiga svona flotta fulltrúa innan þessa hóps. Aufí og Rebekka eru báðar leikmenn meistaraflokks Gróttu og gríðarlega efnilegar knattspyrnukonur.

Ísland mætir Englandi í fyrsta leik sínum á mótinu mánudaginn 1. júlí kl. 10:00. Úrslit leiksins skera svo úr um það hvaða liði það mætir í leik tvö og þrjú.
Það verður spennandi að fylgjast með þeim í Finnlandi í júlí!

Til hamingju stelpur og gangi ykkur vel!

Elvar Otri framlengir

Leikstjórnandinn og skyttan Elvar Otri Hjálmarsson hefur framlengt samning sinn við Handknattleiksdeild Gróttu til tveggja ára. Elvar er 23 ára gamall og kom til Gróttu frá Fjölni fyrir tveimur árum síðan. Hann fór mikinn á nýafstöðu leiktímabili en þá skoraði hann 44 mörk og var öflugur í varnarleik Gróttuliðsins.

Það eru frábært tíðindi að Elvar verði áfram í Gróttu enda mikilvægur hlekkur í liðinu. Það verður gaman að sjá hann og Gróttuliðið taka næsta skref á næsta leiktímabili.

Atli Steinn í Gróttu

Atli Steinn Arnarson hefur skrifað undir tveggja ára samning við Handknattleiksdeild Gróttu. Atli Steinn er tvítug skytta sem hefur leikið með FH undanfarin ár. Atli Steinn fór á lán til HK um stundar sakir á síðasta leiktímabili og skoraði 17 mörk í 5 leikjum. Þess fyrir utan skoraði hann 9 mörk með FH í Olísdeildinni. Atli Steinn hefur leikið með yngri landsliðum Íslands undanfarin ár og fer til Slóveníu á EM U20 ára landsliða í júlí.

„Atli Steinn er mjög efnileg skytta sem verður virkilega góð viðbót við Gróttuliðið. Hann er kraftmikill leikmaður sem nýtist okkur vel. Það verður gaman að vinna með honum“. sagði Róbert Gunnarsson þjálfari Gróttu við undirritun samningsins.

Á myndinni má sjá Arnkel Bergmann Arnkelsson varaformann Handknattleiksdeildar Gróttu og Atla Stein handsala samninginn.

Velkominn í Gróttu, Atli Steinn !

Sæþór í Gróttu

Sæþór Atlason hefur skrifað undir tveggja ára samning við Handknattleiksdeild Gróttu. Sæþór er tvítugur og er örvhentur hornamaður. Sæþór kemur frá Selfossi þar hann er uppalinn. Hann skoraði 27 mörk fyrir Selfyssinga í Olísdeildinni í vetur. Hann hefur leikið með yngri landsliðum Íslands undanfarin ár.

„Það er mikill fengur í Sæþóri. Hann er virkilega öflugur hornamaður og gríðarlega hraður. Hann mun því smellpassa í Gróttuliðið. Ég hlakka mikið til að vinna með honum næstu árin.“ sagði Róbert Gunnarsson þjálfari Gróttuliðsins þegar samningar voru í höfn.

Á myndinni má sjá Ólaf Finnbogason formann Handknattleiksdeildar Gróttu og Sæþór Atlason handsala samninginn.

Velkominn í Gróttu, Sæþór !

Katrín Anna framlengir

Örvhenti hornamaðurinn Katrín Anna Ásmundsdóttir hefur framlengt samning sinn við Gróttu til ársins 2026. Katrín Anna hefur þrátt fyrir ungan aldur leikið með Gróttu til fjölda ára og á 98 leiki fyrir meistaraflokk félagsins.

Það eru frábær tíðindi að Katrín Anna verði áfram í herbúðum félagsins enda lykilleikmaður liðsins. Hún leikur á HM með U20 ára landslið kvenna síðar í mánuðnum. Þess fyrir utan var hún valin í æfingahóp A-landsliðs kvenna á vormánuðum.

Það eru gríðarleg ánægja með að Katrín Anna verði áfram í herbúðum Gróttu næstu árin enda liðið komið meðal bestu liða landsins í Olísdeild kvenna.

Aðalfundir Gróttu 2024

Aðalfundir deilda Íþróttafélagsins Gróttu fóru fram miðvikudaginn 29. maí og fóru þeir fram í hátíðarsal félagsins.

Ólafur Örn Svansson hélt um fundarstjórnina en fundurinn hófst með skýrslu Þrastar Þórs Guðmundssonar, formanns aðalstjórnar og í kjölfarið komu formenn deilda í pontu og fóru yfir starfið á árinu.

Þröstur Þór Guðmundsson var að klára sitt síðasta ár sem formaður og Karítas Kjartansdóttir hefur tekið við af honum. Kristinn Þorvaldsson og Ragnar Rafnsson voru í fyrra kosnir til tveggja ára en Svala Sigurðardóttir og Anna Bjög Erlingsdóttir hlutu endurkjör í stjórn aðalstjórnar.

Guðjón Rúnarsson hlaut endurkjör sem formaður fimleikadeildarinnar. Jóhanna Sigmundsdóttir og Fanney Magnúsdóttir hlutu einnig endurkjör í stjórn fimleikadeildar. Annars voru breytingar á stjórn fimleikadeildar þannig að Anna Dóra Ófeigsdóttir og Sölvi Sturluson hættu og eftirfarandi komu í þeirra stað: Bylgja Ýr Tryggvadóttir, Birna Friðgeirsdóttir, Harpa Hlíf Bárðardóttir, Tinna Molphy, Tinna Rut Traustadóttir og Þórunn Rafnar Þorsteinsdóttir. María Björg Magnúsdóttir og Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir hættu sem varamenn og í stað þeirra koma Guðni Steinarsson og Margrét Hauksdóttir.

Ingvi Arnar Sigurjónsson bættist við í stjórn knattspyrnudeildar en að öðru leiti voru ekki gerðar fleiri breytingar og stjórnin því núna skipuð þeim Þorsteinn Ingasyni formanni, Hörpu Frímansdóttur, Ingva Arnari Sigurjónssyni, Kristínu Huld Þorvaldsdóttur, Stefáni Bjarnasyni, Helga Héðinssyni og Hildi Ólafsdóttir. 

Ólafur Finnbogason heldur áfram sem formaður handknattleiksdeildarinnar og meðstjórnendur eru Andri Guðmundsson, Arnkell Bergmann Arnkelsson, Erla Gísladóttir, Harpa Guðfinnsdóttir, Kristbjörg Heiður Olsen og Viggó Kristjánsson.

Hulda Björk Halldórsdóttir hlaut endurkjör sem formaður barna- og unglingaráðs handknattleiksdeildar og með henni áfram eru Arndís María Erlingsdóttir, Eva Björk Hlöðversdóttir, Sunna Stefánsdóttir og Stefán Ólafur Stefánsson. Guðrún Dóra Bjarnadóttir hættir og í hennar stað kemur Arnar Þorkelsson.

Eyjólfur Garðarsson ljósmyndari félagsins mætti svæðið og tók frábærar myndir.

Leikjadagatal í júní

Sjáumst á vellinum í júní!

Hér má sjá dagskránna í júní og hvetjum við Gróttufólk að vista þessa mynd hjá sér og taka dagana frá. Gulmerktu dagarnir eru kvennaleikir og blámerktu eru karlaleikir 💙💛

ÁFRAM GRÓTTA!