Arnar Þór og Kristófer Orri framlengja hjá Gróttu

Þeir Arnar Þór Helgason og Kristófer Orri Pétursson hafa framlengt samninga sína við knattspyrnudeild Gróttu til tveggja ára.

Arnar Þór er 24 ára gamall miðvörður, sem hefur verið lykilmaður í vörn Gróttuliðsins síðastliðin ár ásamt því að vera afar ógnandi í vítateig andstæðinganna. Arnar Þór á að baki 83 leiki fyrir Gróttu og hefur skorað í þeim 9 mörk, en hann lék sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk félagsins árið 2016.

Kristófer Orri er 22 ára gamall miðjumaður, sem á að baki 74 leiki fyrir Gróttu, en hann lék sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk félagsins árið 2017. Kristófer hefur skorað 8 mörk fyrir meistaraflokk Gróttu og lagt upp fjölda marka fyrir félaga sína, sem hefur verið hans aðalsmerki. Enginn leikmaður gaf fleiri stoðsendingar í Pepsi Max deildinni sl. sumar en Kristófer Orri en þær voru 7 talsins

Samningarnir við Arnar Þór og Kristófer Orra eru mikið fagnaðarefni fyrir knattspyrnudeild Gróttu og alla stuðningsmenn félagsins.

Rakel Lóa valin í hóp U17 ára landsliðsins

Rakel Lóa Brynjarsdóttir hefur verið valin í hóp U17 ára landsliðs kvenna fyrir úrtaksæfingar 25.-27. janúar. Hin 16 ára Rakel á að baki 27 leiki með meistaraflokki Gróttu og hefur skorað í þeim tvö mörk. Knattspyrnudeild Gróttu óskar Rakel til hamingju með valið og góðs gengis á æfingunum 👏🏼

Meistaraflokkur kvenna 5 ára

Haustið 2015 útskrifuðust nokkrar Gróttustelpur fæddar árið 1996 úr 2. flokki en þá var enginn meistaraflokkur til staðar í félaginu. Þær langaði hvergi að æfa nema í uppeldisfélaginu og óskuðu því eftir fundi með formanni og gjaldkera knattspyrnudeildarinnar, Hilmari S. Sigurðssyni og Magnúsi Gunnarsyni, til að bera undir þá þá tillögu um að stofna meistaraflokk kvenna. Þeim tókst að hóa saman stelpum til að mynda lið og tillagan var samþykkt af stjórn deildarinnar. Guðjón Kristinsson var ráðinn þjálfari liðsins og fyrsta formlega æfing flokksins var haldin 15. janúar 2016, fyrir fimm árum síðan. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan en gaman er að líta til baka og sjá hve miklum árangri liðið hefur náð á þessum stutta tíma. Aðeins fjórum mánuðum eftir fyrstu æfingu hóf Grótta keppni í bikarkeppni og síðar Íslandsmótinu í B-deild 1. deildar. Að ári var stofnuð 2. deild þar sem Gróttukonur spiluðu þrjú sumur. Liðið komst upp um deild sumarið 2019 undir stjórn Magnúsar Arnar Helgasonar og Péturs Rögnvaldssonar. Þjálfaraskipti urðu haustið 2018 þegar Magnús tók við liðinu eftir að Gaui hafði stýrt því í þrjú tímabil.
Liðið hefur breyst mikið síðustu ár og í dag samanstendur hópurinn af ungum og uppöldum Gróttustelpum í bland við stelpur úr öðrum félögum sem margr eiga nú fjölmarga leiki fyrir Gróttu. Liðið er í stöðugri uppbyggingu og spilar í Lengjudeild kvenna í sumar í annað sinn. Umgjörðin í kringum liðið og heimaleiki er virkilega góð og erum við stolt af baklandinu sem stelpurnar eru með og hafa haft frá stofnun liðsins.
Það sem er þó einna mikilvægast er að nú geta ungar Gróttustelpur átt sér fyrirmyndir í sínu eigin félagi og drauma um að komast í meistaraflokk Gróttu.

Kjör íþróttamanns og íþróttakonu Gróttu

Afhending verðlauna fyrir íþróttafólk Gróttu fyrir árið 2020 fór fram með öðru sniði í ár. Við tókum saman myndband þar sem er að finna samantekt á afhendingu verðlauna, myndum af merkjahöfum og kynningar frá Braga Björnssyni formanni Gróttu.

Pétur Theodór Árnason framlengir hjá Gróttu

Pétur Theódór Árnason hefur framlegt samning sinn við knattspyrnudeild Gróttu til tveggja ára. Pétur Theódór á að baki 119 leiki fyrir Gróttu þar sem hann hefur skorað 41 mark. Pétur spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir félagið árið 2011 en hann hefur verið lykilmaður í liðinu síðustu ár. Í byrjun árs 2020 var Pétur valinn bæði íþróttamaður Gróttu og íþróttamaður Seltjarnaness ásamt því að hafa verið markahæsti leikmaður Gróttu sumarið 2019 þar sem hann skoraði 15 mörk í 22 leikjum í Inkasso-deild karla.

„Við erum himinlifandi með samkomulagið við Pétur, enda mikilvæg fyrirmynd í okkar starfi og frábær íþróttamaður. Við erum líka sannfærð um að hann haldi áfram að gleðja Seltirninga í framlínu Gróttuliðsins.
sagði Birgir Tjörvi Pétursson formaður knattspyrnudeildar Gróttu við undirritun samningsins,“

Emelía og Lilja Lív valdar í æfingahóp U16

Þær Emelía Óskarsdóttir og Lilja Lív Margrétardóttir hafa verið valdar af Jörundi Áka Sveinssyni, landsliðsþjálfara U16 kvenna, til að æfa með U16 dagana 20.-22. janúar. Grótta er stolt af því að eiga fulltrúa í þessum hóp en þær Emelía og Lilja Lív eru gríðarlega efnilegar knattspyrnukonur. Emelía, sem er 14 ára, spilaði 12 leiki með Gróttu í sumar og skoraði í þeim eitt mark. Lilja Lív, 15 ára, lék 7 leiki með Gróttu í sumar. Til hamingju stelpur 👏

Tinna Brá í Fylki

Grótta og Fylkir hafa komist að samkomulagi um félagaskipti markvarðarins efnilega Tinnu Brár Magnúsdóttur. Tinna gerir 3 ára samning við Árbæinga sem enduðu í 3. sæti í Pepsi Max deild kvenna síðasta sumar.

Tinna Brá er uppalin Gróttukona og stóð milli stanganna síðasta sumar í frumraun Gróttu í Lengjudeildinni. Frammistaða hennar vakti verðskuldaða athygli, ekki síst í ljósi þess að Tinna er aðeins 16 ára gömul. Tinna hefur leikið 24 leiki fyrir meistaraflokk Gróttu og fjóra leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Magnús Örn Helgason, annar þjálfara meistaraflokks, sagði þetta um málið: „Það er alltaf erfitt að missa góða leikmenn og það er ljóst að nú erum við komin í markmannsleit. Fyrst og fremst erum við þó stolt af Tinnu Brá. Hún hefur bætt sig mikið síðustu misseri og hefur framúrskarandi hugarfar. Við í Gróttu hlökkum til að fylgjast með henni í Pepsi Max deildinni og óskum henni alls hins besta.“