Fjör hjá 7.flokki kvenna

Helgina 9. -10. október kepptu stelpurnar í 7. flokki kvenna í Egilshöllinni í Grafarvogi. Þetta er fyrsta mót vetrarins hjá stelpunum og því fylgdi mikil tilhlökkun að keppa loksins á móti. Við í Gróttu tefldum fram þremur liðum og spiluðu þau öll fjóra leiki. Stelpurnar stóðu sig vel og hlakka til að bæta sig enn frekar fyrir næsta mót.

Þjálfarar 7.flokks kvenna eru Andrea Rut Eiríksdóttir og Ari Pétur Eiríksson.

Arnfríður Auður í Hæfileikamótun KSÍ

Arnfríður Auður Arnarsdóttir er í hóp leikmanna sem hafa verið valdir til að taka þátt á æfingum í Hæfileikamótun stúlkna dagana 27.-29. október 2021.

Æfingarnar fara fram í Skessunni í Kaplakrika í Hafnarfirði og hafa hafa 64 stúlkur frá félögum víðs vegar af landinu verið boðaðar til æfinga.

Grótta er hreykið af því að eiga fulltrúa í þeim hóp og óskar Aufí góðs gengis á æfingunum! 

Pétur Rögnvaldsson tekur við meistaraflokki kvenna

Það er ánægjulegt að segja frá því að knattspyrnudeild Gróttu hefur gengið frá samningi við Pétur Rögnvaldsson sem aðalþjálfara meistaraflokks kvenna til næstu tveggja ára.

Hinn 28 ára gamla Pétur þarf ekki að kynna fyrir Gróttufólki en hann hefur þjálfað hjá knattspyrnudeildinni frá árinu 2015. Pétur var ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna í janúar 2019 og um haustið 2020 varð hann aðalþjálfari ásamt Magnúsi Erni. Pétur er með UEFA-B þjálfaragráðu og BSc gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Knattspyrnudeild Gróttu fagnar því að hafa Pétur áfram með meistaraflokk kvenna 👏🏼

STARFSMANNAKYNNING GRÓTTU

Á næstu vikum ætlum við að kynnast starfsmönnum mannvirkja Gróttu aðeins betur. Jóhanna Selma verður sú fyrsta en hún fagnar 1. nóvember næstk. 5 ára starfsafmæli hjá Gróttu.

Nafn: Jóhanna Selma Sigurardóttir
Gælunafn: Jóa
Fyrri störf: Hef meðal annars unnið í barnagæslunni hjá World Class og sem húsvörður hjá HK í Kórnum.
Hve lengi starfað hjá Gróttu: Byrjaði 1. nóvember 2016 og fagna því fljótlega 5 ára starfsafmæli.
Hvar ólstu upp ? Ég ólst upp í Kópavogi.
Áhugamál: Elska útiveru, Hestar, skíði, handbolti og fótbolti.
Stundaðir þú íþróttir: já, var í fótbolta hjá FH.
Uppáhalds tónlistarmaður: Villi Vill er í miklu uppáhaldi og svo ABBA til að að nefna einhverja
Bíómynd í uppáhaldi: Spennumyndir eru í uppáhaldi, t.d. Double Jeopardy
Uppáhalds matur: Lamb með berniese sósu og bakaðri kartöflu.
Skilaboð til foreldra: Ég kem fram við börnin ykkar eins og ég vil að þau komi fram við mig af virðingu.

LUMAR ÞÚ Á LJÓSMYNDUM ÚR SÖGU GRÓTTU ?

Íþróttafélagið Grótta er í átaki að leita uppi ljósmyndir úr starfi Gróttu í gegnum tíðina. Hrafnhildur Thoroddsen sem kemur til okkar þrisvar í viku og hefur skannað fjöldann allar af myndum sem hafa safnast saman síðastliðin ár hjá okkur á skrifstofu Gróttu. 

Við byrjuðum fyrir tæpu ári með átakið á Facebook síðu Gróttu og höfum við fengið fjöldan allan af ljósmyndum. Við setjum inn gamlar Gróttumyndir á Facebook síðu reglulega. Sjá hér.

Við viljum líka taka við stafrænum myndum sem við getum geymt á skýinu okkar. 
Nánar upplýsingar gullijons@grotta.is

Chris Brazell tekur við meistaraflokki karla

Það er mikið gleðiefni fyrir knattspyrnudeild Gróttu að hafa gengið frá samningi við Chris Brazell sem aðalþjálfara meistaraflokks karla til næstu þriggja ára. 

Hinn 29 ára gamli Chris hóf störf hjá knattspyrnudeildinni fyrir tveimur árum og hefur starfað sem yfirþjálfari yngri flokka síðan, ásamt því að hafa starfað sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla síðasta árið, í góðu samstarfi við Ágúst Þór Gylfason. Chris er með UEFA-A þjálfaragráðu og BA gráðu í alþjóðasamskiptum frá University of Lincoln. Chris starfaði í fjögur ár í akademíu enska úrvaldsdeildarliðsins Norwich City þar sem hann var m.a. aðalþjálfari U14 ára liðs félagsins og vann með leikmönnum sem voru að stíga sín fyrstu skref í aðalliðinu. Chris hefur auk þess verið í starfsnámi hjá þýsku liðunum Borussia Dortmund og FC Köln. 

Knattspyrnudeild Gróttu telur ráðningu þessa unga þjálfara í anda þess sem Grótta stendur fyrir, þ.e. að gefa ungu hæfileikafólki tækifæri, bæði leikmönnum og þjálfurum. Það sé hluti af því sem gerir Gróttu lifandi og skemmtilegt félag, alltaf opið fyrir ferskum straumum, nýjum hæfileikum og gefur fólki frelsi til að þroskast við stórar áskoranir. Deildin fagnar því að hafa Chris áfram í lykilhlutverki hjá félaginu í því uppbyggingastarfi sem deildin hefur staðið fyrir undanfarin ár.

Þjónustukönnun Gróttu 2021

Þjónustukönnun Íþróttafélagsins Gróttu var gerð dagana 2.-25. júní síðastliðinn. Könnunin var framkvæmd af Hólmfríði Önnu Martel Ólafsdóttur fyrir Gróttu.

Almennt má segja að ánægja foreldra með starfið sem fram fer í Gróttu sé mikil, heildaránægja mælist 4,04 af 5 mögulegum. Mjög jákvætt er að sjá líðan barna er sá þáttur sem er hæst metinn eða 4,40 sem er gríðarlega mikilvægur mælikvarði fyrir Gróttu.

Í ár spurðum við aftur sérstaklega um COVID-19. Almenn ánægja var með upplýsingagjöf Gróttu vegna faraldursins en 82% foreldra voru ýmist mjög ánægð eða frekar ánægð með upplýsingagjöf félagsins.

Niðurstöður þjónustukönnunarinnar fyrir Gróttu í heild og einstaka deildir má sjá með því að smella hér.

Árskortin komin í sölu

Handknattleiksdeild Gróttu hefur hafið sölu á árskortum vetrarins Boðið er upp á fimm mismunandi gerðir af árskortum sem henta fjölbreyttum hópi áhorfenda. Athygli er vakin á að miðaverð á leiki í vetur er 2000 kr. Sala á heimaleikjakortum er stór fjáröflunarþáttur í starfi félagsins.

Halda áfram að lesa